Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 21:25:54 (21)


[21:25]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Góðir tilheyrendur. Sl. 7 ár hafa verið erfið fyrir okkur Íslendinga. Á því tímabili hafa orðið meiri og langvinnari umskipti til hins verra í íslenskum þjóðarbúskap en dæmi eru til um á allri þessari öld. Sem dæmi má nefna að ef landsframleiðslan hefði vaxið frá árinu 1987 svipað að meðaltali til þessa dags og hún gerði áður, þá væri kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna á Íslandi líklega yfir 20% meiri en hann er í dag. Allt þetta kjörtímabil hefur núv. ríkisstjórn því háð harða varnarbaráttu. Þar hefur ríkisstjórnin ekki staðið ein. Hún hefur ekki notið stuðnings stjórnarandstöðunnar heldur voru það aðilar vinnumarkaðarins sem tóku höndum saman við ríkisstjórnina á erfiðum tímum. Saman hafa þessir aðilar, ríkisstjórnin og hin ábyrgu öfl á vinnumarkaðinum, náð miklum árangri.
    Fyrir rúmum einum áratug komst verðbólga á Íslandi í þær hæðir að vera á milli 80 og 90% og þá þóttu það stór tíðindi, ef verðbólga hrökk niður fyrir 20% um nokkurra mánaða skeið. Nú hefur verðlag verið stöðugt um langan tíma og horfur eru á að á næsta ári fari verðbólgan ekki fram úr 2%. Halda menn að það gerist af sjálfu sér? Á sama tíma og sú frændþjóð sem okkur er líkust í lífs- og atvinnuháttum er komin í gjörgæslu erlendra lánardrottna erum við Íslendingar að borga niður erlendar skuldir okkar. Halda menn að það gerist af sjálfu sér? Barátta stjórnvalda fyrir stöðugu gengi og verðlagi og ábyrg afstaða aðila vinnumarkaðarins hefur tryggt að raungengi íslenska gjaldmiðilsins er nú hagstæðara útflutnings- og samkeppnisgreinum en verið hefur í meira en fjóra áratugi. Halda menn að það gerist af sjálfu sér? Þá hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar á vöxtum skilað árangri. Að meðaltali hafa vextirnir í landinu lækkað um rúm 2%, en sú lækkun skilar heimilum og fyrirtækjum í landinu 8 þús. millj. kr. í aukið ráðstöfunarfé á hverju einasta ári. Halda menn að þetta hafi líka gerst af sjálfu sér?
    Sá árangur sem náðst hefur í einhverju erfiðasta tímabili í sögu þjóðarinnar hefur ekki náðst án átaka. Sá sem hér stendur hefur ekki farið varhluta af því. Ég þurfti að beita mér fyrir erfiðum aðgerðum í heilbrigðismálum sem voru harkalega umdeildar á sínum tíma. Fullyrt var að þessar aðgerðir mundu engum árangri skila. Ríkisendurskoðun komst að þveröfugri niðurstöðu. Aðgerðirnar skiluðu þeim árangri að á fyrstu tveimur árunum lækkuðu útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála um 4 þús. millj. kr. og gangi áætlun fjárlagafrv. eftir munu útgjöldin til málaflokka heilbr.- og trmrn. lækka um 10% á þessu kjörtímabili. Þá var sagt að það væri ekkert að marka því að útgjöldin sem sparast hefðu hjá ríkinu hefðu einfaldlega verið lögð á sjúklinga.
    Í apríl 1994 kom út ritið ,,Búskapur hins opinbera`` sem Þjóðhagsstofnun tekur saman. Þar kemur fram að samanlögð útgjöld einstaklinga og hins opinbera til heilbrigðsmála, þjóðarútgjöldin, lækkuðu á árunum 1991--1993 um hvorki meira né minna en 8 þús. kr. á hvert mannsbarn í þessu landi. Á þessum sama tíma voru tekin í notkun yfir 120 ný hjúkrunarrúm fyrir aldraða, nokkrir tugir nýrra þjónusturýma fyrir aldraða, ný geðdeild var opnuð á Sogni fyrir ósakhæfa afbrotamenn, sex nýjar heilsugæslustöðvar voru opnaðar, glasafrjóvgun var tekin upp í landinu og hjartaskurðlækningum fjölgaði um yfir 50%. Þrátt fyrir alla þessa aukningu á dýrri þjónustu í heilbrigðiskerfinu lækkuðu heildarútgjöld þjóðarinnar til þeirrar þjónustu á sama tíma um 8 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Það kalla ég, frú forseti, árangur.
    Með lágri verðbólgu, hagstæðu raungengi, gjörbreyttu skattalegu umhverfi, lækkun vaxta og síðast en ekki síst aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefur ríkisstjórnin mótað nýja og framsækna atvinnustefnu. Árangurinn er nú að skila sér. Það sést m.a. á því að 12% veltuaukning varð í almennum iðnaði á fyrri helming þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Í matvælaiðnaði varð verkaukningin meiri en 20% og það hefur verið mikil aukning í útflutningi almennra iðnaðarvara á þessu ári.
    En ríkisstjórnin hefur einnig hugað að sérstökum verkefnum í atvinnumálum. Í iðnrn. hefur t.d. verið gert átak í málum skipasmíðaiðnaðarins sem hefur gjörbreytt til hins betra, ekki bara stöðu þeirrar iðngreinar heldur ekki síður andrúmsloftinu sem þar ríkir. Í samvinnu við sjútvrn. og samtök í sjávarútvegi og iðnaði höfum við komið upp samstarfsvettvangi þar sem verið er að skapa ný þróunar- og atvinnutækifæri. Í samvinnu við Samtök iðnaðarins hefur verið komið á fót hönnunarmiðstöð í þeim tilgangi að hanna

innréttingar og húsmuni með tilliti til íslenskra þarfa þannig að íslenskur iðnaður eigi aukna möguleika á að hljóta innlend útboðsverkefni. Alkunna er að iðnrn. hefur beitt sér fyrir greiðari viðskiptum við Rússa og því hefur verið falið að hafa umsjón með margvíslegum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í þeim efnum. Ráðuneytið er nú í viðræðum við Útflutningsráð og utanrrn. um stofnun embættis viðskiptafulltrúa við sendiráðið í Moskvu.
