Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 23:00:31 (30)


[23:00]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Góðir Íslendingar. Þetta hefur að mörgu leyti verið fróðleg en þó skrýtin umræða í kvöld. Við höfum hlustað á talsmenn og formann Alþb. ásaka ríkisstjórnina fyrir að vera í bjartsýniskasti. Aftur á móti höfum við heyrt alla þrjá talsmenn Framsfl. ásaka ríkisstjórnina fyrir að vera sokkna ofan í gjá þunglyndisins. Ég spyr ykkur hlustendur góðir: Ef þessir herramenn geta ekki einu sinni komið sér saman um það í hvernig skapi ríkisstjórnin er gætu þeir nokkru sinni komið sér saman um það hvernig á að stjórna landinu?
    Málfundir eins og eldhúsdagur eru jafnan háðir um þau dægurmál sem ber hæst hverju sinni en það er nú svo að líka er þörf á að ræða önnur mál sem ekki eru beinlínis í kastljósi hversdagsins. Eitt af þessum málum er einmitt kjördæmamálið sem eiginlega ekkert hefur verið drepið á í kvöld. En eitt af þeim málum sem Alþfl. telur vera með brýnustu verkefnum þessa vetrar er endurskoðun á kjördæmakerfinu og kosningalögum. Gallarnir á núverandi kerfi eru flestum kunnir. Kosningarréttur er ójafn eftir búsetu eins og speglast best í því að íbúar í mínu kjördæmi, Reykjavík, hafa einungis fjórðung þess atkvæðavægis sem ýmsir aðrir landsmenn hafa í kosningum til Alþingis. Þetta er ekki réttlæti, þetta er ekki sá jöfnuður sem sannir jafnaðarmenn berjast fyrir.
    Misvægið er raunar ekki aðeins á milli landsbyggðarinnar almennt og þéttbýliskjarnans á suðvesturhorninu heldur líka innbyrðis á milli landsbyggðarkjördæmanna. Alþfl. hefur frá stofnun sinni barist fyrir jöfnum kosningarrétti landsmanna, óháðum kyni, efnahag og búsetu. Engum dettur lengur í hug að mismuna kjósendum á grundvelli kynferðis eða efnahags en mismunun á grundvelli búsetu er og hefur raunar verið staðreynd alla þessa öld. Einfaldasta lausnin á þessum vanda er sú sem Alþfl. hefur lagt til, þ.e. að landið verði gert að einu kjördæmi. Rökin fyrir því eru skýr. Í fyrsta lagi er það einfaldasta og besta leiðin til að jafna kosningarrétt landsmanna. Í öðru lagi næst með því jafnvægi á milli þingstyrks og kjörfylgis flokkanna. Í þriðja lagi aðlagast slíkt kosningakerfi sjálfkrafa hröðum breytingum og atvinnuháttum og búsetu. Í fjórða lagi og það er e.t.v. ekki síst mikilvægt þá dragi það úr hrepparíg og óeðlilegri hagsmunagæslu.
    Kosningarrétturinn er mannréttindi sem ber að virða. Ójafn kosningarréttur er að mínu viti ekkert annað en brot á sjálfsögðustu mannréttindum.
    Hæstv. forsrh. sagði fyrr í kvöld að Íslendingar væru Evrópuþjóð í besta skilningi þess orðs og því er ég hjartanlega sammála. Það var Alþfl. sem hafði forustu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu með öllum þeim ávinningum sem henni fylgja. EES var spurning um atvinnu, um traustari markað, um betri kjör fyrir íslenskar afurðir og þar með er EES eins og raunar samningurinn um GATT að lokum spurning um aukinn kaupmátt og þar með kjarabætur fyrir íslenska alþýðu.
