Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 13:48:56 (133)

[13:48]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að við í stjórnarandstöðunni biðjum um umræðu um stöðu og störf ríkisstjórnarinnar er vaxandi vantrú á að ríkisstjórnin ráði við ýmis mikilvæg verkefni sem eru fram undan. Við viljum beina ýmsum spurningum til ríkisstjórnarinnar, gagnrýna hana en við teljum jafnframt að mikilvægt sé fyrir ríkisstjórnina sjálfa að hún fái tækifæri til að útskýra ýmis mál betur sem hafa verið í umræðunni að undanförnu. Þótt við í stjórnarandstöðu séum andvíg núv. ríkisstjórn þá teljum við að á hverjum tíma sé það mikilvægt að mál séu sem mest á hreinu. Að sjálfsögðu þarf jafnframt að gæta sanngirni í garð ríkisstjórnar á hverjum tíma og mikilvægt að hún geti komið sínum útskýringum að.
    Ástæður þess að við biðjum um þessa umræðu eru margar. Það er öllum kunnugt að einn af ráðherrum í ríkisstjórn sagði af sér ráðherradómi á sl. vori sem eru að sjálfsögðu mikil tíðindi þegar ráðherra sem setið hefur í ríkisstjórn í sjö ár gefst upp á stjórnarsamstarfinu og velur þann kost að fara frá ráðuneyti sínu og yfirgefa ríkisstjórnina. Þetta bendir til þess að margt af þeirri gagnrýni sem við í stjórnarandstöðunni höfum haft í frammi eigi við rök að styðjast því að fyrrv. félmrh. hefur í reynd tekið undir mörg gagnrýnisatriði með afsögn sinni og útskýringum á því hvers vegna hún kaus þennan kost.
    Þá hefur staða ýmissa ráðherra verið mjög til umræðu að undanförnu, hvort þeir hafa í reynd traust innan ríkisstjórnarinnar, hvort oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa traust á meðráðherrum sínum og eru uppi mikilvægar efasemdir um það, sérstaklega að því er varðar hæstv. félmrh., hvort hann njóti þess trausts innan ríkisstjórnarinnar sem hlýtur að vera honum nauðsynlegt til að geta gegnt störfum sínum.
    Þá hafa ýmsar pólitískar embættaveitingar ráðherra verið mjög til umræðu. Það kannast allir við umræðuna sem varð á sl. ári um skipan sjónvarpsstjóra í embætti sem var hápólitísk embættisveiting og skapaði mikinn óróleika í mikilvægri ríkisstofnun. Þá hafa embættaveitingar hæstv. utanrrh. og margra annarra ráðherra verið af pólitískum toga og hafa þær verið gagnrýndar.
    Allt þetta hefur orðið til þess að veikja tiltrú á núv. ríkisstjórn og kannski hefur það ekki síst veikt tiltrú að mikið ósamlyndi virðist vera innan ríkisstjórnarinnar, sérstaklega milli oddvita hennar, sem verður til þess að menn hljóta að efast um að ríkisstjórnin sé fær um að taka á mikilvægum málum, t.d. út á við.
