Virðisaukaskattur

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:55:33 (5173)

[15:55]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég flyt þetta frv. fyrir hönd nefndarinnar. Hér er ekki um að ræða nefndarálit. Þetta gerum við að beiðni fjmrh. og ef ég les greinargerðina sem þessu litla frv. fylgir, með leyfi forseta:
    ,,Með þessari breytingu á núgildandi ákvæði er lagt til að undanþegin verði frá skattskyldu viss póstþjónusta sem að mestu er sinnt af Póst- og símamálastofnun en ekki fellur undir einkaleyfi stofnunarinnar samkvæmt póstlögum. Af því leiðir að sams konar þjónusta í höndum annarra aðila verður einnig undanþegin skattskyldu.
    Þannig verður undanþegin skattskyldu dreifing á árituðum blöðum og tímaritum sem samkvæmt nýlegum úrskurði ríkisskattstjóra er talin vera skattskyld á grundvelli samkeppnissjónarmiða. Undanþága þessi tekur þó ekki til óáritaðra bréfapóstsendinga, t.d. fjöldasendinga.
    Einnig er dreifing á bögglapósti og forgangssendingum skattskyld eins og verið hefur þar sem slík dreifing fellur ekki undir einkaleyfi Póst- og símamálastofnunar.``
    Virðulegur forseti. Þar sem nefnd flytur málið, þá geri ég ekki tillögu um að málinu verði vísað til nefndar.