Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:20:30 (52)


[14:20]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að í þessu máli þarf að taka af skarið. Það er ekki einleikið að það skuli hafa tekið jafnlangan tíma og raun ber vitni að komast að niðurstöðu um eignarhald t.d. á jarðhita undir hundrað metra dýpi, en það er vegna þess hve viðkvæmt og vandasamt þetta mál er að þingmenn m.a. hafa skotið sér undan því að taka af skarið en nauðsynlegt er að það verði gert. Hvort það sé nauðsynlegt vegna þess að það tengist sérstaklega aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu vil ég ekki leggja mat á. Þetta mál hefur verið til umræðu frá því löngu áður en kom til tals að við gerðumst aðilar að því samstarfi. En ástæðan fyrir því að ég stóð hér upp, virðulegi forseti, er sú að hv. þm. sagði að óvissa um þetta og undanþágur okkar í þessu efni gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu rynnu út um næstu áramót. Ég tel að þær renni ekki út fyrr en 1. jan. 1996. Þannig að við höfum þetta þing og fyrri hluta á þinginu 1995 til að taka af skarið varðandi innlenda lagasetningu sem hefur verið á döfinni, m.a. vegna eignarhalds á jörðum, en að það sé ekki um næstu áramót sem sá tími rennur út.