Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:57:23 (108)


[12:57]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég gat um það í mínu máli áðan að gripið hefði verið til aðgerða af hálfu þessarar ríkisstjórnar og þeirrar ríkisstjórnar sem sat áður. Ég minnist þess t.d. varðandi þá þáltill., sem ég hef verið að rifja upp um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum, þar sem m.a. eru tvö atriði sem hefur ekki verið nægjanlega framfylgt, að ég hef sent bæði núv. og fyrrv. fjmrh. þessa tillögu þar sem ég óskaði eftir því að tekið yrði á þessum ákvæðum og framfylgt þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti í þeim efnum. Ýmist af þessu hefur komist til skila, alls ekki allt saman og það hefur verið árangur í skattaaðgerðum bæði í tíð þessarar og fyrri ríkisstjórnar. Þessi mál eru í höndum fjmrh. eins og hv. þm. veit og það er náttúrlega mest undir honum komið hvaða áherslur eru þar lagðar, á hverju er tekið í skattsvikamálum hverju sinni.