Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:38:05 (119)


[13:38]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins í örstuttu máli lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu. Frá sjónarmiði umhverfisins þá er alveg ljóst að hún hefur margháttaðan ávinning í för með sér. Þannig liggur fyrir að ef slitlag er gert úr steinsteypu þá leiðir það til minni notkunar á eldsneyti úr jarðefnum og það eitt og sér felur í sér ávinning fyrir umhverfið. Það er líka alveg ljóst að það er minni efnamengun vegna slitryks og í þriðja lagi liggur það líka fyrir að þau efni sem eru í steinsteypunni eru ekki jafnmengandi og ýmis þau olíuefni sem er að finna í asfaltinu. Bæði þegar asfaltið er lagt og eins þegar það er síðan fjarlægt. Þessir þrír kostir mæla því sterklega með samþykkt þessarar tillögu. Síðan er það auðvitað líka mjög mikilvægt að með því að flytja sig úr asfalti yfir í steinsteypu þá eru menn að flytja sig úr erlendum efnum yfir í innlend efni. Þetta mun auka innlenda framleiðslu, þetta mun skapa störf hér á Íslandi og síðast en ekki síst, eins og hefur komið fram í máli hv. flm. og annarra þeirra sem hér hafa tekið til máls um efni tillögunnar, þá skýtur þetta styrkari stoðum undir eitt af merkustu fyrirtækjum landsins, þ.e. Sementsverksmiðjuna á Akranesi, sem hefur glímt við nokkra erfiðleika á því samdráttarskeiði sem við höfum att kappi við á síðustu árum. Og það líka skiptir máli. Þess vegna segi ég það sem umhvrh. og þingmaður að ég tel að það mæli flest með því að þessi tillaga verði samþykkt og að stjórnvöld í framhaldi af því beiti sér fyrir því að flytja vegagerð yfir í steinsteypu.