Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:14:40 (93)


[12:14]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekkert mótmæla því að ræða hv. þm. var málefnaleg. Ég þarf ekkert endilega að vera sammála henni. Hún getur verið málefnaleg engu að síður. En ég er hræddur um að hann muni bara ekkert allt of vel frá umræðunum á síðasta þingi eða þeim útreikningum sem hv. framsóknarmenn höfðu þá gert. Það getur vel verið að það sé rétt að þeir ætluðu sér að ná sama árangri fyrir ríkið en það fer ekki saman við þegnana í þessu tilfelli. Það er langt frá því. Ég er hræddur um að menn verði að koma með þá útreikninga vegna þess að þeir hafa ekki sýnt þá hér fyrr. Ég man ekki nákvæmlega hver prósentan var sem þeir voru að tala um en það er eins og mig minni að hún hafi verið 22% eða eitthvað slíkt. Ég vil gjarnan biðja menn að sýna okkur fram á það hvernig matarverð í landinu með 22% flötum virðisaukaskatti yfir allt verður það sama og það er í dag með 14% skatti. Ég vildi gjarnan biðja menn að koma hér upp með útreiknuð dæmi og sýna okkur fram á það hvernig það er því það tókst þeim ekki sl. vor. En það er athyglisvert að þeir ítreka það hér og nú að þeirra stefna er óbreytt. Þeir ætla að hverfa aftur í eitt þrep. Þeir ætla að hækka matarverð í landinu og það er góður boðskapur frá Framsfl. á kosningaþingi --- við ætlum að hækka matarverð í landinu, segja framsóknarmenn í dag. ( Gripið fram í: Hvaða bull er þetta?) Til hamingju með það, framsóknarmenn. (Gripið fram í.) Ég minnist þess líka að menn sáu hér skrattann í hverju horni að skattsvikin mundu stóraukast við að fara í tvö þrep. Geta menn fært sönnur fyrir því að slíkt hafi skeð? Ég held þvert á móti að það sé ekki hægt. Ef töframenn Framsfl. geta gert það þá óskum við eftir því að þeir geri það.