Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 22:43:20 (28)


[22:43]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. nefndi í ræðu sinni áðan nokkra mikilvæga þætti í efnahagslífinu sem eru hagstæðari nú en áður: verðbólga í lágmarki, viðskiptajöfnuður hagstæður þriðja árið í röð --- slíkt hefur ekki gerst síðan á stríðsárunum --- vextir hafa farið lækkandi og jafnvægi ríkir í vaxtamálum, atvinnuleysi er minna, og það til muna minna, en í nágrannalöndunum og Evrópulöndum yfirleitt, kaupmáttur fer vaxandi svo og hagvöxtur, erlendar skuldir greiddar niður um 23 milljarða kr., ríkisútgjöld lækkuð og fleira mætti telja.
    Ekkert af þessu er sjálfsagt, síst af öllu á þeim þrengingartímum sem við höfum nú lifað. Markvissar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eiga stóran þátt í þeim mikilsverða árangri sem náðst hefur á síðustu þremur árum. Frá upphafi hefur ríkisstjórnin stefnt að því marki að koma efnahagsmálum þjóðarinnar í lag. Þrátt fyrir ýmis ytri áföll er þetta markmið nú í augsýn. Þjóðin hefur tekið þar fullan þátt. Svo kemur hér í ræðustól hv. þm. Halldór Ásgrímsson og rifjar upp gagnrýni stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórnina í upphafi kjörtímabils fyrir það hversu dökka mynd hún hafi dregið af stöðu efnahagsmála þá. Og hvað gerir stjórnarandstaðan nú þegar hæstv. forsrh. lýsir því að bjartara sé fram undan? Jú, þá gagnrýnir stjórnarandstaðan ríkisstjórnina fyrir að auka mönnum bjartsýni. Heldur dauðahaldi í kreppuna eins og forsrh. sagði og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson innsiglaði í sinni ræðu áðan.
    Stefna ríkisstjórnarinnar nú byggir á þeim grunni sem lagður var í upphafi kjörtímabilsins að tryggja stöðugleika og örva nýsköpun í atvinnulífinu, auka verðmætasköpun, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið og skapa þannig fjölbreytt störf. Þessari stefnu hefur verið fylgt af festu og svo verður gert áfram.
    Þjóðir heims standa frammi fyrir þeirri staðreynd að afkoma þeirra ræðst í æ ríkari mæli af öflugu rannsókna- og þróunarstarfi, jafnt í undirstöðugreinum sem þjónustugreinum. Víða hefur því verið lögð meiri áhersla á eflingu vísinda á undanförnum árum en fyrr. Sama hefur orðið hér á landi fyrir ákvarðanir núv. ríkisstjórnar. Fyrir réttu ári samþykkti ríkisstjórnin stefnu í vísinda- og tæknimálum, stefnu sem fylgt var eftir með stórauknu vísindasamstarfi við Evrópusambandið og svo frumvarpi sem ég flutti á Alþingi um nýtt Rannsóknarráð Íslands en það varð að lögum á sl. vori. Á þeim tíma hafði ríkisstjórnin tvöfaldað framlag til til rannsóknarsjóðs Rannsóknarráðs á árinu 1992. Hinu nýja Rannsóknarráði er ætlað aukið hlutverk við að fylgjast með framvindu í vísinda- og tæknistarfi, leita leiða til þess að efla rannsóknarstarfsemi í landinu og auka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Rannsóknarnámssjóður við Háskóla Íslands er lögfestur en ég beitti mér fyrir því að stofna hann með sérstöku fjárframlagi árið 1993.
    Hið nýja Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn, tekur til starfa hinn 1. des. nk. og Þjóðarbókhlaða verður vígð. Það var ákvörðun þessarar ríkisstjórnar að ljúka hinni allt of löngu byggingarsögu á þessu kjörtímabili. Við þá ákvörðun er staðið með því að auknu fé hefur verið varið til framkvæmdanna á kjörtímabilinu. Sameining Landsbókasafnsins og Háskólabókasafnsins í hið nýja safn og flutningur í Þjóðarbókhlöðu mun gjörbreyta aðstöðu í Háskóla Íslands og verða alveg nýr vettvangur til upplýsingaöflunar. Til verður raunverulegt rannsóknarbókasafn.
    Stórefling vísinda og rannsókna og flutningur safnanna í Þjóðarbókhlöðu hefur orðið vegna skilnings núv. ríkisstjórnar á mikilvægi þessara þátta í þjóðlífi okkar Íslendinga. Þetta hefur orðið þrátt fyrir erfiðleika í fjármálum og skertar fjárveitingar til ýmissa mikilvægra mála.
    Heildstæð stefna í málefnum grunn- og framhaldsskóla hefur nú verið mótuð með heilladrjúgu starfi menntastefnunefndar undanfarin tvö ár. Um tillögur nefndarinnar hafa skapast miklar umræður í samfélaginu og er einsýnt að landsmenn leggja áherslu á að komið verði á umbótum í skólastarfi.
    Hér í þinginu og af sumum talsmönnum kennarasamtakanna var gagnrýnt að ráðist skyldi í hina viðamiklu endurskoðun menntastefnunnar. Spurt var hvers vegna. Á undanförnum árum hefur íslenska skólakerfið verið gagnrýnt töluvert og ýmsar spurningar vaknað um gæði skólastarfsins. Gagnrýnisraddir voru háværar, skólakerfið átti undir högg að sækja og við þessu varð að bregðast.
