Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:41:10 (59)


[14:41]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þessi mál hafa þráfaldlega verið flutt á þingi af hv. 4. þm. Austurl. Ég hef einstöku sinnum tekið þátt í þeirri umræðu og ætla ekki að endurtaka það sem ég er búinn að segja um málið. Að sumu leyti hafa aðstæður breyst þannig að ég sé ekki ástæðu til að hafa nákvæmlega sömu skoðun og ég hef áður haft.
    Í hverju er ágreiningurinn nákvæmlega fólginn, spurði hv. þm. Svavar Gestsson. Því hefur náttúrlega hæstv. forsrh. svarað skilmerkilega. Hann er fólginn í 67. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. eignarréttargreininni. Ef hún væri ekki afdráttarlaus eins og hún er í stjórnarskránni gæti vel verið að búið væri að afgreiða þetta mál. Í fylgiskjali sem prentað er með öðru frv. er vitnað til vinnu sem unnin var fyrir 15 árum. Frv. er reyndar byggt á meirihlutaáliti nefndar sem þáv. iðnrh. skipaði. Ég var í þeirri nefnd og skilaði séráliti og ég studdist við greinargerð sem prófessor Gaukur Jörundsson, núv. umboðsmaður Alþingis og einn helsti eignarréttarsérfræðingur þjóðarinnar, vann. Í greinargerð prófessors Gauks segir og vitna ég þá til þess sem prentað er sem fylgiskjal, með leyfi forseta:
    ,,Við setningu vatnalaga, nr. 15 frá 1923, var samkvæmt framansögðu tekið af skarið um að landeigendur einir ættu rétt til að hagnýta vatnsorku þeirra vatna sem um landareign þeirra runnu. Eru vatnsréttindi landeigenda þannig þáttur í eignarrétti þeirra sem verndar nýtur skv. 67. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Í samræmi við það hefur eignarnámi verið beitt samkvæmt vatnalögum eða sérstökum lögum og eignarnámsbætur greiddar þegar afla hefur þurft vatnsréttinda í einkaeign í þarfir virkjana. Verður að telja tvímælalaust að ekki yrðu samrýmd 67. gr. stjórnarskrárinnar lagaákvæði sem lýstu rétt til virkjunar vatna, ríkiseign, án endurgjalds til eigenda.`` Þetta er nákvæmlega það sem stendur í vegi fyrir þessu og hefur staðið í vegi fyrir þessari lagasetningu. Reyndar er kominn nýr þáttur inn í málið, þ.e. samningurinn um EES og það er eini hvatinn til að nauðsynlegt sé að setja lög í stíl við þetta. Eitt af því sem við þurfum að gjalda fyrir það að gerast aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er að við þurfum að finna framtíðarskipan þessara mála. Að því leyti er viðhorfið breytt frá því að við vorum að ræða þetta árið 1979.
    Út af fyrir sig er hægt að setja svona lög og gera þessar eignir upptækar enda komi fullt gjald. Ég geri ráð fyrir að það stæði í mönnum að láta ríkið leysa til sín öll vatnsréttindi og jarðhitaréttindi og komi fullt gjald fyrir. Í fljótu bragði sé ég ekki aðra leið en að við þurfum að breyta stjórnarskránni ef þetta þarf fram að ganga og afnema eða takmarka í þessu tilliti eignarréttarákvæðið því ekki stenst að setja lög sem stangast jafnberlega á við stjórnarskrána.
    Nú erum við að vísu á þessum síðustu og verstu tímum ýmsu vanir varðandi stjórnarskrána og rifja ég upp umræður sem hér urðu og deilur í þinginu um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem að mínu mati og margra fleiri stangaðist líka á við stjórnarskrá. Það eru engin rök í málinu að þessum frv. hafi ekki verið vísað frá af hálfu forseta á fyrri stigum. Ég tel eðlilegt að unnið sé í þessu máli. Mér er ljóst að það ástand sem áður var að lagasetning í þessa veru væri ekki brýn er ekki lengur fyrir hendi. Það er orðið brýnt að fá framtíðarskipan á þessi mál. Ég vil hins vegar bíða eftir því og tel að það sé skylda ríkisstjórnarinnar að hafa forgöngu um að finna þann farveg sem hægt er að leiða málið í. Ég er ekki að skorast undan að taka þátt í vinnu í iðnn. við þessi frv. Ég teldi heppilegra ef hægt væri að gera þetta í samkomulagi og með löglegum hætti, þ.e. að við þyrftum ekki að þverbrjóta stjórnarskrá með samþykki þessara frv. Menn fyndu einhverja leið til að takmarka þetta eignarréttarákvæði í stjórnarskránni eða að ríkið léti koma fullt gjald fyrir ef menn vilja vera nógu rausnarlegir.