Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:02:40 (64)


[15:02]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár eru ummæli hæstv. samgrh. nýverið við fjölmiðla, að því er varðar jarðgangagerð á Austurlandi. Á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 sl. sunnudagskvöld var haft viðtal við hæstv. samgrh. og inngangurinn að viðtalinu var þannig, með leyfi forseta, af hálfu fréttamanns:
    ,,Austfirðingar fá engin jarðgöng á næstu árum. Halldór Blöndal samgönguráðherra leggst gegn því að Austfjarðagöng komi í beinu framhaldi af Vestfjarðagöngum og segir frekari jarðgangagerð bíða næstu aldar.``
    Síðan kemur viðtalið við ráðherrann þar sem ráðherrann svarar spurningunni: Verða jarðgöng á Austurlandi inni á næstu fjögurra ára vegáætlun? Svar ráðherrans: ,,Ég á alls ekki von á því. Eins og ég hef oft haft orð á þá er það skoðun mín að brýnasta verkefnið á Norðausturlandinu sé að tengja saman Norðurland og Austurland og ég tel að það eigi að sitja fyrir. Frekari jarðgangagerð er nokkuð sem bíður næstu aldar, ef ég má segja sem svo.``
    Litlu síðar í viðtalinu segir ráðherrann: ,,Mér er raunar ekki kunnugt um að Austfirðingar hafi orðið á eitt sáttir um sínar áherslur fyrir austan í jarðgangamálum.``
    Hér er um að ræða stórmál og samkvæmt því sem hæstv. ráðherra hér lýsir þá er hans hugur sá að taka áætlanir sem verið hafa á langtímaáætlun, sem legið hefur hér fyrir Alþingi Íslendinga, áform um jarðgöng á Austurlandi í framhaldi af jarðgangagerð á Vestfjörðum, út af dagskrá og vísa því til næstu aldar.
    Hér er jafnframt verið að ganga inn í undirbúning og umræðu sem á sér nú stað um þessi efni á vegum sveitarstjórna og kjörinna fulltrúa þeirra á Austurlandi með þeim hætti að telja verður til fádæma að fulltrúi framkvæmdarvaldsins, hér hæstv. samgrh., skuli sjá ástæðu til þess að ganga inn í málið á þennan hátt. Auðvitað er honum jafnkunnugt um það sem okkur þingmönnum Austurlands að fram fer með eðlilegum hætti umræða á Austurlandi um það hvernig standa eigi að framkvæmdum og nýtingu þeirra miklu fjármuna sem Alþingi og framkvæmdarvaldið í rauninni hefur lýst yfir að ráð sé fyrir gert að varið verði til jarðgangagerðar á Austurlandi á þessari öld, ekki seinna en á árinu 1998, að ráðist verði í framkvæmdir og tíminn þangað til verði notaður til undirbúnings með eðlilegum hætti. Umræðan sem nú fer fram á Austurlandi er einmitt liður í því að vinna sig fram til ákvörðunar af hálfu heimamanna í samvinnu við þingmenn kjördæmisins, sem auðvitað verða að taka á þessu máli með framkvæmdarvaldinu og með Alþingi Íslendinga, sem á að ráða þessu máli til lykta.
    Vegáætlun verður til endurskoðunar á þessu þingi og það er auðvitað hlutverk Alþingis og í sambandi við umfjöllun um vegáætlun að taka stefnumarkandi ákvarðanir í þessu efni. Þar hljótum við þingmenn Austurlands --- ég tala þar a.m.k. fyrir mig --- að leggja á það alla áherslu að staðið verði við gefnar yfirlýsingar og fyrirheit sem leiddu til þess m.a. að Austfirðingar lögðust á sveif með Vestfirðingum á sínum tíma um framkvæmdaröð varðandi jarðgangagerð. Vestfjarðagöng eru nú langt komin, stór framkvæmd og þýðingarmikil. Og það gengur ekki að ætla að drepa þessu máli á dreif, eins og hæstv. samgrh. er að reyna, með því að vísa í aðrar framkvæmdir, almennar framkvæmdir í vegagerð, tengingu milli Norður- og Austurlands, sem auðvitað er sjálfsagt verkefni en þarf einnig sinnar athugunar við og sú athugun stendur yfir. Það er einnig ótímabært af hæstv. samgrh. að vera að lýsa einhverjum niðurstöðum í því máli eða telja að þau mál séu til lykta leidd á sama tíma og þau eru á athugunarstigi í nefnd sem vegamálastjóri hefur sett á laggirnar, að ég hélt með vilja samgrn.
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess og taldi það óhjákvæmilegt í framhaldi af orðum og yfirlýsingum hæstv. samgrh. að þessi mál væru rædd hér í þinginu til þess að reyna að bæta fyrir þá óvissu sem ráðherrann skapar með ummælum sínum og þau inngrip inn í eðlilega umræðu í aðdraganda ákvarðana sem nú fer fram.