Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:03:39 (91)


[12:03]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það er ljóst eftir síðustu ræðu hv. þm. Jóhannes Geirs að í hönd er farið kosningaþing. Hér kemur nýkjörinn formaður efh.- og viðskn. og lýsir í fögrum orðum hvað Framsfl. ætlar sér að gera ef hann kemst aftur til valda sem fólst í því í stuttu máli að skattalækkun var boðuð héðan úr ræðustól. ( JGS: Það er ekki rétt.)
    Mér þykir skondið að hlusta á slíka ræðu frá framsóknarmönnum sem börðust hér hatrammlega gegn tveggja þrepa virðisaukaskatti á síðasta þingi, notuðu stór orð og notuðu ljót orð um það kerfi sem þá var sett í gang, tveggja þrepa kerfi. Þeir hétu því þá að þeir mundu snúa aftur frá þessari vitleysu sem þingið var að samþykkja. Svo koma þeir hér upp og ræða um lækkun skatta þegar þeir á sama tíma eru í rauninni með stefnuna að hækka skatta. Þeir vilja hækka matarverð í landinu, einhverja bestu kjarabót sem hefur komið fram í langan tíma fyrir almenning í landinu þannig að ég vísa slíkum málflutningi algjörlega frá. ( GÁ: Þetta er bull.) Hv. þm. Framsfl. geta beðið hér um orðið og þeir geta líka farið fram og flett upp í þingtíðindum í eigin málflutningi frá síðasta þingi og rifjað upp hvað þeir sögðu um tveggja þrepa virðisaukaskatt og hvers lags meginfirru þingið væri að gera þá. (Gripið fram í.) Þeir boðuðu það þá að þeir mundu koma því aftur á, þeir mundu snúa til baka. Þeir vilja sem sagt auknar álögur á fólkið í landinu. ( GÁ: Rangt.) Svo koma menn hér upp og tala um að það ætti að lækka skatta og slíkt. Það vilja auðvitað allir lækka skatta þegar það er hægt. ( GÁ: Þetta er lýðskrum.)
    ( Forseti (KE) : Hljóð í salnum.)
    Hv. þm. fór hér yfir skattsvikamál yfirleitt og talaði um þá 11 milljarða sem hafa verið nefndir að ríkissjóður verði af. Þetta er auðvitað gefin tala, þetta er ágiskun, það eru engin vísindaleg rök þarna að baki. En ég hef oft talað fyrir því hér að það væri nauðsynlegt að flokka þessi skattsvik og þessar upphæðir niður eftir atvinnugreinum og fara þá að vinna í því í hverri atvinnugrein hvernig má taka á þeim skattsvikurum sem þar finnast. Ég hef gjarnan nefnt landbúnaðinn, hinar ýmsu greinar hans. Ég er ansi hræddur um að þar leynist víða möguleikar til skattsvika. Ég hef ekki orðið var við að menn tækju undir það. Menn tala helst um skattsvikara í stétt verslunar. Það er vissulega rétt. Það eru ábyggilega til skattsvikarar til þar eins og í öllum öðrum stéttum en það á auðvitað að taka þetta dæmi og kryfja það, brjóta það upp og vinna kerfisbundið að því að finna þá skattsvikarana en ekki horfa fram hjá einum en

ráðast á annan. (Gripið fram í.)
    Ég held það og hef oft sagt það að skattpíningin sem er til staðar í dag og bitnar mjög hart á stórum hluta þjóðarinnar er helsti hvatinn til þess að við höfum svona stórt hlutfall skattsvikara. Þar fannst mér hv. þm. taka í sama streng. Skattálögurnar eru komnar í það horf að til þess að fólk geti skrimt þá er því hreinlega ýtt út í þetta. Því er ýtt út í það. Það er þar af leiðandi okkur sjálfum að kenna sem samþykkjum þau skattalög sem eru í gildi. Það er okkur fyrst og fremst að kenna að fólki er ýtt út í að svíkja undan skatti.
