Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 22:07:32 (25)


[22:07]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. hefur flutt okkur boðskap sinn og stjórnar sinnar. Honum verður tíðrætt um efnahagsbata, hagvöxt, hagstæðan viðskiptajöfnuð við útlönd og niðurgreiðslur erlendra skulda sem þar af leiðir. Hann talar líka um bætta afkomu fyrirtækja og jafnvel hefur hann á orði að ráðstöfunartekjur einstaklinga hafi hækkað. Allt er þetta harla gott á blaði og fagurt í munni forsrh. sem er gæddur slíku undraþefskyni að nef hans nemur aðeins sæta efnahagsilman að því er hann sjálfur lætur liggja að í ræðu sinni hér í kvöld.
    Hætt er við því að margir hafi átt bágt með að trúa eigin eyrum þegar þeir hlýddu á þennan boðskap. Hvar hefur þessi bati gert vart við sig? Hverjir hafa eiginlega notið hans? Eru það atvinnuleysingjarnir 6.300 sem þjóðhagsskýrslan getur um, sem út kom með ræðu forsrh.? Þeir hafa innan við 45 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði. Eða er það unga, atvinnulausa fólkið sem hvorki nýtur atvinnuleysisbóta né á möguleika á að fá vinnu? Eða eru það e.t.v. fiskvinnslukonurnar sem fá 56 þús. kr. í mánaðarlaun fyrir 8 stunda vinnudag? Eða eru það kannski leikskólakennararnir sem hafa 65--70 þús. kr. í mánaðarlaun? Veit forsrh. og ríkisstjórnin e.t.v. ekki að nú er verið að ráða kennara með full réttindi í leikskólum fyrir aðeins 59 þús. kr. á mánuði? Heldur hann að þetta fólk hafi orðið vart við rýmkaðar ráðstöfunartekjur?
    Hefur kaupmáttaraukningin kannski borist lífeyrisþegum sem margir bera miklu minna úr býtum en fiskverkakonan áðurnefnda? Ég get svo sem hugsað mér einn hóp lífeyrisþega sem kannski hefur orðið var við kaupmáttaraukningu. Það er fólk sem ekki greiddi í lífeyrissjóð, keypti sér verðbréf og hlutabréf og einkalífeyrisrétt og greiðir nú samkvæmt vísri ákvörðun landsfeðranna í ríkisstjórninni, enga skatta af eignatekjum sínum en nýtur um leið hæstu framlaga almannatrygginga, styrkja sem ætlaðir voru eingöngu öreigum og öðrum mjög illa stöddum lífeyrisþegum. Ég held að vísu ekki að þessir einstaklingar séu margir. En þeir hafa sannarlega ávaxtað sitt pund og nú er þeim umbunað af ríkisstjórnarherrunum sem styðja hlutabréfa- og verðbréfakaup með öllum hugsanlegum ráðum. Hinir, sem héldu að þeir væru að gera rétt með því að greiða í lífeyrissjóð og voru raunar skyldaðar til þess, fá nú lífeyrissjóðsgreiðslurnar sínar skattlagðar aftur ásamt því að fá lægri greiðslur úr almannatryggingunum. Já, hagstjórnarviskan er mikil og hagvaxtarilmanin er sæt.

    En hvers vegna hyggst ríkisstjórnin ekki koma á skatti á fjármagnstekjur og hvers vegna hyggst hún afnema hátekjuskatt? Það hefði þó ekki verið nema sanngjarnt úr því að hún telur sig ekki þurfa þessa aura í ríkiskassann að láta fólk með lægstu tekjur njóta þeirra, nota hátekjuskatt og skatta af fjármagnstekjum til að hækka skattleysismörkin. Í því hefði falist ilmandi efnahagsbætur sem ónæmustu nef hefðu getað numið.
    Er það e.t.v. hugsanlegt að þessi tregða stjórnarinnar dragi dám af því að það eru kosningar fram undan? Að vísu segir forsrh. að ríkisstjórnin hugsi ekki svoleiðis. En hver veit? Kannski veit hún ekki hvað hún hugsar.
    Virðulegi forseti. Flest þau hugtök sem hæstv. forsrh. fer svo fimlega með í stefnuræðu sinni, svo sem hagvöxtur, kaupmáttarauki og efnahagsbati, voru búin til sem mælitákn til að mæla hluti sem illmælanlegir eru. Flestir halda t.d. að hagvöxtur þýði hagsæld alls fólks í landinu, en hagvöxtur táknar það ekki. Hagvöxtur táknar peningaflæði og því meira flæði, þeim mun meiri hagvöxtur. Þetta hringsól peningastraumsins þarf ekki að þýða það að allir þegnar þjóðfélagsins eigi þátt í því og svo er alls ekki núna. Stór hluti almenns launafólks á sáralítinn og alls engan þátt í þessu flæði. Það er fólkið sem dregur nú úr innkaupum og herðir sultaról svo að innflutningurinn dregst saman og útflutningurinn verður meiri en innflutningur þrátt fyrir erfiðleika sem við er að etja í útflutningsgreinunum.
