Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 22:18:10 (26)


[22:18]

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Í ræðu sinni í kvöld hélt forsrh. því fram að á kjörtímabilinu hafi ríkt jafnvægi, vinnufriður og stöðugleiki. Ekki skal úr því dregið að fyrir nokkrum árum hefðum við talið það mikinn sigur að verðbólga væri svo lág sem raun ber vitni og væntanlega þurfum við aldrei oftar að lifa þá verðbólgutíma sem hér ríktu áður. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það er líka merki um stöðnun og litla fjárfestingu. Atvinnulífið er í lamasessi víða um land. Atvinnuleysið hefur vaxið úr 1% árið 1991 í tæp 5% í ár og er þá aðeins tekið meðaltal. Á mörgum stöðum á landinu er atvinnuleysið mun meira og mest er það hjá konum.
    Forsrh. segir það merki um efnahagsbata að atvinnuleysið sé minna en spáð var á árinu en árið er nú ekki liðið enn svo að þarna eru ekki rauntölur á ferðinni. Sú staðreynd að atvinnuleysi hefur bitnað harðast á ungu fólki og konum þykir mér uggvænleg og jafnframt fjölgar þeim sem hafa verið atvinnulausir í ár eða meira. Sú ríkisstjórn sem sættir sig við það er ekki starfi sínu vaxin.
    Mér þótti það merkilegt í ræðu forsrh. að hvergi var minnst á fjölskylduna og afkomu heimilanna. Þó hafa skuldir heimilanna vaxið gífurlega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Kaupmáttur hefur lækkað og minni möguleikar eru að afla aukinna tekna vegna minnkandi atvinnu. Nýlega hafa heimilislæknar sent frá sér ályktun um fjölskylduna í íslensku samfélagi. Þar er bent á það að grundvallaratriði sé að allir hafi atvinnu. Þeir nefna sjálfsímynd og sjálfsvirðingu sem tengt sé atvinnu. Atvinnuleysið hafi hins vegar þau áhrif að spilla heilsu manna og stytta líftíma. Þá hefur landlæknir varað við afleiðingum atvinnuleysis og auknum fjölda afbrota í kjölfarið.
    Það er líka staðreynd að byrðum hefur verið létt af atvinnulífinu og þær byrðar færðar yfir á einstaklingana. Þar er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Þeir 4 milljarðar kr. sem áður voru innheimtir með aðstöðugjöldum á fyrirtæki voru fyrir einu ári færðir á einstaklinga. Staðgreiðslan var hækkuð um tvö stig eða úr 39,8% af tekjum í 41,8%. Jafnframt var persónafslátturinn lækkaður. Á sama tíma hafa þjónustugjöld hvers konar verið tekin upp í auknum mæli og þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði hefur einnig vaxið.
    Liðurinn læknishjálp í útreikningi framfærsluvísitölunnar hækkaði um 95% á árinu 1992 og um 20% á árinu 1993. Liðurinn sjúkrakostnaður hækkaði um 70% á árinu 1992 og um önnur 70% á árinu 1993. Allt ber að sama brunni. Það eru lækkaðar álögur á fyrirtækjunum en skattbyrðin er að sliga einstaklingana.
    Nú fullyrðir forsrh. að efnahagsbati sé fram undan. Og hvernig bregst þá ríkisstjórnin við? Ekki með því að hækka persónuafsláttinn eða lækka almennu skattprósentuna. Nei, ríkisstjórnin ætlar að afnema hátekjuskattinn og ríkisstjórnin ætlar ekki að taka upp fjármagnstekjuskatt eins og marglofað hefur verið. Í staðinn ætlar hún að auka enn þátttöku sjúklinga í læknakostnaði og nú eru það svonefnd ferliverk á sjúkrahúsum sem sjúklingar eiga að greiða og eiga að spara ríkissjóði 100 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrv.
    Þá má líka minna á það að 1. júlí sl. var ekkjulífeyrir tekjutengdur til þess að ekkjurnar hefðu það nú ekki of gott. Það átti að spara ríkissjóði 70 millj. kr. og 40% þeirra kvenna, sem þá höfðu ekkjulífeyri, misstu hann. Á sama tíma var einnig laumað inn skerðingu á ellilífeyri og það gert um leið og eingreiðslurnar komu svo fólk tæki nú ekki eins eftir því. Nú er einnig boðað að hætta eigi eingreiðslum til lífeyrisþega á næsta ári og þannig á enn að skerða lífeyri hjá gömlu fólki og öryrkjum.
    Sá bati í efnahagslífinu sem forsrh. hampar svo mjög er á veikum grunni byggður. Hann byggist að miklu leyti á því að veiðar hafi verið stundaðar á fjarlægum miðum. Fleiri skip hafa stundað þær veiðar en nokkru sinni fyrr og afli hefur verið mikill síðustu mánuði. Þar ber hæst hinar svokölluðu Smuguveiðar. Þar lætur nærri að útflutningsverðmæti hafi þrefaldast á einu ári. Þar er framtíðin óljós svo ekki sé meira sagt. Við verðum að stefna að því að ná þar samningum við Norðmenn og Rússa og ótrúlegt mjög að þá verði hægt að veiða þar jafnmikið og nú hefur verið gert. Við getum heldur ekki sem ábyrg fiskveiðiþjóð haldið uppteknum hætti við veiðar í Barentshafi. Þá erum við fallin í sömu gryfju og þær þjóðir sem við höfum gagnrýnt hvað harðast í okkar landhelgisdeilum. Með minnkandi afla á heimamiðum ber vissulega nauðsyn til að leita á fjarlægari mið. Við eigum stóran og vel búinn skipaflota sem ekki hefur næg verkefni, en að sjálfsögðu verðum við að stunda úthafsveiðar undir formerkjum ábyrgrar fiskveiðistjórnunar.
    Við lifum á tímum mikilla breytinga í viðskiptum við aðrar þjóðir. EES-samningurinn, sem nokkuð hefur verið nefndur hér í kvöld, gekk í gildi um síðustu áramót. Hann er engin endanleg lausn eins og margir virtust halda. Nú koma berlega í ljós þeir gallar sem við andstæðingar samningsins bentum á í umræðum. Stofnanaþáttur samningsins, EES-dómstóll o.fl., hefur engan tilgang og staða okkar í viðskiptum við Norðurlöndin, gangi þau í Evrópusambandið, er verri innan EES-samningsins en áður var.
    Kvennalistinn vildi að gerður væri tvíhliða samningur við Evrópusambandið í stað EES-samningsins. Nú hefur Alþingi samþykkt að þeim samningi skuli breytt í tvíhliða viðskiptasamning og að því verður unnið. Það stefnir því í það að þær stofnanir sem koma þurfti á fót í tengslum við EES-samninginn verði flestar lagðar niður áður en á þær reynir til hlítar.
    Forsrh. hefur lýst því yfir að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá. Um það mál er ég honum sammála. Rök fyrir þeirri afstöðu eru mörg. Þar nægir að nefna uppbyggingu valdakerfis Evrópusambandsins og sjávarútvegsstefnu þess.