    Hins vegar er aldrei hægt að setja slíkt kerfi á að það verði ekki til einhverjir sem munu reyna að finna leiðir fram hjá því. Það er alls staðar í heiminum og mun verða hér alltaf. En ég get tekið undir þann meginþráð sem er hér í tillögum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það eigi að herða viðurlög en ég er ekki endilega tilbúinn að segja að það eigi að gera það með þeim hætti sem flm. leggur hér til. Það má vel vera að það sé rétt en ég er svo heppinn að sitja í hv. efh.- og viðskn. og fæ því tækifæri til þess að fjalla um málin þar. En ég er sammála því að það á að herða þau og það á að taka harðar á þeim vegna þess að hert viðurlög fæla frá. Ég er ekki í nokkrum vafa um það og menn hafa fyrir sér dæmi um slíkt. Þannig að ég held að stefnan sem birtist í þessum málum sem verið er að mæla fyrir sé rétt. Hvort aðferðin er nákvæmlega sú rétta kemur í ljós í vinnu nefndarinnar.
    Ég vil tala undir athugasemdir hv. þm. Björns Bjarnasonar að ég tel að 9. mál eigi heima í allshn. en ekki efh.- og viðskn. og tel að við nánari skoðun muni flm. komast að raun um að það er rétt. En ég ætla ekki efnislega að fara í þessi mál, ég ætla að nota mér þau forréttindi að sitja í þeirri nefnd, hvort sem það er allshn. eða efh.- og viðskn., sem fjallar um þessi mál.
    Ég vil þó aðeins koma inn á 11. mál um virðisaukaskatt þar sem sagt er í 1. gr., og geri reyndar athugasemdir við það að það eru engar skýringar með greinunum sem er nú venjan, að sé innskattur að jafnaði hærri en útskattur er skattstjóra heimilt að krefja viðkomandi um tryggingu fyrir endurgreiddum virðisaukaskatti o.s.frv.
    Mér finnst þetta svolítið bera keim af því að þeir sem hafa meiri innskatt en útskatt séu nánast stimplaðir sem svikarar. Það er þannig í dag í virðisaukaskattsdeild skattstofunnar að þá eru það yfirleitt þeir aðilar sem sýna inneign sem eru teknir til rannsóknar. Þetta er bara ekki rétt vegna þess að svikararnir felast engu að síður í þeim sem skila litlum útskatti en hefðu hugsanlega átt að skila miklu meira. Þar fyrir utan koma auðvitað löng tímabil hjá mönnum í viðskiptum þar sem innskattur getur verið hærri en útskattur og það er í hæsta máta óeðlilegt að fara að krefja menn þá um tryggingu vegna slíks. Það eru skýringar fyrir slíku og virðisaukaskattsdeildin getur kallað eftir bókhaldsgögnum hvenær sem hún vill. En að þurfa að leggja fram einhverja tryggingu gegn slíku tel ég ekki rétt og menn ættu að forðast það.
    Það sem ég hefði gjarnan viljað sjá hér er það, talandi um virðisaukaskatt, að aðilar sem gera skil geri skil eftir að greiðsla hefur farið fram. Það er mjög mikið um lánsviðskipti í landinu. Menn eru að selja vörur með alls konar hætti --- þriggja mánaða greiðslufresti upp í sex mánuði eða hvað sem það er --- og þá er auðvitað óeðlilegt að söluaðilinn skuli vera að greiða virðisaukaskattinn fyrir þriðja aðila. Það er eðlilegt að hann sé greiddur inn á þeim tíma sem greiðsla berst fyrirtækinu en ekki að söluaðilinn skuli þurfa að greiða hann til ríkissjóðs. Þetta er hlutur sem ég tel að menn eigi að taka á.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðallega koma hér upp til þess að lýsa stuðningi við þá meginstefnu sem felst í þessum frumvörpum. Ég ítreka það hins vegar að ég tel að mjög líklega þurfi að breyta þeim, hugsanlega að þau verði mildari. Mér finnst refsigleðin kannski fullmikil en það er annað mál, það kemur fram í nefndinni í umfjöllun hennar, en mér fannst málið ekki fá góða byrjun eftir ræðu hv. nýkjörins formanns efh.- og viðskn.