Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:03:18 (5213)

[19:03]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af mörgum þingmönnum sem neyðast til þess hér undir lokin að lýsa megnri óánægju með þá vegáætlun sem við erum að samþykkja hér til næstu fjögurra ára.
    Ég er í fyrsta lagi mjög óánægður með það hversu lítið fé gengur til sveitaveganna á landinu og er að því leyti algerlega sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni sem einnig nefndi þetta sama atriði. Það er ekki ætlað til þessara svonefndu tengivega nema 154 millj. kr. á árinu 1995 og eitthvað álíka síðan á næstu árum þar á eftir og þetta er svo smávaxin upphæð að ef svo heldur áfram þá tekst ekki að ljúka þeim verkefnum sem óhjákvæmilegt er að sinna á sviði sveitavega á skemmri tíma en 40 árum. En mér er sagt að þessir vegir endist ekki í 40 ár, þeir endast í miklu skemmri tíma og þar af leiðandi má segja að sveitavegakerfið sé að rýrna frá ári til árs vegna þess að það næst ekki einu sinni upphæð til þess að halda í við þá eyðingu sem á sér stað á hverju ári.
    Í öðru lagi er ég mjög ósáttur við það hvernig fé til stofnvega er skipt. Ég vil að vísu taka það fram að ég tel reikniregluna gamalkunnu mjög eðlilega þar sem tekið er tillit til í fyrsta lagi kostnaðar, í öðru lagi ástands vega og í þriðja lagi umferðar um vegi. Þetta þrennt er tekið saman og deilt með þremur og þannig fengin út ákveðin hlutfallstala sem er síðan látin gilda um einstök kjördæmi. Þetta eru sanngjörn, eðlileg og gamalgróin vinnubrögð sem ég virði og hef alltaf virt. En ég verð hins vegar að vekja á því athygli að það er ekki nema lítið brot af því fé sem gengur til stofnvega sem er úthlutað eftir þessari gömlu, góðu reglu. Við getum sagt að til stofnvega gangi núna um 3.200 millj. kr. á árinu 1995, en þar af er ekki nema rétt um 1.300 millj. sem úthlutað er eftir gömlu skiptireglunni. Hér áður fyrr var nær eingöngu úthlutað eftir henni, en það hefur orðið þessi breyting að það er farið að taka út fyrir sviga einstök stórverkefni, þar á meðal auðvitað höfuðborgarsvæðið. Það verður alltaf minna og minna sem verður til skipta í hin almennu verkefni og eins og menn sjá af þessum tölum þá er hlutfallið núna orðið þannig að tveir þriðju hlutar af fé til stofnvega eru teknir út fyrir sviga og úthlutað sérstaklega en aðeins einn þriðji gengur til stofnveganna eftir þessari gömlu, góðu og sanngjörnu skiptireglu. Kannski væri viss sanngirni í þessu ef það væri þá svo að það væru stórverkefni í öllum kjördæmum en það er ekki. Það er mjög misjafnt hvernig á stendur um það og þær skilgreiningar sem fyrir hendi eru á stórverkefnum eru mjög undarlegar og hæpnar að ekki sé meira sagt.
    Þegar núv. hæstv. ráðherra telur þörf á því að taka eitthvert nýtt stórverkefni út fyrir sviga þá er bara búin til ný regla um þessi stórverkefni og hún sniðin þannig að hún passi utan um viðkomandi verkefni og þannig verður vafalaust haldið áfram. Í dag eru þetta orðnar fimm undantekningareglur og við getum alveg átt von á því að þær verði orðnar 10 að fáum árum liðnum og að það fé sem á að ganga til stofnvega skiptist þá nokkurn veginn allt út frá svona sérverkefnaformúlum. Ég vil láta það koma hér fram að ég tel að þessi vinnubrögð séu algerlega óviðunandi, enda er það staðreynd að þessi sérverkefni og skilgreiningar á þeim eru oft og tíðum ákaflega illa rökstuddar.
    Ég minni á það hér að Siglufjarðarvegurinn er mikið haft á þjóðvegakerfinu á Norðurlandi vestra. Þar þarf ekki aðeins að hækka veginn verulega til þess að ná honum upp úr snjó heldur þarf líka á köflum að finna nýtt vegstæði. En það hefur ekkert fé verið fáanlegt til þess að ljúka þessari vegagerð á undanförnum árum og það er fyrirsjáanlegt að á næsta áætlunartímabili tekst ekki að ljúka þessu verkefni og það tekst ekki að byggja þar upp veg sem getur talist fullnægjandi. Þó er það nú svo að frambjóðendur Sjálfstfl. hafa heitið kjósendum sínum fyrir norðan að þeir ætli að ljúka þessu verkefni á svo sem einu eða tveimur árum, en á sama tíma eru þeir að ganga frá vegáætlun sem ekki gerir ráð fyrir því að þetta klárist einu sinni á fjórum árum. Ég tel að öll þessi vinnubrögð séu mjög forkastanleg og mín tillaga er sú að öll vegagerðarverkefni séu skoðuð upp á nýtt, það sé metinn kostnaður við þau, ástand veganna hringinn í kringum landið og umferðarþunginn, allt sé þetta tekið með inn í myndina og reynt að skipta þá á nýjan leik miðað við landið í heild.
    Ég hef spurt vegamálastjóra að því hvort þetta hafi verið gert, hvort dæmið hafi verið reiknað út á þennan veg, en það hefur ekki verið gert heldur einungis farin sú leið að byrja á almennu reglunni eins og var gert hérna fyrir 10--20 árum, þá var bara almenna reglan í gildi og síðan alltaf að taka ný og ný stórverkefni út fyrir sviga þar til þau eru orðin meiri hlutinn af öllu fénu sem verið er að eyða.
    Nei, virðulegi forseti. Þetta eru vinnubrögð sem eru algerlega óviðunandi og ég hvet eindregið til þess að hér verði gerbreyting á á næsta kjörtímabili. Ég vil taka það fram að ég hef langoftast greitt atkvæði með vegáætlun hvort sem ég hef verið í ríkisstjórn eða utan stjórnar, en ég treysti mér ekki til að gera það að þessu sinni og mun sitja hjá í mótmælaskyni við þau vinnubrögð sem hér hafa verið tíðkuð.