Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:29:34 (55)

[14:29]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir þá forustu sem hann hefur haft varðandi það að flytja þessi mál hér inn í þingið um langt árabil. Satt að segja má það nokkuð merkilegt teljast að ekki skuli hafa tekist að ná umræðu um málið með skipulegum hætti sem yrði færð til niðurstöðu hér í þessari virðulegu stofnun. Það er alveg rétt sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan að það er ekki einleikið hvað þetta hefur tekið langan tíma. Það er líka rétt að mínu mati að orða það svo, eins og hann gerði, að þingmenn hafa skotið sér undan því að taka ákvörðun í þessu máli. Ástæðan er einfaldlega sú að um málið er eða var mjög djúpstæður ágreiningur sem í grófum dráttum var sagður vera annars vegar á milli þeirra sem vildu að þessi auðæfi og auðlindir væru í almannaeigu og hins vegar þeirra sem vildu að þessar auðlindir væru í svokallaðri einkaeigu landeigenda, viðkomandi landeigenda aðallega. Og það er dálítið sérkennilegt að hugsa um það að í raun og veru fékkst þessi deila aldrei almennilega gerð upp. Það var kergja í málinu og niðurstaðan varð sú að menn fengust ekki til að taka það til meðferðar hvorki hér í þessari stofnun né annars staðar að neinu marki að ég tel vera. En þeim mun meiri ástæða er til þess að þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir dugnaðinn sem hann hefur sýnt við að halda þessu máli til haga og það er kannski líka ástæða til að þakka hæstv. umhvrh. fyrir þau ummæli sem fram komu hjá honum áðan þar sem hann í raun og veru bauð upp á samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu um að leiða þetta mál til lykta.
    Það má segja að það sé athyglisverð nýjung í störfum þings þar sem starfar meirihlutastjórn að menn skuli ætla sér að taka á deilumálum með samningum við stjórnarandstöðu svona snemma vetrar, þó það gerist nú oft þegar líður á veturinn, þá er það engu að síður þakkarvert að hæstv. umhvrh. skuli hafa nefnt þennan möguleika því vissulega verð ég að játa að mér kom hann í hug á síðasta þingi. Hvort það væri hugsanlegur möguleiki að stjórn og stjórnarandstaða settust aðeins yfir þetta mál í hv. iðnn., sem er eðlilegast að fjalli um málið, til að kanna í fyrsta lagi hvort það er samkomulagsflötur og í öðru lagi, ef ekki er samkomulagsflötur um hvað ágreiningurinn er nákvæmlega. Þannig að menn fari ekki í grafgötur um það um hvað ágreiningurinn er í þessu þýðingarmikla máli.
    Í rauninni skildi ég ummæli hæstv. umhvrh. áðan þannig að í grófum dráttum væri hann sammála

þeim grundvallaratriðum sem fram koma í frv. alþýðubandalagsmanna, sem hv. 4. þm. Austurl. mælti fyrir og hér er á dagskrá. Þannig að ég tel að það megi út af fyrir sig ætla að um málið sé allgóð samstaða enda þótt það sé svo, og rétt er að halda því til haga, að um málið er ekki full samstaða heldur í stjórnarandstöðuflokkunum þar sem hefur orðið vart við fyrirvara við uppsetningu málsins og tillöguflutning þann sem í þeim báðum felast, t.d. í Framsfl.
    Þessi mál komu bæði til meðferðar í hv. iðnn. á síðasta þingi og þar voru málin fyrst tekin fyrir þann 20. okt. Þar lagði ég til, sem formaður nefndarinnar, að nefndin biði með að fjalla um málin uns hún hefði hitt ráðherra og rætt við hann um fyrirhuguð stjfrv. um svipuð efni. Þannig að við ákváðum strax í fyrravetur, þann 20. okt., að ræða við hæstv. iðnrh., sem þá hafði ekki fyrir löngu tekið við, Sighvat Björgvinsson, um þessi mál. Ég átti við hann nokkrar viðræður um þessi mál án þess að hann gæti út af fyrir sig tekið af skarið um þau og þau komu aftur til meðferðar þann 8. des., þar sem ákveðið var að taka málin til umræðu sérstaklega og var nefndaritara falið að taka saman umsagnir og senda nefndarmönnum. En staðreyndin er sú að það er geysilegt magn af gögnum sem liggur fyrir um þessi mál frá þinginu bæði frá því í fyrra og hittiðfyrra og svo langt aftur í tímann.
    Í þriðja lagi var svo málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 26. jan. 1994 og á fundinn kom Gunnar Viðar, lögfræðingur í iðnrn. Hann gerði grein fyrir frv. um sama efni sem unnið er að í ráðuneytinu og svaraði fyrirspurnum nefndarmanna. Þarna kom það fram, eða a.m.k. skildu nefndarmenn það svo, að málin væru eiginlega í þann veginn að fæðast. Þetta væri svo að segja tilbúið í iðnrn., væri kannski ekki búið að ganga í einstökum atriðum frá öllum hnútum gagnvart samstarfsflokki iðnrh., þ.e. Sjálfstfl. Það væri sem sagt verið að hnýta upp pólitíska hnúta á lokastigi málsins og þannig upplifðum við þetta í hv. iðnn.
    Síðan gerðust ýmsar sviptingar í pólitíkinni eins og gengur, reyndar aðeins meira en gengur og gerist í þessu stjórnarsamstarfi, eins og kunnugt er, þannig að málið var tekið fyrir aftur á fundi iðnn. þann 23. mars 1994 og þar greindi ég frá því, eftir að hafa átt viðræður við hæstv. iðnrh., að ég mundi þá innan skamms leggja fram tillögu í nefndinni um meðferð málsins. Það var gert á fundi nefndarinnar, það var fimmti fundur nefndarinnar þar sem um þetta var fjallað. Þann 13. apríl 1994 var málið enn til umræðu og þar segir: ,,Á fund nefndarinnar kom Gunnar Viðar frá iðnrn. Fram kom hjá Gunnari að frumvörp iðnrh. um svipuð efni hefðu verið send ríkisstjórninni fljótlega eftir áramót en ríkisstjórnin hefði enn ekki afgreitt málið frá sér.`` Það er sem sagt hinn 13. apríl 1994 sem hann segir þetta.
    Af hverju er ég að rekja þetta, hæstv. forseti? Það er vegna þess að ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Af hverju telur hann að málin hafi tafist og í hverju telur hann að ágreiningurinn hafi verið falinn í sambandi við þessi tvö frv.? Í þriðja lagi: Er það ásetningur hans, ásamt samstarfsflokknum, að leggja fram fyrir þingið frv. frá ríkisstjórninni um þau efni sem hér eru á dagskrá? Ég tel að það sé mjög brýnt að það verði gert, sérstaklega vegna þess, hæstv. forseti, að það hefur komið fram að það er annaðhvort um næstu eða þarnæstu áramót sem við þurfum að hafa afgreitt málin frá okkur vegna þess hvernig stendur á með EES-samninginn. Auðvitað er það alveg rétt að EES-málið er ekki fyrsti hvatinn að þessum frv., eins og allir þekkja, en það ýtir enn þá frekar á eftir þeim og þess vegna ber ég þessar fyrirspurnir fram við hæstv. forsrh.