Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:41:15 (104)


[12:41]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er aldrei stórmannlegt að snúa út úr ræðum manna. Það er aldrei stórmannlegt. Það gerðist hér hjá hv. þm. Ég sagði aldrei að hinar miklu kerfisbreytingar væru orsök skattsvikanna. Ég sagði að bæði sá ráðherra sem beitti sér fyrir þeim og allur þingheimur harmaði að það skyldi ekki rætast sem boðað var að nýtt virðisaukakerfi og staðgreiðsla skatta skiluðu því að skattsvik heyrðu sögunni til. Það voru mín orð. Hins vegar hef ég rakið það hér að ég tel ástæðu fyrir vilja almennings til að taka þátt í skattsvikum vera hvernig núverandi ríkisstjórn hefur aukið álögur á almenning á öllum sviðum, bæði með hækkuðum sköttum, þjónustugjöldum. Hinn almenni þegn sem á enga möguleika, hver króna er gefin upp á hann, hann hefur ekki haft svigrúm til að sjá fjölskyldu sinni farborða í þeim þrengingum sem röng skattastefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur valdið.