Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:58:41 (109)


[12:58]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. svarið. Ég tek undir það að það byggist auðvitað mjög mikið á hæstv. fjmrh. hverju sinni hvernig þeir vilja meðhöndla þessi mál. Auðvitað er miður að þessi tvö atriði í ályktun Alþingis um hvernig eigi að taka á skattsvikum skuli ekki hafa komist í framkvæmd. Ég skil ekki hv. þm. öðruvísi en svo að tveir síðustu hæstv. fjmrh. hafi í raun og veru staðið gegn því að þessi tvö atriði, sem Alþingi hefur ályktað um, skuli hafa náð fram að ganga. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef staðreyndin er sú að einstakir ráðherrar í ríkisstjórn geti í krafti síns embættis staðið gegn því að ályktanir Alþingis komist í framkvæmd.