Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 21:04:02 (19)


[21:04]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það var um margt merkilegt að hlusta á stefnuræðu hæstv. forsrh. Ekki vegna þess að í henni birtist skýr og afmörkuð stefna með framtíðarsýn heldur fyrst og fremst vegna þess að hæstv. forsrh. er enn með hugann við fortíðina. Hann gerir í reynd lítið úr þeim framförum sem orðið hafa á Íslandi síðasta áratuginn og þar gildir einu hvort hans flokkur hefur átt aðild að ríkisstjórn, svo ekki sé nú talað um Alþfl.
    Stefnuræðan var fyrst og fremst um að allt hafi verið rétt gert í tíð núv. ríkisstjórnar en allt rangt í tíð fyrri ríkisstjórna. Hólið um eigið verk verður mest áberandi og reynt er að lítillækka þá sem gengu götuna fram til valdatíma núv. ríkisstjórnar. Að þessu tilefni og þeirrar ónákvæmni sem þar gætti er nauðsynlegt að rifja upp helstu gagnrýnisatriði okkar framsóknarmanna á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
    Við gagnrýndum í upphafi þá miklu svartsýni og þá dökku mynd sem birtist hjá núv. ríkisstjórn. Þetta dró kjarkinn úr landsmönnum og varð til þess að verðmætasköpunin minnkaði mun meira en annars hefði orðið. Vextir voru hækkaðir í stað þess að grípa til aðgerða sem héldu þeim í skefjum. Mikill samdráttur kom hart niður á velferðarkerfinu og setti heimilin í mikinn og sársaukafullan vanda. Ríkisstjórnin taldi að ekki ætti að hafa afskipti af atvinnulífinu, gjaldþrot voru mun fleiri en ástæða var til með tilheyrandi erfiðleikum. Eftir mikla niðursveiflu er nú vissulega farið að birta til. Sá mikli kraftur sem er í sjávarútveginum kemur nú til góða og verðmætasköpunin þar er meiri en ýmsir höfðu gert ráð fyrir. Ástæðurnar fyrir þessu eru margar. Mér dettur ekki til hugar að halda því fram að það sem núv. ríkisstjórn hefur gert hafi allt verið rangt en ég veit að sumt af því sem er að koma fram í dag er vegna aðgerða sem gripið var til fyrir daga hennar. Mér er jafnframt ljóst að fyrri ríkisstjórnum hafa orðið á mistök eins og þessari. Hinu má ekki gleyma að grundvöllurinn fyrir stöðugleikanum var lagður í þjóðarsáttarsamningunum 1990. Því samstarfi sem þá tókst hefur verið haldið áfram og vonandi verður svo um langa framtíð.
    Fiskveiðistefnan var mótuð að mestu leyti í tíð fyrri ríkisstjórnar en það tók allt of langan tíma hjá núv. ríkisstjórn að festa hana í sessi. Það tafði verulega fyrir framförum í sjávarútveginum. Núv. ríkisstjórn ætlaði sér að gjörbreyta þessari stefnu en það var ekki síst vegna jákvæðrar stjórnarandstöðu Framsfl. að það tókst að ná niðurstöðu.
    Það hefur lítinn tilgang að sökkva sér sífellt niður í fortíðina með líkum hætti og hæstv. forsrh. gerir gjarnan og það þýðir ekkert að bera það á borð fyrir almenning að kaupmáttur launafólks hafi hrapað stöðugt áður fyrr eins og hann sagði að hefði gerst m.a. árið 1989 og 1990 en árin þar á undan hafði kaupmáttur aukist mjög verulega. Það er að vísu ekki rétt að kaupmáttur hafi rýrnað mjög mikið 1990. Þetta kemur skýrt fram í töflu um kaupmátt ráðstöfunartekna í þjóðhagsáætlun á bls. 31 þar sem kemur í ljós að ráðstöfunartekjur fóru vaxandi frá miðju ári 1990 til miðs árs 1991. Þær hafa síðan verið að falla af ýmsum ástæðum en þær eru ekkert allar af gerðum hæstv. ríkisstjórnar síðan. Aðallega hafa það verið utanaðkomandi aðstæður. En það er þessi óskhyggja um eigin verk sem verður alltaf yfirsterkari og því er m.a. haldið fram að afkoma iðnaðarins hafi batnað um 20% en það er því miður ekki rétt.
    Eitt mikilvægasta atriði í stefnuskrá Framsfl. er það að við setjum manngildi ofar auðgildi. Á tímum atvinnuleysis og vaxandi misréttis teljum við það vera mikilvægasta hlutverk flokksins í stjórnmálum að segja til um hvernig við getum unnið hugsjónum okkar brautargengi ef við fáum til þess aðstöðu og traust í næstu kosningum. Í lok nóvember munum við halda flokksþing og undirbúum stefnumörkun Framsfl. um þessar mundir undir kjörorðinu ,,Fólk í fyrirrúmi``. Með því viljum við leggja áherslu á að við viljum þjóna hagsmunum fólksins og veita íbúum landsins sem besta möguleika til að lifa hamingjusömu lífi. Við munum leggja höfuðáherslu á atvinnumál, auka verður fjárfestinguna ef atvinnustig á að batna. Við teljum að ríkisvaldið eigi að hafa afskipti af þeim málum og við viljum breyta Byggðastofnun í atvinnumálastofnun þar sem hið pólitíska vald og aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman um að aðstoða við uppbyggingu atvinnulífs um land allt. Núv. ríkisstjórn hefur dregið allan mátt úr þessari stofnun og það er kominn tími til að umbylta henni og gefa henni nýtt líf. Það er nauðsynlegt að hún hafi í þjónustu sinni atvinnumálafulltrúa í öllum kjördæmum sem geta ráðlagt þeim sem vilja stofna ný fyrirtæki og taka þátt í að auka hagvöxtinn. Hún verður jafnframt að geta tekið þátt í nýjungum með því að leggja fram áhættufé í afmörkuðum tilvikum.