    Ég vil rifja upp í sambandi við umræðu um Evrópumál að hæstv. forsrh. sagði hinn 25. sept. sl. þegar hann ræddi um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta, svo vitnað sé í útvarpsviðtal sem við hann var haft: ,, . . .  og það er afskaplega hæpið fyrir aðila sem vilja ganga í ESB hér á landi að segja að þessi samningur sé góður.`` Þá er átt við samning Norðmanna um sjávarútvegsmál. Ég er sammála hæstv. forsrh. um það. Síðan segir hann:
    ,,Slíkum mönnum [þ.e. mönnum sem telja að þessi samningur sé góður] er ekki treystandi fyrir því að semja um okkar fiskveiðimál ef þeir halda að þessi samningur sé góður.``
    Hann bætti enn um betur:
    ,,Ég er ekki heldur í vafa um það að hinn ágæti formaður Alþfl. býst við því að hann geti með umræðum um Evrópusambandið eitthvað ruglað stöðu mála og jafnvel krækt sér í eitthvert fylgi frá sjálfstæðismönnum. Það er engin ástæða til þess að láta hann gera það.``
    Nú hefur það ekki, a.m.k. samkvæmt skoðanakönnunum, verið að gera út af við hæstv. ríkisstjórn að Alþfl. væri með svo mikið fylgi. Ég veit ekki betur en að hæstv. forsrh. hafi fremur haft áhyggjur af því hvað samstarfsflokkurinn hefur lítið fylgi samkvæmt skoðanakönnunum og er því merkilegt að hann skuli hafa áhyggjur af því að flokkurinn næli sér í eitt og eitt atkvæði. Í þessum ummælum kemur fram mikið vantraust á hæstv. utanrrh. Það er greinilegt að hæstv. utanrrh. skilur það svo því hann sagði eftirfarandi daginn eftir að forsrh. lét þessi orð falla, þann 26. sept., með leyfi forseta:
    ,,Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. segir ummæli sem forsrh. lét falla í sinn garð á málefnaþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna í gær vægast sagt ómálefnaleg. Þau séu fyrst og fremst pólitísk aðgerð af hálfu Davíðs til að halda hjörð sinni saman.``
    Það er því enginn vafi samkvæmt þessum ummælum að hér var verið að tala um hæstv. utanrrh. og hæstv. utanrrh. tekur þessi ummæli til sín. Hann reynir ekkert að halda því fram að trúlega hafi þetta verið misskilningur, hæstv. forsrh. hljóti að vera að tala um einhverja aðra eða einhvern annan. Nei, það er enginn vafi á því í hans huga. Hann tekur þetta til sín og telur að hann njóti ekki lengur trausts forsrh. til að fara með sennilega mikilvægustu mál sem við eigum nú fram undan í sambandi við samskiptin við Evrópusambandið.
    Það er mjög alvarlegt þegar oddvitar ríkisstjórnarinnar eru svo ósammála í mikilvægu máli eins og þarna kemur fram. Það er líka mjög alvarlegt þegar ekki ríkir lengur traust á milli þeirra sem fara með stjórnarforustuna. Það er ekki líklegt að slíkir menn geti leitt mikilvæga málaflokka eins og þennan. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. ráðherrar útskýri það hver sé í reynd stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli og hvernig sé verið að vinna að því að koma fram mikilvægum hagsmunum Íslands í sambandi við samvinnu og samstarf við Evrópusambandið.
    Það vita það flestir að á næstunni munu tollar hækka, t.d. á síldarafurðum. Ekkert er vitað um það enn þá hvort tollur leggst á síldarafurðir til Finnlands og Svíþjóðar um næstu áramót miðað við að þessi ríki gangi í Evrópusambandið. Þótt nokkur óvissa ríki um það þá hefur ávallt í sambandi við þessi mál verið almennt gengið út frá því að það gæti gerst og mundi sennilega gerast. Því miður er það svo að tollur mun þá leggjast á þessar afurðir. Það er jafnframt staðreynd að tollur er innheimtur af síldarafurðum til Þýskalands og Bretlands um þessar mundir, t.d. edikverkaðri síld, jafnvel þótt hæstv. utanrrh. hafi haldið öðru fram. Þessi tollamál skipta miklu máli og ríkisstjórnin þarf að gera grein fyrir því hvernig hún er að vinna að framgangi þeirra og hvort það megi vænta þess að við fáum úrlausn þeirra mála.
    Ríkisstjórnin þarf jafnframt að gera grein fyrir hvernig hún hyggst tryggja að Íslendingar geti haft áhrif á gang mála innan Evrópusambandsins í þeim samningum sem við eigum eftir að fara út í við þá. Mér er ekki kunnugt um að neitt liggi fyrir enn þá um undirbúning þeirra mála og ég minni á að nú leggja

sósíaldemókratar í Noregi mikla áherslu á það í kosningabaráttunni þar að líklegt sé að stofnanir EFTA muni verða gjörsamlega áhrifalausar og Evrópskt efnahagssvæði muni í reynd leggjast af. Ég er ekki sammála þeirri umræðu sem þeir efna til en það hlýtur að vera alvarlegt fyrir okkur Íslendinga ef ráðamenn í Noregi eru að túlka þessi mál með allt öðrum hætti en sagt hefur verið við okkur, þ.e. íslenskir ráðherrar hafa verið fullvissaðir um að stofnanir þær sem við nú byggjum á muni starfa áfram eða a.m.k. muni það annað koma í staðinn sem jafngildi þeim. Hitt er svo annað mál að áhrif okkar Íslendinga, ef við verðum einir eftir í EFTA, verða ekki hin sömu og þess vegna er nauðsynlegt að tryggja pólitísk áhrif með öðrum hætti og mikilvægt að umræða fari fram um það og málið undirbúið sem best.
