Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:35:13 (35)

[13:35]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég óska eftir að ræða störf þingsins er staðan varðandi útvarpssendingar, hljóðvarps- og sjónvarpssendingar frá Alþingi. Eins og menn rekur væntanlega minni til lögðum við fjórir hv. alþingismenn fram till. til þál. á síðasta þingi um að forsn. þingsins tryggði að fyrir upphaf þessa þings yrði þannig frá gengið að útvarp frá Alþingi næði til allra landsmanna. Hæstv. forseti gat þess í þingslitaræðu sl. vor að þetta mál yrði kannað af hálfu forsn. og farið ofan í saumana á því, einkum kostnaðarhlið þess og að forsn. væri ráðin í að ljúka athugun á þessu máli fyrir haustið. Nú hef ég fengið um það vitneskju að forsn. hafi vissulega fjallað um málið og í aðalatriðum sé málið í þeirri stöðu að gert sé ráð fyrir því að fram eftir vetri verði sjónvarpað frá Alþingi á vegum Stöðvar 2 og Sýnar, sem munu vera í einum potti, en síðan eftir að breytingum hjá Stöð 2 verði lokið í sambandi við myndlykla þá falli málið aftur í hinn gamla farveg og Sýn taki við ef samið verður áfram um sendingar við þá sjónvarpsstöð. Jafnframt að ráðgert sé að ræða frekar við ríkissjónvarpið.
    Ég tel, virðulegur forseti, að það sé algerlega óviðunandi staða hjá Alþingi að útvarpssendingar frá þinginu nái ekki til landsins alls og það skuli vera farið áfram inn á þá braut að sjónvarpa héðan til takmarkaðs hluta landsmanna. Að vísu er sagt að þetta nái til yfir 90% landsmanna nú á næstu mánuðum en það er engan veginn viðunandi. Ég vænti þess að hæstv. forseti greini okkur nánar frá því hvað áformað er í þessu máli. Ég hefði talið ráðlegt að bíða með allar sendingar frá Alþingi eftir því að þetta mál komist í viðunandi horf.