Átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:49:35 (125)


[13:49]
     Umhverfisráðherra ( Össur Skarphéðinsson):
    Virðulegi forseti. Ég get staðfest að það er stefna bæði iðnrn. og umhvrn. að flytja línulagnir yfir í jarðstrengi eftir því sem tækni og landgæði leyfa. Þetta er ekki síst vegna þess að þegar línur eru lagðar með gamla laginu hafa þær tilhneigingu til þess að brotna í ofviðrum og það veldur því að þeir sem

njóta þess rafmagns sem um þær fer sitja í myrkri og kulda. Það sjónarmið er jákvætt út af fyrir sig að vilja koma í veg fyrir það. Ég fylgi þessu máli hins vegar fyrst og fremst vegna annarra atriða, þ.e. ég tel að umhverfissjónarmið valdi því að það sé æskilegt að reyna að leggja línur í jörð eins og hægt er.
    Mér komu nokkuð á óvart þær upplýsingar sem hv. flm. Gísli Einarsson greindi frá í sínu máli, ég rengi þær alls ekki, að tæknin hafi nú gert okkur kleift að leggja slíkar línur jafnvel með ódýrari hætti en þessar hefðbundnu línur. Ég skildi mál hv. þm. svo. Því fagna ég. Hitt veit ég að tækniþróunin hefur á síðustu árum verið þannig að kostnaðurinn við jarðlagnir hefur minnkað verulega og ég vænti þess að á næstu árum muni sú þróun halda áfram.
    Nú er það svo að það togast mismunandi hagsmunir á um nýtingu landsins okkar. Menn vilja sumir eðlilega virkja og leggja línur, aðrir vilja nota svæði undir ferðaþjónustu og það er alveg ljóst að sú grein sem á Íslandi er í hvað mestum vexti, þ.e. ferðaþjónustan, byggir á þessari sérstöku náttúru sem við höfum. Útlendingar koma til Íslands til þess að sjá ósnortin víðerni, til þess að sjá náttúru sem þeir geta horft yfir án þess að augum mæti nokkur mannanna verk, byggingar eða línur. Erlendis hafa yfirvöld sums staðar farið þá leið beinlínis að fyrirskipa að það megi ekki leggja línur einmitt vegna þess sem menn kalla sjónmengun. Ég hegg eftir því að í greinargerð hv. flm. og reyndar í framsögu hans líka þá lagði hann minna upp úr því en ýmsu öðru sem hann sá jákvætt við þessa tillögu. Ég legg hins vegar mest upp úr því.
    Það er ákveðin vinna farin í gang, vonum seinna, sem tengist skipulagningu miðhálendisins. Þar munu menn m.a. véla um það hvar eigi að leyfa að leggja línur og hvar ekki. Sums staðar er hægt að höggva á deilur sem hafa komið upp og kunna að koma upp varðandi línulagnir einmitt með því að fara þá leið sem er lögð til í þessari tillögu. Ég fagna því og reyndar vænti ég þess að í þeirri vinnu sem tengist skipulagningu miðhálendisins þá muni koma fram beinar óskir um það að á sumum stöðum verði ekki lagðar þessar hefðbundnu línur.
    Ég segi, virðulegi forseti, að frá sjónarhóli umhverfisverndar tel ég þetta mjög jákvætt mál og ég tel að í því felist ákveðin stefnumörkun, ef samþykkt verði, sem ég fagna.