Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:14:33 (66)


[15:14]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. 4. þm. Austurl., fyrir að hreyfa þessu máli. Ég vil taka undir með honum og mótmæla eindregið vinnubrögðum hæstv. samgrh. varðandi þetta mál og samráði hans við þingmenn og heimaaðila varðandi vegagerð yfirleitt. Það er náttúrlega alveg forkastanlegt á þeim tíma þegar verið er að móta tillögur í þessu máli heima fyrir og reyna að samræma sjónarmiðin og m.a. hefur verið boðaður fundur um það efni núna eftir viku þar sem er mikilvægur tímapunktur í þessu máli, að ráðherra skuli lýsa því yfir við fjölmiðla að þessar framkvæmdir séu blásnar af á þessari öld. Það er þingið sem á að fjalla um þetta mál og það á að endurskoða vegáætlun í vetur og það er hinn rétti vettvangur til þess að móta þessi mál.
    Þar að auki vil ég mótmæla þessari staðhæfingu vegna þess að hingað til hefur verið samstaða um það hér í hv. Alþingi hvað sem verður, að það sé nokkur samfella í jarðgangaframkvæmdum og framkvæmdir á Austurlandi komi á eftir Vestfjarðagöngum. Það er náttúrlega ekki við hæfi að hæstv. samgrh. segir þegar komið er að Austurlandi í jarðgangamálum: Það er auðvitað vitað að jarðgangagerð kemur niður á öðrum vegaframkvæmdum landinu. Það hefur alltaf gert það. Það gerði það, eins og hann segir, í hans kjördæmi og það gerir það á Vestfjörðum að sjálfsögðu.
    Ég stóð í þeirri meiningu að um þetta væri bærileg samstaða í hv. Alþingi og ég mótmæli þessum buslugangi í undirbúningi þessara mála.