    Á sínum tíma þorði stjórnarandstaðan ekki að fylgja málinu. Enginn úr hennar hópi hafði kjark til þess að greiða því atkvæði. Nú spyr ég talsmenn stjórnarandstöðunnar: Ætla þeir að standa við stóru orðin? Ætla þeir að segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir komast til valda og ef þeir komast einhvern tímann til valda? Á þjóðin von á því að sá mikli ávinningur sem hlýst af EES verði ónýttur? Þeir skulda þjóðinni svör við þessu og eftir þeim svörum verður gengið.
    Nú blasir jafnframt við að frændþjóðirnar á Norðurlöndum ganga í Evrópusambandið og þar með hafa forsendur fyrir utanríkisstefnu Íslands á örskammri stundu breyst. Við slík tímamót er erfitt að halda því fram að Evrópusambandið sé ekki á dagskrá. Þvert á móti munu samskipti okkar við Evrópusambandið vera eitt erfiðasta en jafnframt mikilvægasta viðfangsefni okkar á næstu missirum og næstu árum. Það er athyglisvert að þrjár stofnanir háskólans hafa þegar metið það svo að kostirnir við aðild vegi þyngra en gallarnir.
    Afstaða Alþfl. til málsins liggur fyrir. Hún var mótuð á flokksþingi í sumar þar sem ályktað var, með leyfi forseta:
    ,,Að hagsmunum Íslendinga verði til frambúðar best borgið með því að Ísland láti á það reyna hvort unnt er að tryggja brýnustu þjóðarhagsmuni Íslendinga við samningaborðið. Endanleg afstaða til hugsanlegrar aðildar að ESB verður hins vegar ekki tekin fyrr en samninganiðurstöður liggja fyrir og hafa verið rækilega kynntar.``
    Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Íslenska þjóðin mun að sjálfsögðu eiga síðasta orðið um það mál í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.``
    Nú er það staðreynd sem liggur fyrir að fjölmargir forustumenn í íslensku atvinnulífi eru einmitt þessarar skoðunar. Eins og hæstv. viðskrh. rifjaði upp fyrr í kvöld þá viðhafði einn þeirra, Friðrik Pálsson, forstjóri SH, þau ummæli í sjónvarpi á dögunum að umsókn um ESB-aðild væri nánast eina færa leiðin við mótun utanríkisviðskiptastefnu Íslendinga.

    Hlustendur góðir. Þessi eldhúsdagur er háður við dálítið sérstakar aðstæður. Þingmenn hafa á borðunum fyrir framan sig nýja þjóðhagsáætlun sem sýnir svart á hvítu að ríkisstjórnin er að ná góðum árangri á nánast öllum sviðum efnahagslífsins. Hvernig bregst stjórnarandstaðan við þessum jákvæðu tíðindum? Við höfum heyrt það hér í kvöld. Hún sér ekki rautt, hún sér svart. Það er eins og hún lifi í eilífu svartnætti þar sem aldrei blaktir týra á skari. En við skulum leyfa okkur þann munað, hv. fyrrv. þingflokksformaður Framsfl., Páll Pétursson, að skoða nokkrar staðreyndir.
    Mestallan síðasta áratug geisaði hér stjórnlaus verðbólga. Ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. hefur hins vegar tekist að halda miklum stöðugleika í verðlagsmálum og verðbólgan er nú minni en í nágrannaríkjunum og það sem meira er allt bendir til að svo verði áfram. Ríkisstjórnin lofaði að hemja verðbólguna og við það hefur hún staðið. Því var haldið fram af stjórnarandstöðunni að ríkisstjórnin réði ekki við vaxtamálin og hávaxtastefnan sem ríkisstjórnin tók í arf frá formanni Alþb. mundi brenna atvinnulífið á báli. Hvernig brást ríkisstjórnin við því? Hún styrkti efnahagsumhverfið með aðhaldi og sparnaði og þegar tíminn var réttur greip hún til snaggaralegra ráðstafana sem leiddi til þess nánast á einni nóttu að vextir lækkuðu verulega. Á sama tíma er þróunin þveröfug í nágrannalöndunum, þar er hún á uppleið. Jafnframt blasir við að bankarnir, eins og flest önnur fyrirtæki í landinu, eru að sigla í gegnum brimskaflana og ríkisstjórnin mun ganga eftir því eins og forsrh. hefur ítrekað hér í kvöld að bættur hagur bankanna skili sér í lægri bankavöxtum til fólksins í landinu. Eftir stendur þessi mikilvæga staðreynd: Ríkisstjórnin lofaði vaxtalækkun og við það hefur hún staðið.
