Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:46:07 (5210)


[18:46]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég vil að það komi fram af minni hálfu að ég hef verið ósáttur við vinnubrögð stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili, hvernig þeir hafa farið með vegaféð og nú síðast reynt að brjóta niður þær reglur sem eru almannareglur og sátt um hvernig fénu skyldi skipt á milli kjördæma og eftir ástandi veganna. Það er auðvitað sorglegt að sjá að stjórnmálamenn skuli ekki fremur vilja styðjast við almennar reglur og ef þeir eru ekki sáttir við þær, leggjast þá yfir þá vinnu að endurskoða þær heldur en vera að því pukri sem hér hefur viðgengist, sérhagsmunapoti sem Sjálfstfl. hefur rekið. Það er óásættanlegt. Ég gat vel stutt það og fannst það sjálfsagt að Reykjavíkursvæðið og höfuðborgin kæmu nú inn sem sérstakt stórverkefni vegna þess að hér eru slæmir umferðartappar sem hafa valdið erfiðleikum og slysum. Það var því mjög brýnt verkefni að verja auknu fjármagni til vegagerðar á Reykjavíkur- og höfuðborgarsvæðinu.
    Ég er ekki sáttur við þá stefnu hæstv. núv. samgrh. að vilja helst fara með sem mest af vegafénu eitthvert upp á fjöll. Enda þótt ég sé eldheitur landsbyggðarmaður verðum við að viðurkenna að það er svo mikið ógert víða sem skilar byggðunum miklu að það verður að vera forgangsverkefni. Ég er þakklátur fyrir það að stjórnarliðið varð að hluta að éta málið á ný ofan í sig, þeir ætluðu að svíkja sína minnstu bræður í nokkrum kjördæmum í þessari vegáætlun en hafa nú horfið frá því og rétta hlut þeirra á nýjan leik.
    Ég vil segja það sem mína skoðun að eitt stærsta vandamálið núna víðs vegar um landið eru tengivegirnir. Tengivegirnir hafa orðið hornreka í kerfinu. Þeir fá ekki nema 10% af vegafénu. Þetta eru hinir almennu sveitavegir sem eru jafnframt skólavegir, flutningavegir fyrir vörur og þjónustu við sveitafólkið og vegir sem fólk í vaxandi mæli keyrir kvölds og morgna til og frá vinnu. Því er afar brýnt fyrir Alþingi Íslendinga að móta stefnu þar sem menn næðu árangri í því að byggja þessa vegi upp með meiri hraða.
    Svo að ég víki að Suðurlandi fannst mér það aumingjaskapur af þessari hæstv. ríkisstjórn að gera sér ekki grein fyrir því að þar er hafin mikilvæg ný þróun í útflutningi á dýrmætu efni sem er vikurinn frá Heklu og vegirnir þola ekki þá flutninga. Þeir flutningar hafa nú mjög margfaldast og fara fram á stórum ,,treilerum`` sem vegirnir þola ekki. Við getum að vísu í gegnum þessa áætlun varið á næstu fjórum árum 170 millj. til þessara vega en það þyrftu að vera 300 millj. og hefði helst þurft að gera í gær til þess að þessi atvinnustarfsemi skilaði hagnaði og gæti magnast. Mér finnst sorglegt að það skyldi ekki nást fram að þetta yrði gert á vegum ríkisins að sérstöku stórverkefni vegna sérstöðu málsins og enn fremur í ljósi þess að engin slík stórverkefni eru á ferðinni á Suðurlandi.
    Sakir þess samkomulags sem hér er búið að ná um að ljúka þinginu ætla ég ekki að lengja umræðuna en miðað við það að stjórnarliðar hurfu í raun aftur til baka í þær reglur sem verið hafa að hluta þannig að þrjú kjördæmi voru ekki skert og enn fremur aukning í nokkur önnur, þar á meðal Suðurland upp á 13 millj., sætti ég mig við þessa niðurstöðu og mun styðja vegáætlun. Ég fagna því líka að það næst fram á Suðurlandi að Gjábakkavegur eða vegurinn frá Þingvöllum á Laugarvatn, Hvítártenging eða áætlun um tenging á Hvítarbrú við Bræðratungu og Suðurstrandarvegur verða allir gerðir að stofnvegum.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Kemur betri tíð og nýir menn til valda og ég vænti þess að vegáætlun megi endurskoða eftir tvö ár með það að markmiði að við náum enn þá meiri árangri í því að byggja upp góða vegi á Íslandi.