Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:14:23 (115)


[13:14]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu vegna þess að þegar ég gekk í salinn, þá var þeirri spurningu beint til mín af hálfu Framsfl. hvort verið gæti að sá ráðherra sem hér stæði hefði verið að beita sér gegn skattsvikum innan ríkisstjórnarinnar. Svo er alls ekki. Ég er auðvitað eins og fyrrv. . . .  ( Gripið fram í: Þú varst helst grunaður.) Má vel vera að ég hafi skapað mér þann orðstír hér í þessum sölum að ég væri þá helstur manna sem lægi undir grun um skattsvik en því miður eru laun mín þess eðlis og koma úr þannig sjóðum að það er alls ekki svo eða sem betur fer.
    Hins vegar er það svo að á meðan ég var í flokki með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þá vorum við mjög samstiga í því einmitt að beita okkur fyrir aðgerðum til þess að uppræta skattsvik. Að vísu er það svo, hv. þm. Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, að hún hefði e.t.v. mátt fá betri stuðning frá fylgismönnum annarra flokka. Ég hef að vísu ekki séð áður ýmsar þær tillögur sem hér hafa komið fram hjá hv. þm., t.d. um skattadómstól, en ég hygg að þær séu allrar íhugunar virði. Hins vegar er það ekki svo að þessi ríkisstjórn hafi ekkert gert til þess að uppræta skattsvik eins og má stundum heyra á máli hv. þm. Ég bendi t.d. á það að síðan 1993 hafa átt sér stað breytingar hjá skattrannsóknarstjóra, þar sem þeim starfsmönnum sem vinna að rannsókn skattsvika hefur fjölgað úr fjórum í 17. Það hefur verið sett á laggir sérstök skrifstofa til þess að sinna sérstaklega því sem kallað er svört atvinnustarfsemi og ég held að allir verði að taka undir að þarna er mikil bót á ferðinni. (Gripið fram í.) Ég bendi líka á það, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að það hafa verið sett lög til þess einmitt að gera skattrannsóknarstjóra auðveldara fyrir að rannsaka bókhald fyrirtækja og komast þannig fyrir rót vandans. Það held ég að menn hljóti að taka undir að er til hins betra og segi það að öðru leyti að þessi umhvrh. mun auðvitað skoða þau frumvörp hv. þm. óstofnaðs flokks jafnaðarmanna með miklum velvilja.