    Stjórnarandstaðan hefur í kvöld enn fremur deilt á ríkisstjórnina vegna stöðunnar í atvinnumálum og hún er sökuð um afskiptaleysi. Ég fullyrði hins vegar: Það er ekkert fjær sanni. Ríkisstjórn fremur ekki töfrabrögð og hún dregur ekki kanínu upp úr hatti en hún getur hins vegar gripið til tímabundinna ráðstafana til þess að taka kúfinn af atvinnuleysinu. Það hefur þessi ríkisstjórn gert. Hún hefur varið milljörðum króna til þess að skapa ný störf. Fyrir atbeina hennar hafa á þessu ári orðið til 1.000 störf og ég spyr hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem kvartaði yfir aðgerðaleysi: Skipta 1.000 störf ekki máli? 1.000 fjölskyldur geta séð sér farborða vegna athafna ríkisstjórnarinnar. Er þetta að sitja með hendur í skauti?
    Ég fullyrði, virðulegi forseti, sem líffræðingur, að það þarf bókstaflega blindan mann til þess að sjá ekki batamerkin í kringum okkur en jafnvel sjáendur hér í kvöld virðast hafa haldin augu. Sterk staða útflutningsgreinanna speglar batann betur en flest annað. Það er uppgangur í stóriðju. Það er aukning í útflutningi annars iðnvarnings og meira að segja í landbúnaði hefur útflutningur á fyrstu sjö mánuðum þessa árs vaxið talsvert. Sjávarútvegurinn, sem hv. stjórnarandstæðingar spáðu hruni vegna stjórnarstefnunnar, er rekinn með hagnaði. Ferðaþjónustan. Stjórnarandstaðan hélt hástemmdar ræður um í fyrra um að ríkisstjórnin væri að drepa hana en hvað sögðu fréttirnar í kvöld? Fjölgun ferðamanna nemur 15%, auknar gjaldeyristekjur vegna ferðamanna 2 milljörðum. Þetta er greinin sem stjórnarandstaðan sagði að ríkisstjórnin væri að drepa. Á sama tíma og þessi mikilvægi árangur hefur náðst hafa Íslendingar í fyrsta skipti frá styrjaldarárum í þrjú ár í röð greitt niður erlendar skuldir. Við erum loksins byrjuð að létta klyfjar afkomendanna. Við höfum greitt niður hvorki meira né minna en 23 þús. millj. ísl. kr. af erlendum skuldum. Meira að segja formaður Alþb. talaði þannig í kvöld að ég gat ekki skilið hann betur en svo að hann væri sammála forsrh. hæstv. um að þetta væri þjóðarsigur enda þótt þá greindi á um 3 milljarða.
    Góðir Íslendingar. Ég hef aðeins eina spurningu til ykkar og hún er þessi: Í hvaða veröld lifir það fólk sem heldur því fram að þetta sé ekki árangur? Og ég spyr líka: Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar? Hvar eru hugmyndir þeirra? Í grænu bókinni sem hv. formaður Alþb. segist ætla að fara að ferðast með um landið, hvar eru þessar tillögur? Staðreyndin er sú, ágætu hlustendur, að alveg eins og þessi stjórnarandstaða getur ekki einu sinni komið sér saman um það í hvernig skapi ríkisstjórnin er, þá getur hún ekki heldur komið sér saman um samstæða stefnu og það er þess vegna sem engar líkur benda til þess að hún verði valin til að stjórna þessu landi.