    Sú ríkisstjórn sem nú situr er ekki starfhæf vegna sundurlyndis. Það kom glöggt fram á liðnum vetri og ekki síst í landbúnaðarmálum sem flestir muna. Hún er heldur ekki traustvekjandi í utanríkismálum þar sem forsrh. lýsir yfir vantrausti á utanrrh. til þess að fara með samningamál fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi. Forsrh. og sjútvrh. elda grátt silfur frá gamalli tíð. Eina konan sem sæti átti í ríkisstjórninni hefur fengið nóg og sagt af sér. Sífelldar hrókeringar Alþfl. um ráðherrastóla bera ekki vott um ábyrgðartilfinningu. Og fleiri en einn ráðherra hefur gert sig sekan um dómgreindarskort og siðferðisbrest í störfum sínum. Hjá öðrum þjóðum mundu slíkir menn segja af sér ráðherrastörfum þegar í stað.
    Þingflokkur Kvennalistans hefur margoft gagnrýnt störf einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar. Við teljum að félmrh. hefði átt að segja af sér í kjölfar nýjustu upplýsinga um embættisferil hans. Taki ríkisstjórnin ekki á því máli á allra næstu dögum er eðlilegt að fram komi vantraust á ríkisstjórnina eins og Kvennalistinn hefur boðað.
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þessi ríkisstjórn heldur að það sé nóg að gert ef atvinnuleysi fer ekki yfir 5% í ár. Þessi ríkisstjórn hefur sífellt verið að skerða kjör einstaklinga og heimila með sköttum, þjónustugjöldum, lækkun barnabóta, lækkun vaxtabóta, skerðingu lífeyris til ekkna, öryrkja og ellilífeyrisþega. Það er ekki undarlegt þó að skuldir heimilanna vaxi hröðum skrefum og fjórða hvert húsbréfalán sé í vanskilum. Á sama tíma bruðla einstakir ráðherrar með fjármuni almennings í landinu til að hygla eigin flokksmönnum. Ég spyr ykkur, góðir Íslendingar: Er ekki nóg komið?