    Hin nýja menntastefna er eitt af stærstu framfaramálum þjóðarinnar. Meginmarkmið hennar er að efla starfið í grunnskóla og framhaldsskóla og stuðla að bættri menntun ungs fólks. Ný lög um bæði skólastigin munu leiða til þess að auknar kröfur verða gerðar um gæði skólastarfs og betur verður fylgst með árangri þess en verið hefur. Áhersla er lögð á að styðja við faglegt starf kennara og skólafólks og opna skólakerfið gagnvart samfélaginu. Reynt er að auka hlut foreldra og aðila atvinnulífs í stefnumörkun á sviði skólamála. Hin nýja stefna tekur í senn til grunnskóla og framhaldsskóla.
    Á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um leikskóla og leikskólinn viðurkenndur þá sem fyrsta skólastigið.
    Þegar þessi frumvörp eru orðin að lögum hefur Alþingi markað uppeldis- og menntastefnu fyrir íslenska æsku frá leikskólaaldri og fram undir tvítugt.
    Mikið hefur verið rætt um þá tillögu menntastefnunefndar að lengja skólaárið í 10 mánuði. Tillagan hefur fengið dræmar undirtektir og raunar mætt verulegri andstöðu margra. Því hef ég ákveðið að hverfa frá þessari tillögu en leggja á hinn bóginn megináherslu á rétt nemenda til náms og kennslu þá níu mánuði sem skólinn starfar. Raunverulegum kennsludögum verður fjölgað frá því sem nú er og tíminn betur nýttur til skipulegra starfa nemenda undir leiðsögn kennara. Stefnt er að því að nemendur komi með betri námsundirbúning er þeir ljúka grunnskóla og að leiðum úr framhaldsskóla verði fjölgað þannig að allir nemendur sem framhaldsskólann sækja útskrifist með skilgreind próf sem opna þeim leiðir til áframhaldandi náms eða starfa úti í þjóðfélaginu.
    Það er afar brýnt að námsframboð framhaldsskólans verði endurskoðað. Mikilvægt er að starfsnám fái forgang í skólamálum á næstu árum. Í íslenskum skólum hefur verið mikil einhliða áhersla á almennt bóknám á kostnað verklegs náms. Rannsókn hefur sýnt að af hverjum fjórum nemendum framhaldsskólans voru þrír skráðir á bóknámsbrautir. Einungis um 8% af þeim nemendum sem könnunin náði yfir höfðu lokið iðnnámi eða öðru starfsnámi. Hjá öðrum þjóðum ljúka um eða yfir 50% hvers árgangs skilgreindu starfsnámi.
    Samkvæmt hinni nýju stefnu verður öll ábyrgð á framkvæmd grunnskólahalds færð til sveitarfélaga. Það er í fullu samræmi við ítrekaðar óskir þeirra, augljóst hagræði sem einfaldar stjórnun. Krafan um aukinn árangur af starfi grunnskólans helst mjög í hendur við þá kröfu að daglegur og vikulegur skólatími grunnskólanemenda verði lengdur. Sem svar við umræðum í samfélaginu um tillögur menntastefnunefndar er í nýju frv. til laga um grunnskóla gert ráð fyrir því að skóladagur nemenda verði lengdur til muna og að allir grunnskólar verði orðnir einsetnir fyrir aldamót. Í hinum nýja grunnskóla munu allir nemendur hefja nám að morgni og kennsludagur mun ná fram yfir hádegi.
    Allt mun þetta kosta aukið fé. Að undanförnu hefur skólakerfið því miður ekki fengið aukin framlög fremur en aðrir þættir opinberrar þjónustu. En nú rofar til. Á nýbyrjuðu skólaári var kennslustundum fjölgað um sex í grunnskólum og stefnt er að fjölgun um sex stundir á hinu næsta. Þá hefur verið skilað aftur þeim tólf stundum sem fækkað var um haustið 1992 í hinum nauðsynlegu aðhaldsaðgerðum. Forverar mínir í stóli menntamálaráðherra, þeir sem þurft hafa að skera niður kennslustundir, hafa ekki skilað þeim aftur. Þar er um að ræða tvo fyrrv. ráðherra Alþb., þá hv. þm. Ragnar Arnalds og Svavar Gestsson.
    Í nýja grunnskólafrumvarpinu er lagt til að kennslustundum fjölgi á hverju ári þar til lágmarksákvæðum frv. er náð, skólaárið 1999--2000. Þá mun vikulegum kennslustundum grunnskólanemenda hafa

fjölgað um 43. Allir nemendur grunnskólans verða þá í skólanum frá morgni og fram yfir hádegi.
    Hæstv. forseti. Ég hef orðað það svo við annað tækifæri að þjóðarnauðsyn sé að koma í höfn á þessu þingi nýrri skólastefnu. Það er unnt með því að greiða götu frumvarpa um grunnskóla og framhaldsskóla í þinginu og að hin nýja skólastefna hljóti öflugan stuðning úti í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin er einhuga um stefnuna í skólamálum. Ég læt í ljós þá von að umræða um skólamál verði málefnaleg og afgreiðsla frumvarpanna í samræmi við það.
    Góðir landsmenn. Opnun Þjóðarbókhlöðu, efling rannsókna- og vísindastarfs og ný stefna í menntamálum eru mikilvægir áfangar á leið okkar til að efla og styrkja íslenska menningu. Þannig fer saman í störfum þessarar ríkisstjórnar áhersla á stöðugleika í efnahagsmálum og nýsköpun í atvinnulífi samfara öflun nýrrar þekkingar. Með þessum hætti stuðlar ríkisstjórnin að sókn á öllum sviðum íslensks atvinnu- og menningarlífs til hagsældar fyrir land og þjóð. --- Góðar stundir.