    Mér vitanlega er ekki mikill undirbúningur í gangi, enda kannski ekki von þegar það liggur fyrir að hæstv. utanrrh. vill sækja um aðild að Evrópusambandinu jafnvel þótt aðrir flokkar hafi ekki tekið undir það og er þar af leiðandi í algerum minni hluta með það mál.
    Svo virðist sem þessi stefna gildi hjá utanrrn. enda væri vart um það að ræða að hæstv. forsrh. hefði mikið vantraust á utanrrh. ef hann væri í reynd að framfylgja þeirri stefnu sem mótuð var hér á Alþingi. Vantraustið hlýtur að koma m.a. til af því að hann hafi fullvissu fyrir því að hæstv. utanrrh. sé að framfylgja annarri stefnu.
    Ég tek jafnframt fram að sú mikla styrkjastarfsemi sem viðgengst nú innan Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum hlýtur að hafa mikil áhrif á samkeppnisstöðu okkar og þess vegna er nauðsynlegt að starf fari í gang til að endurskipuleggja ýmsa sjóði hér á landi til að mæta þeirri stöðu. Þar á ég einkum við Þróunarsjóð sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóð og aðra þá sjóði sem koma inn á samkeppnisstöðu sjávarútvegsins. Þetta starf er mjög mikilvægt þannig að samkeppnisstaða okkar verði sem best tryggð.
    Ég legg jafnframt áherslu á sameiginlegt starf Norðurlandanna og minni á að það er mikilvægt að Norðurlöndin hafi með sér gott samstarf innan Evrópusambandsins til þess að tryggja þar áhrif, ekki síst vegna okkar Íslendinga. Ég er því þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að Norðurlöndin hafi sameiginlega skrifstofu í höfuðstöðvum Evrópusambandsins til þess að tryggja áhrif okkar betur. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstjórn hver er skoðun hennar í því máli.
    Það sem er alvarlegast í þessu öllu er að Evrópusambandinu hefur í reynd verið tilkynnt það af hæstv. forsrh. að utanrrh. njóti ekki trausts ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ólíklegt er að Evrópusambandið taki alvarlega samningaumleitanir Íslendinga þegar svo er. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjumál hæstv. utanrrh. og það er jafnframt mikið áhyggjumál þjóðarinnar því að hæstv. utanrrh. er að sjálfsögðu fulltrúi hennar í þessum mikilvægu málum. Ef hann hefur ekki lengur þann styrk og það traust sem er nauðsynlegt til að standa í samningum þá er það að vissulega mjög alvarlegt mál.
    Ég nefni jafnframt eitt annað mál sem er mjög mikilvægt um þessar mundir og það eru veiðar okkar í Barentshafi og samningar þar um. Hæstv. forsrh. hefur látið svo um mælt í fjölmiðlum að enginn hafi tekið eftir þeim mikilvægu ummælum sem hann viðhafði í stefnuræðu sinni þar sem hann var að tala um það hvernig hugsanlega ætti að reikna út kvóta í sambandi við Barentshafið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég taldi þessi ummæli ekki skipta miklu máli því að sjálfsögðu er samningamál á hverjum tíma hvernig kvóti skal reiknaður út er. Þar er hægt að viðhafa ýmsar aðferðir og sú aðferð sem hæstv. forsrh. nefndi kemur að sjálfsögðu til greina. En aðalatriðið er að styrkja stöðu okkar í þessu máli og ég vil láta þá skoðun mína í ljós að ég tel nauðsynlegt að nú þegar verði farið út í viðræður við Grænlendinga um að koma upp fiskveiðistofnun Íslendinga og Grænlendinga á Reykjaneshrygg með hugsanlegri aðild annarra að þeirri stofnun. Ég treysti ekki nægjanlega þeirri stofnun, sem hefur farið með þau mál, þ.e. NEA, og mér finnst eðlilegt að við setjum upp slíka fiskveiðistofnun með sama hætti og Rússar og Norðmenn hafa gert í Barentshafi. Slík útspil geta styrkt stöðu okkar vegna þess að Norðmenn og Rússar framkvæma á sama tíma svipaðar aðgerðir á Reykjaneshrygg og þeir eru að mótmæla að við höfum í frammi í Barentshafinu. Þeir eru sem sagt ekki samkvæmir sjálfum sér, þeir vilja halda rétti sínum í Barentshafi með þeim aðferðum sem þeir viðhafa þar en þeir vilja jafnframt halda rétti sínum á Reykjaneshrygg með þeim aðferðum sem þeir mótmæla af okkar hálfu í Barentshafinu. Ég held því að nauðsynlegt sé að blanda þessum málum saman ef við eigum að vænta þess að ná sanngjarnri niðurstöðu.
