Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:53:54 (42)


[13:53]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður talaði um að það væri vandræðalegt ástand sem ríkti vegna sjónvarps- og útvarpssendinga frá Alþingi. Að vissu leyti get ég tekið undir með honum hvað áhrærir þann fjölda sem ekki nær því að horfa á sjónvarpsstöðina Sýn, hvað þá heldur að útvarpað sé héðan frá hinu háa Alþingi reglulega, en vandræðagangurinn er kannski fyrst og fremst sá hjá ríkisfjölmiðlunum að það skuli ekki heyrast útvarp almennilega alls staðar á landinu og ekki sjáist alls staðar sjónvarp. Það er ein stétt manna þar sem sjómannastéttin er, á sjötta þúsund manns, sem nýtur þess afar sjaldan og alls ekki þá á miðin er komið að ná sjónvarpssendingum. Vandræðagangurinn felst kannski fyrst og fremst í því að koma almennri sjónvarpssendingu til allra landsmanna og á miðin áður en farið er að sjónvarpa héðan frá Alþingi. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt á því herrans ári 1994 að af því að einhver tiltekinn hópur nái því ekki að sjá sjónvarp, þá sé eðlilegt að loka fyrir þessa útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar Sýnar héðan frá Alþingi. Það er stór hluti landsmanna sem nær því að horfa á sjónvarp og þeir eiga að fá að njóta. En auðvitað ber okkur að vinna að því að allir geti horft á sjónvarpssendingar og heyrt útvarpssendingar héðan af hinu háa Alþingi. En byrjum þá á því að gera öllum landsmönnum jafnhátt undir höfði þannig að sjónvarpssendingar og útvarpssendingar náist um allt land og sjónvarpssendingar sjáist út á miðin. Það tel ég að sé mest um vert áður en miklu fjármagni er eytt í að koma sjónvarpi og hljóðvarpi héðan frá Alþingi.