    Við viljum breyta skattalögum þannig að almenningi verði auðveldað að leggja fram fé í atvinnurekstur. Við viljum örva þátttöku lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu og greiða fyrir því með skattalagabreytingum að þeir leggi fram fjármagn á móti launþegum til uppbyggingar. Við viljum endurskipuleggja fjárfestingarlánasjóðina þannig að þeir hafi meira frumkvæði.
    Við viljum auka fjármagn ríkisins til markaðs- og þróunarstarfs og við viljum leggja mesta áherslu á ríkisútgjöld sem skapa fleiri störf eins og t.d. viðhaldsverkefni.
    Við trúum því að það megi ná meiri hagvexti en nú lítur út fyrir að verði. Við trúum því að með auknum hagvexti megi ná jöfnuði í ríkisfjármálum án þess að skera niður ríkisútgjöldin eða auka skattana. Við teljum að aðgerðir í atvinnumálum og aukin verðmætasköpun séu lykillinn að því að leysa hér margvíslegt misrétti. Við gagnrýnum núverandi ríkisstjórn fyrir að vera ríkisstjórn sumra en ekki allra. Við teljum fráleitt að lækka nú skatta á þá sem meira mega sín í stað þess að jafna byrðarnar. Við viljum nýta það svigrúm sem hátekjuskatturinn gefur og með því að samræma skattlagningu allra eigna og tekna, þar með talið fjármagnstekna, til að hækka persónuafsláttinn sem hefur lækkað verulega í tíð núv. ríkisstjórnar þrátt fyrir fögur fyrirheit Sjálfstfl. í síðustu kosningabaráttu. Við teljum að það hafi verið mistök að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti og það hefði mátt ná fram mun meiri jöfnuði með því að hækka persónuafslátt og barnabætur til barnmargra fjölskyldna.
    Við framsóknarmenn erum því ekki alveg jafnánægðir með lífið og tilveruna og hæstv. forsrh., ekki vegna þess að við séum ekki bjartsýn eða vegna þess að við trúum ekki á framtíðina heldur vegna þess að við sættum okkur ekki við að hagvöxtur sé mun minni hér á landi en gerist og gengur í nágrannalöndunum. Því miður virðist núverandi ríkisstjórn ekki hafa meiri metnað fyrir hönd þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar sjálfrar en að vera ánægð með að vera einna neðst á blaði að því er varðar aukningu þjóðartekna í Evrópu. Við höfum verulegar efasemdir um að núverandi ríkisstjórn geti tekist á við þau verkefni sem eru fram undan. Fjárlagafrv. byggir á ýmsum forsendum sem ekki eru orðnar að raunveruleika. Ýmsir ráðherrar eru uppteknir af öðru en að skapa forsendur fyrir þeim aðhaldsaðgerðum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Öllum er kunnugt að heilbrrn. fer um það bil 2 milljarða fram úr forsendum fjárlaga á þessu ári. Það er ekkert sem bendir til að svo verði ekki jafnframt á næsta ári. Sama má segja um ýmsa aðra þætti frv.
    Það er nauðsynlegt að setja mikinn kraft í undirbúning að tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópusambandsins. Lítið virðist gerast í þeim málum, enda er ríkisstjórnin ósammála um leiðir og hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að hann treysti ekki núv. hæstv. utanrrh. til þeirra samninga. Hann hefur með því lýst sig sammála stjórnarandstöðunni og er því kominn í stjórnarandstöðu í eigin ríkisstjórn. Mikið vantraust virðist hafa skapast milli stjórnarflokkanna og við höldum því fram að í því andrúmslofti sé ekki hægt að finna lausn á mikilvægum málum. Sú staða er alveg ný í íslenskum stjórnmálum að flokkar haldi áfram að sitja saman í ríkisstjórn þótt trúnaðarbrestur og vantraust ríki á milli þeirra. Hvað er nú orðið af heiðursmannasamkomulaginu úr Viðey sem væntanlega hefur verið byggt á gagnkvæmu trausti? Þjóðin þarf á því að halda að fá ríkisstjórn sem hefur traust út á við og inn á við. Það verður að ríkja gagnkvæmur trúnaður innan ríkisstjórnar sem ætlar að láta taka sig alvarlega. Hæstv. forsrh. getur ekki breitt upp fyrir haus og látið sem ekkert sé, en því miður bendir allt til þess að kraftar ríkisstjórnarinnar fari í það á næstunni að halda sem fastast í stólana og eyða tímanum í tilraunir til að afla sér syndakvittana fyrir vanhugsuð störf.
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Við framsóknarmenn munum láta reyna á það í næstu kosningum og stjórnarmyndun sem á eftir mun fara hvort manngildið verður ofar auðgildi í okkar ágæta landi og hvort það verður fólk sem verður í fyrirrúmi eða kreddukenningar sem byggja á afskiptaleysi ríkisvaldsins á sviði atvinnumála og kjarajöfnunar. Við þorum að takast á við viðfangsefnin og ætlum okkur að gera það á grundvelli þess að framtíðin er það besta sem við eigum. Fortíðin er góð í minningunni en breytir litlu um árangurinn sem við náum á komandi tíð.
    Ég þakka þeim sem hlýddu. --- Góðar stundir.