Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 21:37:49 (22)


[21:37]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur náð umtalsverðum árangri við erfiðar aðstæður. Í fyrsta lagi er sá árangur fólginn í því að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu og skapa sóknarfæri í atvinnumálum þrátt fyrir efnahagslægð, verulega minnkaðar aflaheimildir og erfið ytri skilyrði, eins og fram kom í ræðu forsrh.
    Í öðru lagi höfum við lært af þessari efnahagskreppu með því að bregðast ábyrgt við henni með niðurskurði ríkisútgjalda, breytingum og hagræðingu í opinberum rekstri sem skilar sér til framtíðar. Það hefur tekist að varðveita velferðarkerfið og á sumum sviðum ná fram umbótum til eflingar því, svo sem

í málefnum barna og fatlaðra. Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að allt hafi verið gert á besta máta eða á þann veg að hver og einn í stjórnarliðinu sé fullkomlega ánægður því auðvitað bera verk okkar þess merki að stjórnarsamstarf er málamiðlun, málamiðlun þar sem einn fær sjaldnast allt sitt fram.
    Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að fólk leggur mikið upp úr stöðugleika auk þess hve atvinnumálin hafa mikið vægi. Nú hefur verðbólga verið lág nokkur ár í röð, undir 5% og við erum vel flest farin að taka því sem sjálfsögðum hlut. Þess vegna er það afar mikilvægt að bæta hag heimilanna og auka kaupmátt án þess að ógna stöðugleikanum, lágum vöxtum og lágri verðbólgu. Það gleymist of oft í umræðunni að stöðugleiki og vaxtamál eru kjaramál.
    Alþfl. hefur verið ótrauður talsmaður EES- og GATT-samninga vegna þess að í þeim liggja tækifærin sem gera okkur kleift að bæta lífskjörin með lækkuðu vöruverði og auknum kaupmætti. Þegar EES-umræðan var sem hörðust hér á Alþingi var flokkur minn borinn þungum sökum. Því spyr ég: Ætla stjórnarandstöðuflokkarnir að vera samkvæmir sjálfum sér og segja EES-samningnum upp ef þeir komast í stjórn? Eða munu þeir viðurkenna að Alþfl. hafi haft rétt fyrir sér um mikilvægi þessa samnings sem skapar áður óþekkt skilyrði til að auka vinnslu afurða hér heima, skapa íslenskum höndum vinnu og þjóðarbúinu arð?
    Ég sagði að Alþfl. hefði verið borinn þungum sökum vegna stefnumála sem hann hefur verið trúr en að undanförnu hefur flokkur minn orðið fyrir óvæginni gagnrýni af öðrum toga. Það hafa verið ástríðuþrungnar tilfinningar í umræðunni um rétt og rangt, ekki síst innan okkar flokks og það hefur verið tekist á um sjónarmið. Við biðjumst ekki undan óvæginni umræðu, hún er til að læra af og vinna úr í baráttunni fyrir betri framtíð. Þessi umræða hefur borið í sér þann jákvæða tón að auka vitund manna um mikilvægi þess að gera strangar kröfur varðandi stjórnvaldsaðgerðir. Þannig má segja að sú umræða sem hefur farið fram í þjóðfélaginu geti orðið til góðs.
    Alþfl. er oft borið á brýn að vera of mikið til hægri, eins og sagt er, að hann sé hálfgert ,,litla-íhald``. Við sem vinnum að framgangi jafnaðarstefnunnar vitum að það er vegna þess að Alþfl. beitir sér fyrir nútímalegri löggjöf á vettvangi efnahagsmála. Hann vill frjálsræði í viðskiptum og aðhald í ríkisútgjöldum því þessir þættir eru undirstaða að aukinni velferð fjölskyldnanna í landinu og fjölskyldustefnan er rauði þráðurinn í stefnu jafnaðarmanna.
    Sænskir jafnaðarmenn unnu mikinn kosningasigur fyrir tveimur vikum. Í kosningastefnuskránni settu þeir fram það markmið að minnka útgjöld og hækka tekjur sem næmi 61 milljarði sænskra króna. Í kjölfar kosningaúrslita hafa þeir sagt að stuðningur sé við aðgerðir er nema 60 milljörðum. Það er fróðlegt að líta á hvað þarna er að finna. Þeir segja: Vextir eru allt of háir, fjárfestingar hafa stöðvast, skuldir ríkisins hækka, vaxtabyrði eykst og halli í ríkisfjármálum er methár.
