Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:01:41 (111)


[13:01]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að auðvitað á ekki að taka á skattsvikurum með neinum silkihönskum. Það þurfa að vera refsingar og aðgerðir en fyrst og fremst þarf að skoða þetta mál í heild sinni og finna upp nýjar leiðir í skattamálum.
    Hér ræðir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir málefni láglaunafólksins af tilfinningu sem kemur mér ekki á óvart. En ég ætla að spyrja hv. þm. um verstu aðgerð sem ég tel að ríkisstjórn hennar og hún sjálf hafi staðið að á sínu tímabili.
    Skattleysismörk voru komin upp 63 þús. kr. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lækkaði skattleysismörk niður í 57 þús. kr. sem er flatur hækkandi tekjuskattur á láglaunafólk. Nú sagði í umræðu undir stefnuræðu forsrh., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að skattleysismörkin þyrftu að vera 71 þús. kr. Hér stóð stjórnarandstaðan eins og veggur og barðist gegn þessari aðgerð og taldi hana óhæfu en Sjálfstfl. og Alþfl. stóðu eins og veggur og lækkuðu skattleysismörkin niður í 57 þús. kr. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Voru átök um þetta mál í ríkisstjórn? Og hver var afstaða þingmannsins? Hvers vegna var þá ekki hurðum skellt og hótað afsögn? Því að þessi aðgerð hefur átt stóran þátt í því hvernig alþýðuheimilin hafa verið að fara í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.