Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:01:56 (5194)


[18:01]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var satt best að segja nokkuð sérkennileg ræða hjá hæstv. samgrh., sérstaklega vegna þess að það hefur flogið fyrir á göngum að það væri verið að reyna að ná einhverri samkomulagslendingu í þessu máli. Hæstv. ráðherra gengur afar illa að átta sig á því hvaða hlutverki hann sem ráðherra samgöngumála á að gegna og hvaða hlutverki ekki og hver staða Alþingis er í þessu sambandi. Það var t.d. ekki mjög heppilegt að hæstv. ráðherra vitnaði í sérstakan fund sem hann hefði átt með stjórnarþingmönnum eins kjördæmis. Það er alveg lýsandi fyrir vinnubrögðin í þessum efnum. Venjan er sú að þingmannahópar kjördæmanna, allir þingmenn, jafnt stjórnar sem stjórnarandstöðu, komi að þessum málum og það vinnulag sem hér hefur verið viðhaft mælir fyrir um slíkt, þ.e. að Alþingi skipti framkvæmdafé niður á einstök verk og það geri þingmannahópar hvers kjördæmis fyrir sig sameiginlega. En það hefur því miður gerst á þessu kjörtímabili að öllum slíkum vinnubrögðum hefur verið kastað fyrir róða og hæstv. samgrh. hefur í raun og veru hegðað sér og talað í þessum málum eins og hann væri einvaldur á 19. öld. En það er eins og kunnugt er þannig að þá trúðu margir einvaldskonungar Evrópu því að þeir hefðu þegið vald sitt frá guði, þeir hefðu þegið vald sitt milliliðalaust og beint frá guði og skulduðu engum reikningsskil gerða sinna nema þeim hinum sama guði. Það er ekki svo með þennan hæstv. samgrh., hann fær kannski að kynnast því eftir nokkrar vikur.