    Sænskir jafnaðarmenn segja: Við björgum velferðinni ef við lækkum opinber útgjöld, allir verða að leggja sitt af mörkum, bæði skattar og þjónustugjöld verða að hækka. Og þeir segja: Við viljum gera fjárfestingar í atvinnulífinu skattalega mögulegar. Við viljum lækka skatta á fyrirtæki af því að það gefur fleira fólki atvinnu. Fjárfestingar dagsins í dag er grunnur að framleiðslu og velferð morgundagsins og það er óásættanlegt að ná niður fjárlagahalla og ríkisskuldum með aukinni verðbólgu.
    Þetta hljómar afskaplega kunnuglega en hjá okkar stjórnarandstöðu fá slík markmið stimpilinn ,,hægri lausnir og íhaldsúrræði``. Enginn mundi gefa sænskum krötum íhaldsstimpil og þess vegna er hollt að gefa þeirra efnahagsáherslum gaum.
    Það er athyglisvert að sænskir jafnaðarmenn í stjórnarandstöðu settu fram valkost að stjórnarstefnu. Og spyrja má: Hvar eru þeir valkostir sem íslensk stjórnarandstaða býður upp á í efnahags- og atvinnumálum?
    Nú eru kjarasamningar fram undan. Miklu skiptir að varðveita þann frið á vinnumarkaði sem verið hefur undangengin ár. Ekki síst er hann því að þakka hve ábyrgir aðilar vinnumarkaðarins hafa verið. Þjóðarsáttin skilaði ávinningi til allra og er undirstaða þess að við vinnum okkur út úr erfiðleikunum. Hitt er jafnljóst að færðar hafa verið fórnir á þessari vegferð. Þær fórnir hafa verið lágtekjufólki þungbærar. Það má ekki gleymast í komandi kjarasamningum. Það er markmið og krafa Alþfl. að kjarabætur sem samið verði um skili sér skilyrðislaust til láglaunahópanna.
    En kjarajöfnun felst líka í því að þeim byrðum sé réttlátlega skipt er standa undir samneyslunni. Það felst ekki eingöngu í skattaprósentu heldur því grundvallaratriði að allir sem geta leggi sitt af mörkum. Alþfl. hefur margoft vakið athygli á göllum skattkerfisins og gert tillögur til úrbóta. Umbætur sem fjmrh. hefur gert á þessu kjörtímabili, m.a. með stofnun sérstaks embættis skattrannsóknastjóra ríkisins, hafa skilað sýnilegum árangri en það er nauðsynlegt að taka enn betur á.
    Í byrjun stjórnarsamstarfsins beitti ríkisstjórnin sér fyrir endurmati á útgjöldum til velferðarmála. Þá var því haldið fram að þær aðgerðir væru atlaga að velferðarsamfélaginu og velferðarkerfið yrði lagt í rúst. Hefur þetta gengið eftir? Nei. Alls ekki. Þrátt fyrir gífurleg efnahagsleg áföll tókst að verja velferðarkerfið. Ekki aðeins unnum við varnarsigur heldur höfum við jafnframt sótt fram. Ég nefni til sögunnar tvo málaflokka, málefni fatlaðra og mál er lúta að börnum.
    Á sama tíma og raunaukning fjárframlaga hefur orðið í þjónustu við fatlaða hefur verið sett ný og nútímaleg löggjöf sem markar þáttaskil og nýja framtíðarsýn.
    Í málefnum barna standa fyrir dyrum gjörbreytingar á stjórnsýslu sem ætlað er að ná fram árangursríkari starfsháttum, bættri þjónustu og aukinni heildarsýn. Verulega aukin fjárframlög hafa runnið til nýrra

vistheimila fyrir börn og meðferðarúrræða fyrir unglinga í vanda á sl. tveimur árum. Miklar vonir eru bundnar við umboðsmann barna sem ákveðið er að taki til starfa á næstunni.
    Ég minni líka á húsaleigubætur og komið hefur fram að félmrh. hyggst leggja fram frv. um greiðsluaðlögun á þessu þingi.
    Góðir áheyrendur. Ríkisstjórnin skilar af sér góðu búi. Síðustu mánuðir stjórnarsamstarfs fara í hönd og brátt munu stjórnarflokkar leggja verk sín í dóm kjósenda og ég kvíði ekki þeim dómi. --- Góðar stundir.