Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 23:22:26 (32)


[23:22]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Þessi umræða, sem nú er að ljúka, hefur um margt verið fróðleg. Þjóðin hefur í kvöld getað hlýtt á sjálfshól sundurþykkrar ríkisstjórnar, stjórnar sem virðist sammála um það eitt að sitja og þrauka til loka kjörtímabilsins hvað sem líður áhöfninni, mannstöpum, siðspillingu og embættisfærslu einstakra ráðherra. Það er annar svipur á þessum lokaþætti í lífi ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. en upphafinu.
    Man einhver lengur eftir tilhugalífinu í sófanum í Viðey á vordögum 1991 og hlýjum handtökum formannanna með Esjuna í bakgrunni? Þá gekk ekki hnífurinn á milli manna. Nú blika hins vegar rýtingar í öllum áttum á þessu kærleiksríka heimili og í hönd fer skammdegið. Á þjóðin að búa við þessa ríkisstjórn í hálft ár í viðbót og taka á sig áhættuna af verkum hennar enn eitt missiri í viðbót? Við kvennalistakonur segjum nei. Við viljum fá úr því skorið sem fyrst hvort þessi ríkisstjórn styðst við meiri hluta hér á Alþingi. Því höfum við boðað vantrauststillögu á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Það kemur þá í ljós hverjir það eru sem vilja bera ábyrgð á því að lengja í þeim trosnuðu böndum sem enn halda henni saman.
    Forsrh. notaði mörg orð til að dásama árangur ríkisstjórnar sinnar. Það var varla að hann kæmi við jörðina, svo hátt var flugið. Arnfráum augum skimaði formaður Sjálfstfl. yfir völlinn langt fyrir neðan þar sem þjóðin hans býr hamingjusöm og nýtur ávaxtanna af starfi hans og ráðherra Alþfl. Þjóðarsigur var það orð sem leiðtoginn taldi best lýsa afrekum sínum og sinna manna, karlanna í ríkisstjórninni.
    Ef leitað er að gylltum þræði sem bindur saman þennan þjóðarsigur formanns Sjálfstfl. og gekk í gegnum stefnuræðu hans frá upphafi til enda, þá er það hugtakið stöðugleiki. Sama bindiefni er að finna í greinargerð varaformanns flokksins með nýframlögðu fjárlagafrv. Þar er viðkvæðið hinn langþráði stöðugleiki sem ekkert má raska og ná skal enn frekari fullkomnun á næsta kjörtímabili ef Sjálfstfl. fær að ráða.
    Við upphaf þessarar umræðu heyrðuð þið úr munni forsrh. eftirfarandi:
    ,,Festa hefur ríkt, jafnvægi, vinnufriður og stöðugleiki.`` Hann sagði einnig: ,,Við höfum aldrei verið nær því en nú að festa stöðugleikann í sessi.`` Þetta er aðeins dæmi af þeim orðaflaumi sem ráðherrann sáldraði yfir okkur áðan. Stöðugleiki getur vissulega verið góður ef náð hefur verið ásættanlegri skipan mála og enginn er t.d. að óska eftir óðaverðbólgu, vaxtahækkunum eða öðru viðlíka fári. En stöðugleiki snýst í helsi ef nota á hann til þess að viðhalda óréttlæti og rangri skipan mála og það er í þessu sem veikleikinn í málflutningi forsrh. er fólginn.
    Hvað skyldu þeir segja um blessun stöðugleikans, sem orðið hafa fyrir barðinu á aðgerðum ríkisstjórnarinnar gagnvart velferðinni í landinu? Hvað segja þeir um gjaldið fyrir stöðugleikann sem aðgerðir menntmrh. hafa bitnað harðast á? Hvernig leggst stöðugleikinn í þá sem orðið hafa fyrir barðinu á niðurskurði og hringlandahætti tveggja alþýðuflokksráðherra í heilbrigðismálum? Hvernig hljómar söngurinn um stöðugleikann sem ekkert megi raska í eyrum þeirra sem hafa verið að kikna undan afleiðingum af stöðu húsnæðismála um margra ára skeið? Hvað segir fólkið á landsbyggðinni sem býr við skerta þjónustu og vaxandi öryggisleysi? Vill það meira af þeim stöðugleika, stöðnun og atvinnuleysi sem ríkisstjórnin hefur gert að hlutskipti þúsunda um allt land? Og hvað segja konur til sjávar og sveita sem hafa ætlað sér annað hlutskipti en felst í óbreyttu ástandi, þar sem þeim eru skömmtuð langtum lægri laun en karlar njóta fyrir sambærileg störf auk annars óréttlætis sem er hlutskipti þeirra?
    Forsrh. hrósaði sér af því að hafa horfið frá smáskammtalækningum sem forverar hans hafa stundað. Það er vissulega rétt að ríkisstjórnin hefur verið stórtæk í því að breyta leikreglunum í íslensku samfélagi og þá fyrst og fremst í þá átt að gefa markaðsöflunum lausan tauminn.
    Fyrir hálfu öðru ári samþykkti meiri hlutinn hér á Alþingi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Með þeim samningi hafa Íslendingar að stórum hluta afsalað sér sjálfræði í efnahagsstjórn og raunverulegt vald Alþingis og innlendra dómstóla verið stórlega skert. Forsrh. talar um að með þeim samningi hafi Íslendingum verið tryggðir, eins og hann orðaði það, allir þeir nýju möguleikar sem Evrópa hefur upp á að bjóða og neytendur hljóti verulegan ávinning. Þetta eru innantóm orð og enn er engin marktæk reynsla komin á afleiðingar þessa samnings nema hvað utanrrh. vill þegar sigla alla leið í náðarfaðm Evrópusambandsins.
