Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:47:00 (38)


[13:47]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég held að ávinningur sé að því að sjónvarpa frá þingfundum og að reynslan hafi kennt okkur að töluvert mikið er fylgst með þessu sjónvarpi. Það er ávinningur fyrir Alþingi ef þjóðin fylgist með því sem hér er að gerast. Þar sem við höfum ríkisútvarp er eðlilegt að útsendingarnar séu á vegum þess en ekki einkafyrirtækis, allra síst eftir að það einkafyrirtæki, sem upphaflega var samið við, hefur rofið samninginn. Mér finnast undanfærslur Ríkisútvarpsins um kostnaðarsamar framkvæmdir, sem þurfi að vera því til fyrirstöðu að farið sé að sjónvarpa héðan, vera nokkuð einkennilegar og ég tel að þeir hafi ekki skilyrði til að setja sig sérstaklega á háan hest. Þingfundum er hægt að haga þannig að fundum geti alltaf verið lokið klukkan fimm. Það er ákaflega einfalt að færa til fundartíma. Þingflokksfundir byrji t.d. ekki fyrr en eftir klukkan fimm. Það er hægt að fá nægilegan tíma til þess að hér geti staðið skikkanlegir þingfundir og þó verið lokið fyrir klukkan fimm.
    Ég vil sem sagt skora á frú forseta og hv. forsn. að ganga í málið og knýja ef með þarf Ríkisútvarpið til að fara að sjónvarpa héðan. Það er ekkert kostnaðarsamara fyrir Ríkissjónvarpið að sjónvarpa héðan en að sjónvarpa stillimynd þann tíma sem ég hef tilnefnt.