Grunnskóli

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:32:52 (5217)


[19:32]

     Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Við 1. umr. um grunnskólafrv. lét ég koma fram að ég mundi ekki beita mér gegn því að þetta mál næði fram að ganga ef það mætti gerast í samkomulagi við sveitarfélögin og samtök kennara. Málið var afgreitt frá hv. menntmn. í fullkominni andstöðu við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök kennara. Þess vegna og einnig vegna þess að málið fékk ekki nægilega umfjöllun í menntmn. fluttu stjórnarandstöðuþingmenn í menntmn. tillögu til rökstuddrar dagskrár, þeir hv. þm. eru ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þm. Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Jón Kristjánsson. Með vísan til þess að nú hefur náðst samkomulag við áðurnefnda aðila með framlagningu á þeirri brtt. sem dreift hefur verið á þskj. 928 og flutt er af öllum fulltrúum í hv. menntmn. þá drögum við frávísunartillöguna til baka.
    Þrátt fyrir þetta er rétt að ítreka að við framsóknarmenn höfum eftir sem áður efnislegar athugasemdir við frv. og koma þær m.a. fram í nefndaráliti 2. minni hluta menntmn. Auk þess gerum við athugasemdir við meðferð málsins í hv. menntmn. Ég ítreka það sem kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta að breytingartillögur meiri hluta menntmn. eru til bóta en þar sem mjög mörg atriði eru óljós og önnur bókstaflega pólitískt röng að mati okkar framsóknarmanna þá munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Ég vil að síðustu segja það að ég er þeirrar skoðunar að stjórnarandstaðan í hv. menntmn. hafi með málatilbúnaði sínum komið í veg fyrir það að hæstv. ríkisstjórn setti kennaraverkfallið í mjög alvarlegan hnút með öllum þeim afleiðingum sem það hefði haft fyrir okkar þjóðfélag og fyrir menntun í landinu.