Grunnskóli

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:27:58 (5216)


[19:27]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frhnál. á þskj. 927 um frv. til laga um grunnskóla frá menntmn. og brtt. á þskj. 928 við frv. til laga um grunnskóla frá Sigríði Önnu Þórðardóttur, Árna Johnsen, Birni Bjarnasyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Ólafi Þ. Þórðarsyni, Petrínu Baldursdóttur, Svavari Gestssyni, Tómasi Inga Olrich og Valgerði Sverrisdóttur.
    Menntamálanefnd hefur komið saman til fundar um málið eftir að það var tekið til 2. umr. Á fundinum var lögð fram eftirfarandi yfirlýsing:
    ,,Ríkisstjórnin telur mikilvægt að víðtæk sátt takist um flutning grunnskólans milli hlutaðeigandi aðila, ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara.
    Ríkisstjórnin hefur gefið samtökum kennara fyrirheit um að þær breytingar verði gerðar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi kennurum og skólastjórnendum sem rétt hafa átt til aðildar að þeim sjóði að þessi réttindi þeirra verði eigi lakari eftir breytinguna.
    Þá hefur ríkisstjórnin einnig heitið samtökum kennara því að sett verði sérstaklega í lög ákvæði er tryggi framangreindum hópi kennara og skólastjórnenda, eftir því sem við getur átt, óbreytt réttindi eftir flutning grunnskólans.
    Stjórnmálaflokkarnir munu beita sér fyrir því meginmarkmiði að kennarar fái jafngild kjör og réttindi eftir að yfirfærslu er lokið.``
    Nefndin leggur til breytingar á 57. gr. frv. sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um stöðu réttinda- og lífeyrismála kennara við tilflutning grunnskólans. Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði á um að fyrir liggi breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga. Í þriðja lagi er lagt til að lögin komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 1. ágúst 1996.
    Ég ætla að leyfa mér að lesa brtt. en hún er svohljóðandi:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996, enda hafi Alþingi þá samþykkt:
    a. Breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla, sem rétt hafa átt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, aðild að sjóðnum.
    b. Lög um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggi þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda. Komi upp ágreiningur milli samtaka kennara og sveitarfélags um form eða efni ráðningarréttinda getur hvor aðili um sig óskað gerðardóms í málinu.
    c. Breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þeirra auknu verkefna er sveitarfélög taka að sér samkvæmt lögum þessum.
    Jafnframt falla úr gildi ákvæði laga nr. 49/1991 eftir því sem ákvæði þessara laga koma til framkvæmda fram til 1. ágúst 1996 en þá falla lög nr. 49 frá 1991 að fullu úr gildi.
    a. Í stað ártalsins ,,1995`` í 2. mgr. komi: 1996.
    b. Í stað ártalsins ,,1995`` í 3. mgr. komi: 1996.``
    Með þessari brtt. er komið til móts við fyrirvara bæði Sambands ísl. sveitarfélaga og kennarasamtakanna. Það hefur náðst samstaða um það í þinginu að greiða fyrir þessu mikilvæga máli þannig að það fái hér farsæl málalok. Og ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega til þess að þakka nefndarmönnum í menntmn. fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig og fyrir þann samkomulagsvilja líka að greiða fyrir málinu á síðustu klukkutímum þingsins.