Stjórnarskipunarlög

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 16:06:37 (5177)


[16:06]
     Frsm. stjórnarskrárnefndar (Geir H. Haarde) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil það mætavel að hv. ræðumaður skuli hafa talið sig þurfa að flytja þessa brtt. vegna þess að hún hefur flutt um þetta sérstakt frv. Hins vegar væri mjög ankannalegt að samþykkja tillögu sem þessa í sömu andrá og þingið er að samþykkja tvö frumvörp um breytingar á stjórnarskránni samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Þess vegna kom það ekki til greina af hálfu okkar hinna nefndarmanna í stjórnarskrárnefndinni að fallast á einhverja slíka breytingu, hvað sem líður efni þessarar tillögu. En það er allt annað mál og á að ræðast miklu betur hvort það eigi í framtíðinni að fara út í einhvers konar stjórnlagaþing. Ég hef sjálfur miklar efasemdir um það. Auðvitað gat það ekki komið til greina að gera hvort tveggja, bæði að samþykkja stjórnarskrárbreytingar eftir gömlu reglunni og síðan að fara út í stjórnlagaþing eins og þessi tillaga gengur út á og þess vegna samrýmist þetta ekki og þess vegna tel ég að það eigi að fella brtt. þingmannsins.