Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:19:34 (96)



[12:19]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson er enn þingmaður Sjálfstfl., þess flokks sem lofaði fyrir síðustu kosningar þjóðinni að lækka skatthlutfallið í tekjuskattinum úr 39,79% niður í 35% eða lækka skattbyrði á einstaklinga um 9.150 millj. kr. Hverjar eru efndirnar á þessum loforðum Sjálfstfl.? Þær eru þær að skatthlutfall einstaklinganna hefur verið hækkað úr 39,79% í 42%. ( Gripið fram í: Með því að lækka það?) Þið lofuðuð að lækka það, hv. þm. ( IBA: Ætlar Framsfl. að lækka það?) Framsfl. kemur auðvitað fram með sína stefnu í þessu málum. En það sem upp úr stendur er að Sjálfstfl. sveik það sem hann lofaði. Í stað þess að lækka um 9.150 millj. hefur Sjálfstfl. staðið fyrir 12 milljarða kr. skattahækkun, beinni skattahækkun á fólkið í landinu og þar ofan á bætast öll þjónustugjöldin sem m.a. fyrrv. hæstv.

félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir stóð að í þessari ríkisstjórn --- á öryrkjana, á sjúklingana, á gamla fólkið í landinu. Þessi ríkisstjórn hefur líka lækkað barnabæturnar. Hún hefur lækkað persónuafsláttinn. Hún hefur lækkað vaxtabæturnar. Stefna Framsfl. sem birtist hér í þessum þingsal fyrir síðustu jól var hækkun á persónuafslættinum, hækkun á barnabótunum, hækkun á vaxtabótunum, ein skattprósenta í virðisaukaskattinum. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar var sú að þetta væru meiri kjarabætur fyrir fólkið í landinu heldur en sú leið sem ríkisstjórnin valdi með hluta af stjórnarandstöðunni.