    Þá hefur iðnrn. í samráði við Samtök iðnaðarins og Iðntæknistofnun beitt sér fyrir átaki í matvælaiðnaði í því skyni að auka samkeppnishæfni innlendra matvælafyrirtækja. Nú er ráðuneytið að huga að því hvernig auka megi hlutdeild íslensks iðnaðar í framleiðslu byggingarhluta. Við höfum beitt okkur sérstaklega fyrir aðgerðum til að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi og nú um þessar mundir er verið að skipa vinnuhóp sem hefur það sérstaka verkefni að leita eftir erlendu fjármagni til uppbyggingar í atvinnulífi landsmanna.
    Mikilvægasta aðgerðin til styrktar atvinnulífi þessarar þjóðar er þó án efa samþykktin um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Margir vildu nú þá Lilju kveðið hafa. En það er staðreynd að það var formaður Alþfl. sem með órofa stuðningi síns flokks allt frá upphafi þess máls leiddi það til farsælla lykta með góðum samstarfsmönnum.
    Ég er ekki í vafa um að sagan mun dæma það verk sem eitt hið þarfasta og merkasta sem unnið hefur verið á vettvangi íslenskra stjórnmála á síðari hluta þessarar aldar. Skoðun Alþfl. er sú að því verki skuli áfram haldið. Það er enginn vafi á því að Ísland er hluti af Evrópusamfélaginu og við eigum að taka þátt í myndun nýrrar Evrópu sem alvöruríki, þ.e. ríki sem krefst þess að fá fulla aðild að ákvörðunum. Þegar EES-samningalotan hófst var gert ráð fyrir því að ekkert EFTA-ríkjanna gæti orðið aðili að Evrópusambandinu fyrr en eftir ríkjaráðstefnuna sem átti að hefjast og á að hefjast árið 1996. Þessar aðstæður eru nú gjörbreyttar. Öll EFTA-ríkin á svæðinu nema Ísland hafa óskað eftir aðild. Verði aðildarsamningar samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu nú í haust verða þau orðin aðilar en Ísland stendur eitt eftir utan við. Það er ekki staða sem er viðunandi. Rödd Íslands á að heyrast þegar tekin er ákvörðun um framtíð Evrópu.
    Þessi mál hafa verið á dagskrá. Aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að kynna sér þau og stofnanir Háskóla Íslands hafa um þau fjallað. Niðurstaða háskólans er m.a. sú að með aðildinni muni hagur íslenskra neytenda stórbatna og atvinna aukast. Getur þjóð sem er að berjast í bökkum ekki hlýtt á slík rök? Vissulega eru þó þarna mörg álitamál, ekki síst í sjávarútvegi.
    Utanrrh. okkar hefur sagt að hann telji sjávarútvegssamninginn sem Norðmenn fengu álitlegan fyrir Norðmenn og það gæti gefið til kynna að Íslendingar, sem eiga svo miklu meira undir sjávarútvegi en Norðmenn, gætu e.t.v. átt þess kost að fá sjávarútvegssamning sem er þeim að skapi.
    Forsætisráðherrar Belgíu og Luxemborgar hafa báðir bent á að Íslendingar ættu að geta fengið undanþágu frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins með sama hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar fengu undanþágu frá landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Þeir hafa sagt að formlega væri ekkert sem mælti gegn því að slík undanþága yrði veitt. Það væri bara spurning um pólitískan vilja.
    Niðurstaða af álitamálum af þessum toga fæst ekki nema menn láti á það reyna í samningaviðræðum. Við alþýðuflokksmenn erum langt í frá að vera einir um þá skoðun. Nýlega fóru nokkrir forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi til Brussel til viðræðna við forsvarsmenn Evrópusambandsins. Að loknum fundum með þeim kváðu tveir, þeir Kristinn Björnsson, forstjóri Skeljungs, og Friðrik Pálsson, forstjóri SH, upp úr með það að þeirra skoðun væri sú að nú eigi að hætta að skoða, nú eigi að taka ákvörðun.
    Bjarni heitinn Benediktsson, fyrrv. forsætis- og utanríkisráðherra, hafði forustu um að gjörbreyta íslenskri utanríkisstefnu þegar landið hvarf frá hlutleysisstefnunni og gerðist virkur og fullgildur aðili í samstarfi vestrænna þjóða og síðan í EFTA-samstarfinu. Sú ákvörðun var umdeild á sínum tíma en nú munu allir sammála um að Bjarni hafði rétt fyrir sér. Orðtak Bjarna heitins Benediktssonar var gjarnan að allt orki tvímælis þá gert er. Þannig var það á sínum tíma með aðildina að Atlantshafsbandalaginu. Þannig var það með inngönguna í EFTA. Þannig var það með þátttökunni í Evrópska efnahagssvæðinu og þannig er það einnig í þessu máli.
    Á Ísland kost á því að gerast aðili að þessu samstarfi og fá þar áhrif til jafns við önnur ríki á forsendum sem okkur Íslendingum eru að skapi? Það er álitamál. Þeirri spurningu hefur ekki verið til fullnustu svarað. En hvernig eiga menn að vita hvort þeir eru velkomnir gestir öðruvísi en að menn knýi dyra? --- Góðar stundir.