Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:04:00 (112)


[13:04]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að minna á í þessu sambandi að við gerð síðustu kjarasamninga kom það mjög upp á borðið að hækka skattfrelsismörkin. Ríkisstjórnin lagði fram að mig minnir 3,5 milljarða kr. þar sem ýmsir ráðherrar í ríkisstjórninni lögðu á það áherslu að frekar yrði þetta fjármagn notað til þess að hækka skattfrelsismörkin heldur en koma á tveggja þrepa skatti með lækkun matvæla. Ég spyr mig hvort það hefði ekki verið eðlilegri leið þegar við áttum hér til 3,5 milljarða að nota þá til þess að hækka skattfrelsismörkin og ég spyr: Hvað er til í því að á 100 vinnustöðum sem ég hef farið á í sumar hefur fólk á vinnustað eftir vinnustað úti á landi haldið því fram að þessi matarskattslækkun hafi ekki skilað sér nema á fyrstu vikunum, þetta sé allt komið í sama farið aftur? Það er ástæða til að skoða það hvort þessi kjarabót, sem fólk átti að fá í stað almennrar launahækkunar, hafi ekki skilað sér nema á fyrstu vikunum. Það hefur því vissulega verið horft til þess, hv. þm., af ríkisstjórninni og einstaka ráðherrum að hækka frekar skattfrelsismörkin en það var vilji aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega ASÍ, að fara frekar hina leiðina. Þetta hefur því vissulega verið uppi á borðinu í erfiðri stöðu sem ríkisfjármálin hafa verið í og það kostar vissulega mikið að hækka skattfrelsismörkin. Ef við ætlum að fara með skattfrelsismörkin úr 57 í 75--80 þús., þá erum við að tala um 10--12 milljarða. Við erum að tala um 10--12 milljarða. Þess vegna hef ég nefnt að það sé nauðsynlegt að taka upp fjármagnstekjuskattinn, dreifa byrðunum með öðrum hætti en verið hefur.
    Og varðandi það sem þingmaðurinn nefndi þegar þetta var lækkað á einhverjum tíma sem hann nefndi ákveðnar tölur um, þá stóð ákvörðun um það að lækka verulega barnabætur eða fara þessa leið. Það varð niðurstaðan að fara þessa leið, en ég minni á að þetta hefur vissulega verið uppi á borði ríkisstjórnarinnar og var hægt að eyða 3,5 milljörðum í að hækka skattfrelsismörkin.