Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:27:19 (117)


[13:27]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Þessi ágæta tillaga sem hér er til umræðu var flutt á síðasta þingi og vísað til samgn. sem tókst reyndar ekki að afgreiða hana fyrir þinglok. Nú er tillagan flutt í upphafi þings og fær vonandi afgreiðslu á þessu þingi.
    Það er margt sem mælir með því að nota steinsteypu frekar en malbik til slitlagsgerðar á vegum þar sem álagsumferð er mikil. Þar má nefna fleiri störf hérlendis. Steinsteypan er alíslenskt efni unnið af starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar, efnisvinnslu og steypustöðva sem þýðir aftur minni erlendan kostnað og meiri innlendan heldur en með notkun annarra slitlagsefna. Mengun vegna slitryks er tvímælalaust minni af steyptum vegum en malbikuðum. Steyptir vegir þola betur nagladekk þannig að hjólför verða grynnri og slysahætta því minni. Á þetta er allt drepið í greinargerð með tillögunni. Ekki síst er svo ending steypts slitlags margföld á við hið malbikaða og viðhaldskostnaður því miklu minni og það vegur fljótlega upp þann verðmun sem oftast er á þessum slitlagstegundum. Það er því ekkert vafamál að steinsteypan er hagstæðasta slitlagsefnið þar sem umferð er mikil og áraun vegaryfirborðsins.
    Löng og góð reynsla af steinsteyptum slitlögum sannar þetta og þar má minna á Reykjanesbrautina, en eldri hluti hennar er 31 árs gamall á þessu ári, svo og Vesturlandsveginn upp í Kollafjörð sem er orðinn 22 ára. Gæði steinsteypunnar hafa reyndar aukist mjög síðan þessir vegir voru steyptir og tæknileg útlagning steypunnar verið bætt mjög. Steinsteypan hefur einnig sannað ágæti sitt í gatnagerð í ýmsum sveitarfélögum landsins, ekki síst á Akranesi, þar sem byrjað var að leggja steypt slitlag á helstu umferðargötur bæjarins árið 1960 og hefur stór hluti gatnakerfisins verið lagður steyptu slitlagi æ síðan. Reynslan af þessu slitlagi hefur verið framúrskarandi góð og má segja að það hafi verið viðhaldsfrítt öll þessi ár.
    Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur á undanförnum árum staðið að ýmsum tilraunum með nýja tækni og aukin steypugæði við notkun steinsteypu í gatna- og vegaslitlög. Það hefur þó staðið þessum tilraunum nokkuð fyrir þrifum að ekki er búnaður til í landinu til niðurlagningar steinsteypu í vegi. Því hefur oft verið leitað til Íslenskra Aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli en það fyrirtæki hefur slíkan útbúnað og hefur reyndar framkvæmt stór verk á þessu sviði á Keflavíkurflugvelli. Einnig hefur skort tækifæri í vegagerð hérlendis þar sem steinsteypa hentar sem slitlagsefni, þ.e. þar sem er mikil umferð og áraun vegaryfirborðsins. Nú bendir hins vegar margt til að slík verkefni séu fram undan. Hæstv. forsrh. hefur kynnt stórhuga hugmyndir um átak í samgöngumálum, m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðin er mest en einmitt við þær aðstæður er steinsteypan hagstæðust til slitlagsgerðar. Þó fyrstu viðbrögð við hugmyndum hæstv. forsrh. séu misjöfn er ekkert vafamál að hjá þessum framkvæmdum verður ekki komist eins og ástandið er orðið í umferðinni að og frá höfuðborginni.
