Vörugjald af ökutækjum

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:37:22 (5170)


[15:37]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :

    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. á þskj. 894 um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn Snorra Olsen, Jón Guðmundsson og Braga Gunnarsson frá fjmrn.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem er á sama þskj. og lýtur að því að fjmrh. sé heimilt að endurgreiða hópferða- og sérleyfishöfum og fjármögnunarleigum allt að tveimur þriðju hlutum þess vörugjalds á hópferðabifreiðar fyrir 18 farþega og fleiri sem voru keyptar frá 1. júlí 1993 til 1. mars 1995. Endurgreiðslan skal þó takmörkuð við þann hluta vörugjalds sem ekki hefur verið afskrifaður.
    Þetta ákvæði á sér nokkra forsögu og er tilkomið af því að við lagabreytingu um áramótin 1992/1993 var það ákveðið að hópferðaakstur færi inn í virðisaukaskattskerfið. Það var síðan tekið af og átti að taka gildi árinu seinna. Það var aftur tekið af þá með lögum en nokkur hluti rekstraraðila hópferða- og sérleyfisbifreiða hafði í millitíðinni fjárfest og reiknað með því að þeir fengju virðisaukaskattinn endurgreiddan.
    Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í fjmrn. og í efh.- og viðskn. í samráði við þessa hagsmunaaðila í allan vetur. Þar voru uppi ýmsar hugmyndir, m.a. að þeir fengju eins og skip og flugvélar virðisaukaskattinn endurgreiddan af fjárfestingum. Um það náðist ekki samstaða en þetta er sú lending sem menn náðu og hluti af því frv. sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt er að lækka vörugjaldið úr 20 í 5 og sömuleiðis að það verði afturvirkt hvað þetta snertir.
    Nokkuð var fjallað um það í nefndinni í tengslum við þetta mál að fyrir tveimur árum síðan var að frumkvæði nefndarinnar sett heimild í lög um að fjmrh. væri heimilt að lækka vörugjald af leigubílum niður í 30%. Nefndarmenn hafa fylgst með framkvæmd þessa og hefur þeim þótt að þær reglur sem um þetta voru settar væru svo strangar að það væru mjög fáir leigubílstjórar sem gætu notið þeirra. Hefur nefndin ítrekað lagt það til við ráðuneytið og ráðherra að því væri breytt. Í umfjöllun um málið fengum við í hendurnar minnisblað undirritað af hæstv. fjmrh. Friðriki Sophussyni þar sem þessum reglum er breytt og viðmiðunartekjurnar sem leigubílstjórar þurfa að hafa lækkaðar úr 1.200 þús. niður í 1.080 þús. eða um 120 þús. Auk þess er heimilað að það verði tekin tvö af þrem síðustu árum þegar þetta er reiknað út þannig að menn geti þá fellt út eitt ár ef það kemur sérstaklega út tekjulega. Það er m.a. gert vegna þess að á það hefur verið bent að ekki þyrfti annað en að menn lentu í alvarlegri vélarbilun eða bilun á bíl þá lækkuðu tekjurnar svo mikið, því þarna er reiknað með nettótekjum, að menn féllu ekki undir þetta.
    Ég vil einnig benda á varðandi leigubílstjóra og því hvernig þeir geta endurnýjað sinn flota, sem ég hef margsinnis bent á í þinginu að þeir þyrftu að geta gert, að með þeirri breytingu sem gerð er á vörugjaldinu á bifreiðum með þeim níu flokkum sem eru fyrir dísilbifreiðar þá er flokkurinn 0--1.900 rúmsentimetrar kominn niður í 30% vörugjald þannig að bifreiðar í þeim flokki sem eru hliðstæðar og sömu gerðar og leigubílstjórar eru í dag að nokkru leyti að endurnýja með eru þar með komnar í þennan flokk algjörlega kvaðalaust. Ég bendi einnig á að þetta mál tengist að mínu mati afgreiðslu frv. um olíugjald. Eftir að það er komið til framkvæmda þá á að vera og er sannfæring mín að það verði mun auðveldara fyrir leigubifreiðastjóra að endurnýja sinn bílaflota þar sem miklar líkur eru á að notaðir dísilbílar geti orðið eftirsóttir á markaðnum.
    Að öðru leyti vil ég segja það, virðulegur forseti, að verði þetta frv. að lögum ásamt með olíugjaldsfrv. sem hér er verið að leggja til þá verða verulegar breytingar á skattlagningu, bæði á bifreiðaeign við kaup bifreiða og rekstur sem að mínu mati á að geta haft hér heillavænlega þróun og vera í sjálfu sér umhverfisvæn því dísilbílar eru merkilegt nokk mun betri fyrir umhverfið en bensínbílar. Þetta á bæði við á höfuðborgarsvæðinu en ég hef margsinnis sagt að væri mjög æskilegt að það gerðist að bílar sem eru í stöðugri notkun innan borgar, litlir sem stórir séu dísilbílar. Sömuleiðis skiptir það miklu máli fyrir íbúa landsbyggðarinnar, bæði einstaklinga, fyrirtæki og þjónustuaðila sem þurfa nokkuð öfluga bíla sem eru keyrðir mikið, að með þessu þá verður kosturinn dísilbílar mun hagstæðari.