Grunnskóli

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:35:25 (5218)


[19:35]
     Frsm. 3. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég stend að þeirri tillögu sem flutt hefur verið á vegum hv. menntmn. varðandi réttindamál kennara og tekjustofna sveitarfélaga sem hér hefur verið kynnt og ég tel mikið ánægjuefni að tekist hefur að ná samstöðu um þá tillögu.
    Í umræðu um málið að undanförnu hefur það fyrst og fremst verið gagnrýnt að það vantaði tvær undirstöðuforsendur fyrir þessu máli, þ.e. stuðning sveitarfélaganna annars vegar og réttindamál kennaranna sérstaklega hins vegar. Nú hefur tekist mjög vel að mínu mati að ná samstöðu um það síðarnefnda og eftir að forustusveit kennarasamtakanna tók um það ákvörðun á fundi með menntmn. og hæstv. ráðherrum fyrr í dag að líta svo á að fyrirvarar í ákvæði til bráðabirgða væru fullnægjandi, þá er alveg ljóst að sú meginundirstaða sem vantaði fyrir afgreiðslu málsins er komin.
    Það breytir hins vegar ekki því að í frv. sem slíku eru veigamikilir gallar að mínu mati. Þeir eru í fyrsta lagi verðandi sérkennsluna og stuðningskennsluna. Þeir eru í öðru lagi varðandi fjölda í bekkjum sem ég tel að þurfi að takmarka. Þeir eru í þriðja lagi varðandi stöðu lítilla skóla í dreifbýli. Þessir þættir eru í rauninni allir mjög veigamiklir og ég vil áskilja okkur alþýðubandalagsmönnum fullan rétt til að taka þessi mál upp strax á næstu þingum, enda er ljóst að þau lög sem hugsanlega verða samþykkt síðar á þessum sólarhring munu ekki koma til framkvæmda að fullu, eins og það er orðað, fyrr en frá og með 1. ágúst 1996. Þangað til er tími, þangað til eru tvö þing og þangað til er hægt að taka á þessu máli.
    Það sem ég vil sérstaklega undirstrika af okkar hálfu er sá skilningur okkar á þessum málum að við teljum að þjóðin hafi og muni með setningu grunnskólalaga taka samfélagslega ábyrgð á menntun barna í landinu og ekki sé hægt að ýta þeirri ábyrgð yfir á herðar sveitarfélaganna. Í rauninni hljóti þessi ábyrgð að liggja hjá þjóðinni, þinginu eða ríkinu, eða hvernig sem menn vilja orða það. Þessi samfélagslega ábyrgð er að mínu mati ekki nægilega vel skilgeind í frv. eins og það lítur út núna og ég áskil okkur einnig rétt til að taka á því máli alveg sérstaklega.
    Ég vil láta það koma fram, hæstv. forseti, að ég tel að það að málið afgreiðist núna sé engu að síður mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess að núna stendur yfir kjaradeila kennara. Það skiptir miklu máli að búið sé þannig að málum að það verði unnt eins auðvelt og fljótt og kostur er að lenda þeirri deilu. Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að í afgreiðslu málsins hér felst engin ákvörðun um lausn kjaradeilunnar sem slíkrar en það er líka ljóst að afgreiðsla málsins hér auðveldar málið og allt andrúmsloft á milli þeirra aðila sem hafa deilt að undanförnu og ég tel mikilvægt að stjórnarandstaðan leggi fyrir sitt leyti lóð á þá vogarskál. Ég tel það fagnaðarefni fyrir okkur sem höfum starfað í stjórnarandstöðu, alla vega vil ég segja það fyrir mig, að geta átt þann litla hlut að þessu máli.
    Ég vil einnig segja það, hæstv. forseti, að ég tel að það sé mikill árangur sem felst í þessari lendingu og segi það líka að það hefði verið hægt að ná þessari lendingu fyrir löngu. Það er það skrýtna við þá lendingu að henni hefði verið hægt að ná fyrir löngu. Hún er hins vegar árangur af umræðum bæði hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu og umræðum í menntmn., umræðum í þessari stofnun. Ég tel að þessi lending sýni að það er ekki tilgangslaust, m.a. fyrir stjórnarandstöðu, að halda þétt á sínum málum þegar um er að ræða jafnmikilvægt grundvallaratriði og grunnskólafrv. er.
    Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti að ég tel að þó að við styðjum þetta ákvæði til bráðabirgða sem greint var frá varðandi gildistökuna, þá munum við einnig sitja hjá að því er varðar frv. að öðru leyti eins og það lítur út, en hins vegar tel ég að flestar þær brtt. sem fluttar eru séu til bóta og við munum styðja þær, hæstv. forseti.

    Að öðru leyti er ekki meira um þetta mál að segja, en ég vona satt að segja að það hafi jákvæð áhrif á þá deilu sem nú er uppi þó að enginn hafi í rauninni gefið nein bindandi fyrirheit um slíkt.