    Sementsverksmiðjan komst að samkomulagi við Vegagerð ríkisins um að steypa 200 metra tilraunakafla á stórumferðaræð, þ.e. tengingu milli Suður- og Vesturlandsvegar og var verkið framkvæmt sl. fimmtudag. Meiningin er að bera saman endingu slitlagsins á þessum kafla vegarins og öðrum sem lagður er malbiki. Ég er ekki í vafa um að sá samanburður verður steypunni í hag. Annars virðist vera ótrúleg tortryggni og tregða ríkjandi í garð steinsteypunnar hjá yfirstjórn vegamála. Má þar nefna t.d. fyrirhugað slitlag á gólf Vestfjarðaganga en verktaki bauðst til að steypa gólfið á svipuðu verði eða jafnvel lægra en það kostaði að malbika það. Nú eru liðnir nokkrir mánuðir síðan tilboð voru opnuð en enn hefur ekki fengist svar við því hvort gólfið verður steypt eða malbikað. Virðist þó liggja í augum uppi að steypan er hagstæðari til lengri tíma litið.
    Kreppa undanfarinna ára hefur aukið mjög skilning okkar Íslendinga á því að taka íslenskar vörur og íslenska þjónustu fram yfir erlenda og er það vel. Þessi viðhorfsbreyting er sérlega ánægjuleg og má víða sjá þess merki að innlend framleiðsla og þjónusta er í sókn. Erfiðast er við þetta að eiga þegar keppt er við erlenda vöru og þjónustu sem er niðurgreidd eða ríkisstyrkt, t.d. skipasmíðar eða skipaviðgerðir eins og framsögumaður nefndi í sinni ræðu. Þetta hefur einnig átt við ýmsar byggingarvörur sem hafa flætt inn í landið og drepið niður sams konar iðnað íslenskan. Þarna er við ramman reip að draga því að til viðbótar við styrki og niðurgreiðslur bætast svo hagsmunir innflytjenda og ýmissa annarra auk þess sem oftast virðist meira fé til að auglýsa erlendar vörur en íslenskar. Það verður að gera þá kröfu að hið opinbera gangi á undan með kaupum á innlendri vöru og þjónustu.
    Ég hef hér að framan nefnt nokkur rök fyrir notkun steinsteypu frekar en annarra efna til slitlagsgerðar og ég vil bæta því að þetta er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir Sementsverksmiðjuna sem er að fullu eigu íslenska ríkisins. Þessi verksmiðja, sem er sú minnsta á Norðurlöndum, hefur orðið að mæta gríðarlegum samdrætti í sölu á undanförnum árum, bæði vegna þess mikla samdráttar sem orðið hefur í byggingum og vegna aukins innflutnings á tilbúnum byggingarhlutum og efnum sem koma í stað múrhúðunar. Sala verksmiðjunnar komst í 160 þús. tonn á ári þegar virkjunarframkvæmdir voru sem mestar en var að jafnaði 115--130 þús. tonn á ári á síðasta áratug. Í ár er einungis gert ráð fyrir að selja um 83 þús. tonn. Starfsmönnum hefur fækkað gífurlega og eru þeir nú í kringum 90 en voru tvöfalt fleiri þegar umsvifin voru sem mest. Sú fækkun skýrist reyndar að hluta af breyttri tækni og hagræðingu en einnig að stórum hluta af þessum mikla sölusamdrætti.
    Það er auðvitað mjög mikilvægt að þetta fyrirtæki haldi velli. Afkastageta verksmiðjunnar hefur nýst mjög illa á undanförnum árum og hún hefur verið stöðvuð allt að fjóra mánuði á ári. Reksturinn hefur að sama skapi verið mjög erfiður og mikið tap á undanförnum árum þrátt fyrir að starfsfólk verksmiðjunnar hafi gert stórátak í margs konar hagræðingu.
    Helstu möguleikar fyrirtækisins á aukinni framleiðslu og sölu á næstunni liggja tvímælalaust í vegagerð.
    Hæstv. forseti. Aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar fylgja margir kostir eins og ég hef nefnt hér að framan, m.a. minni mengun, minni slysahætta, minni viðhaldskostnaður og bættur hagur Sementsverksmiðjunnar sem er í eigu ríkisins og síðast en ekki síst fleiri störf fyrir Íslendinga. Þess vegna er hér á ferðinni góð tillaga sem vonandi fær jákvæða afgreiðslu á þessu þingi.