    Það er þó athyglisvert að þegar eru uppi nokkrar efasemdir hjá stjórnarliðunum um áhrif óheftra fjármagnsflutninga. Ríkisstjórnin hefur sem kunnugt er fallið frá að leggja á hátekjuskatt á næsta ári sem og skatt á eignatekjur, þ.e. svokallaðan fjármagnsskatt. Í greinargerð fjárlagafrv. er þessi mildi gagnvart fjármagnseigendum ekki síst sögð koma til af ótta við vaxtahækkanir í kjölfarið og ótta við fjárstreymi úr landi. Þarna viðurkennir fjmrh. hvernig ákvæði EES-samningsins taka fram fyrir hendur hans um efnahagsstjórn nema þá samningurinn sé notaður sem skálkaskjól til að halda verndarhendi yfir óréttlætinu í landinu. Svo mikið er víst að það óhefta markaðskerfi sem EES-samningurinn kallar yfir þjóðina mun auka misskiptingu enn frekar í þjóðfélaginu og gera erfiðara fyrir að vinna að jöfnuði óháð kyni og búsetu.
    Það er vissulega fróðlegt að heyra nýja talsmenn Framsfl. hér á Alþingi komna í þann kór að lofa og prísa þennan óheillasamning.
    Það er ánægjulegt að forsrh. aftekur að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu í bili. Undir þá skoðun hans get ég tekið, en vildi þó kveða fastar að orði. Margir hljóta líka að velta því fyrir sér fyrir hve stóran hluta af Sjálfstfl. hann talar í þessu máli m.a. í ljósi ummæla allmargra þingmanna og væntanlegra frambjóðenda flokksins sem ganga í aðra átt. Nauðsynlegt er að þeir sem bjóða sig fram fyrir næstu kosningar geri kjósendum grein fyrir stefnu sinni gagnvart Evrópusambandinu. Það getur ekki gilt neitt ha og pú og kannski, slíkt örlagamál sem hér er á ferðinni.
    Góðir áheyrendur. Kvennalistinn var ekki stofnaður til að festa hér í sessi stöðugleika á forsendum karlveldisins. Tilkoma Kvennalistans fól í sér uppreisn gegn ríkjandi ástandi og óþolandi óréttlæti sem er hlutskipti kvenna og lágtekjuhópa í þessu landi. Úr því verður ekki bætt með því að brjóta niður velferðarkerfið eða innleiða óhefta harðstjórn markaðarins.
    Kvennalistinn hefur í bráðum 12 ára sögu sinni fengið mörgu áorkað, bæði beint og óbeint. Það er þó langt frá því að við búum við viðunandi ástand og á mörgum sviðum er kvennabaráttan í varnarstöðu um þessar mundir.
    Lítið á hverjir fylla að meiri hluta láglaunahópana í landinu. Lítið á aðstæður einstæðra foreldra sem að miklum meiri hluta eru konur. Lítið á Alþingi Íslendinga þar sem konur eru aðeins fjórðungur fulltrúa á sama tíma og þær eru um og yfir 40% á þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndum. Lítið á ríkisstjórnina sem hefur nýlega hrakið úr sínum röðum einu konuna sem þar hefur setið um sjö ára skeið. ,,Kvenmannslaus í kulda og trekki`` gætu verið einkunnarorð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem leggur nú með þjóðarsigur sinn að baki út í skammdegið.
    Það er ekki frysting á þessu ástandi sem Kvennalistinn boðar. Við höfnum stöðugleika sem hefur þetta ástand fyrir forsendu. Krafan um kvenfrelsi á vaxandi fylgi að fagna hérlendis og erlendis hvað sem líður stefnu ríkisstjórna. Þessi hugur endurspeglaðist vel á norræna jafnréttisþinginu í Finnlandi á liðnu sumri en íslenskar konur voru þar virkir þátttakendur. Það ánægjulegasta við þingið var að finna þann kraft og sóknarhug sem einkenndi konur sem það sóttu.
    Fram undan á næsta ári er jafnréttisstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna og verður hún haldin í Kína. Hingað til hefur undirbúningur hérlendis fyrir þessa ráðstefnu verið í skötulíki. Þótt tíminn sé naumur má þó eitthvað úr bæta. Þrátt fyrir allt verður að reyna að tryggja sem myndarlegasta þátttöku okkar og áhrif á þessa heimsráðstefnu sem er í senn táknræn og mikilvæg. Íslenskar konur geta haft þar mikið fram að færa auk þess að kynnast reynslu kvenna frá öðrum löndum.
    Frú forseti. Skammt er til alþingiskosninga þar sem leitað verður eftir endurnýjuðu umboði fulltrúa á þessari gamalgrónu stofnun. Kvennalistinn leggur óhikað störf sín og stefnu undir dóm þjóðarinnar og biður um stuðning við málstað sinn. Við skulum vona að fleiri konur sitji á bekkjum ráðherra og þingmanna að kosningum loknum og umfram allt að málstaður jafnréttis á sem flestum sviðum standi styrkari fótum en hingað til á Alþingi Íslendinga.
    Ég þakka þeim sem enst hafa til að hlusta á þessa umræðu til loka. Góða nótt.