    Ein helsta ástæðan fyrir bættum viðskiptajöfnuði er raunar sú að kyrrstaða ríkir í framkvæmdum sem auðvitað kemur niður á almennum launþegum og eykur atvinnuleysið. Herra forsrh. Næsta skref í kyrrstöðu getur orðið afturför ef leiðtogar halda ekki áttum.
    Forsrh. er gjarnt að líta til liðins tíma og vitna í fyrri forustumenn. E.t.v. vilja hann og þingheimur skyggnast til baka og sjá hvernig aðstæður fjölskyldunnar voru fyrir 50 árum. Húsnæði var þröngt og stríðsskömmtun á innflutningi. En ein fyrirvinna nægði til að sjá fjölskyldu farborða. Oftast var húsmóðirin heima og veitti margs konar félagslega þjónustu börnum og gamalmennum, auk þess sem hún skóp heimilinu margvísleg efnahagsleg gæði með iðju sinni, matvælaframleiðslu, fataframleiðslu og því um líku. En í störfum hennar taldist enginn hagvöxtur fólginn því að hún hægði fremur á peningaflæðinu heldur en auka það. Þessi framleiðsla og þjónusta var því ekki til margra fiska metin, enda geta fræðingar ekki mælt vinnuframlag af þessu tagi. Þessa sér enn þá augljósan stað í launagreiðslum fyrir hefðbundin kvennastörf. Hvenær skyldi sá tími koma að vinnuframlag við verndun og viðgang lífs hljóti þá fjárhagslegu viðurkenningu sem réttlát er? Kannski í næstu kjarasamningum. Þeir eru fram undan.
    Fljótlega fór svo á árunum eftir stríð að verðbólga og vinnuaflsskortur kallaði konur út á vinnumarkaðinn, enda rýrnaði kaupmáttur fljótlega svo að ekki veitti af tveimur til að afla tekna til heimilis, til þess að fjármagna húsbyggingu, til að greiða af lánum og svo nú síðast til þess að kaupa lífsnauðsynjar. Þannig hefur staða hinnar íslensku, venjulegu alþýðufjölskyldu snarversnað í samfélaginu. Og samfélagið hefur brugðist seint við. Þjónustustofnanir hafa brugðist hægt við, leikskólar og skólar, ellivistun og elliþjónusta ýmiss konar, allt er þetta langt á eftir að umfangi þótt starfsemi einstakra stofnana sé góð. Það er nöturlegt til þess að vita, hvað svo sem hæstv. heilbrrh. sagði í kvöld, að gamalt og örvasa fólk í dag sem unnið hefur þessu þjóðfélagi langa ævi getur ekki verið öruggt með samastað þegar það mest þarf við.
    Í stefnuræðu sinni minntist hæstv. forsrh. ekki á þetta. Hann talar þó um hag fyrirtækja sem hafa hjarnað allverulega að hans mati og það er vel. En e.t.v. man forsrh. ekki eftir því að heimili þessa lands eru undirstaða alls atvinnulífs í landinu. Það eru þau sem skapa aðalþjóðarauðinn, börnin, vinnuafl framtíðarinnar, skapendur framtíðarinnar. Það er höfuðnauðsyn og undirstöðuatriði að heimilin og fjölskyldurnar í landinu geti rétt úr kútnum og búið sjálfum sér og börnum sínum holl og þroskavænleg lífskjör, menntun og umfram allt öryggi.
    Virðulegi forseti. Í ræðu sinni vék forsrh. að því að hann og stjórnvöld teldu að rétt væri að stefna eingöngu að samningi um Evrópskt efnahagssvæði en sækja ekki um inngöngu í Evrópusambandið. Það er ánægjulegt til þess að vita að sú stefna hefur orðið ofan á í þessari ríkisstjórn. Vitað er að minni flokkurinn sem að stjórninni stendur hefur um langan aldur viljað beint í breiðan faðm Evrópusambandsins. Þetta er ekki ný saga. Í bók sinni um viðreisnarárin skýrir dr. Gylfi Þ. Gíslason frá því að alþýðuflokksmenn vildu inn í þetta bandalag þegar það var á frumstigi ferils þess. Að sögn dr. Gylfa var þessi skoðun einnig ríkjandi í Sjálfstfl. á þessum tíma. Batnandi mönnum er best að lifa. Sem betur fer hefur stefnan ekki verið tekin á fulla aðild og þar með á fullt afsal sjálfræðis okkar, nóg er nú samt. Og það er fyllsta ástæða til að vera enn þá vel á verði.
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þrátt fyrir margvísleg misstig þessarar ríkisstjórnar höfum við ekki ástæðu til annars en að horfa djarfhuga fram á veginn. Við eigum auð sem er orka í jörðu, hreint land, sem býður upp á vistvæna framleiðslu, og fiskimið í kringum landið sem við getum verndað og bætt. Auk þess eigum við mannauð og gott menntunarstig. Allt þetta þurfum við að efla og leggja rækt við. Sameinuð í stéttlitlu samfélagi eiga allir, konur og karlar, ungir sem aldnir, jafnan rétt til að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Því þarf að útrýma atvinnuleysi, jafna launakjör og efla félagslega þjónustu. Í slíku þjóðfélagi viljum við Íslendingar búa. --- Ég hef lokið máli mínu.