    Hæstv. utanrrh. er á förum til Rússlands til viðræðna við stjórnvöld þar. Ég tel ástæðu til að fagna því að sá fundur er haldinn því ég er þeirrar skoðunar að allt of lítið hafi verið rætt við Rússa um þessi mál og því sé þessi fundur mikilvægur. En það er með þann fund eins og aðra að utanrrh., sem ekki nýtur trausts í eigin ríkisstjórn, getur vart komið mikilvægum málum fram.
    Ég vil lítillega minnast á málefni hæstv. félmrh. Ég tek fram að við í Framsfl. höfum ekki krafist þess að hæstv. félmrh. segi sérstaklega af sér. Við krefjumst þess að ríkisstjórnin í heild sinni segi af sér. Við teljum vart taka því að hæstv. félmrh. segi af sér sérstaklega. Að sjálfsögðu ber ríkisstjórnin í heild ábyrgð á þeim málum eins og öðrum og það sem þar hefur gerst er áfellisdómur á ríkisstjórnina í heild sinni en ekki eingöngu hæstv. félmrh. Það hlýtur að vera mikilvægast fyrir hæstv. félmrh. að vita hvort hann nýtur trausts samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn. Ég hef ástæðu til að ætla að svo sé ekki, a.m.k. hefur hæstv. forsrh. ekki lýst því yfir að hann beri traust til ráðherrans. Hann segir m.a. í útvarpsviðtali eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Og þær alvarlegu athugasemdir sem fram hafa komið á embættisfærslur hans sé alfarið innanhússmál hjá Alþýðuflokknum.``

    Þá vitum við það. Hæstv. forsrh. telur að um mjög alvarlegar athugasemdir sé að ræða en telur jafnframt að þetta sé eingöngu innanhússmál Alþfl.
    Náttúrlega er svo alls ekki. Þetta er málefni ríkisstjórnarinnar í heild og þó að Alþfl. beri fyrst og fremst ábyrgð á ráðherrum sínum þá ber hæstv. forsrh. líka ábyrgð á ráðherrum sínum. Þess mætti vænta að það væri það samstarf og þau samtöl á milli hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. að þeir geti komist að niðurstöðu í þessu máli.
    Hæstv. forsrh. lét líka hafa eftir sér eftirfarandi, sem gefur ákveðnar vísbendingar, í viðtali við sjónvarpið þann 1. október, með leyfi forseta:
    ,,Það gæti hins vegar verið svo að stjórnmálaflokkur teldi að vegna umræðunnar sem kannski hefur farið úr böndum og vegna alls máls gæti það verið hagfelldara fyrir viðkomandi ráðherra sjálfan, fyrir flokk hans eða ríkisstjórn að hann dragi sig í hlé þó í því fælist enginn áfellisdómur.``
    Ég tel að þetta sé ákveðin vísbending frá hæstv. forsrh. um að hæstv. félmrh. ætti alvarlega að hugsa um að draga sig í hlé. Ég veit ekki hvernig á að túlka slík ummæli öðruvísi.
    Hæstv. utanrrh. hefur ekki kveðið upp úr um það hvort hann hefur traust á samstarfsmanni sínum og hefur vísað því frá sér. Að endingu er öllu málinu vísað til Ríkisendurskoðunar og Ríkisendurskoðun beðin um að fara ofan í málið. Ég tel að það breyti engu þó það sé allt í lagi að senda mál til endurskoðanda. Ég hef út af fyrir sig ágætis traust á þeim. En ég tek eftir því að hæstv. félmrh. hefur ekki mikið traust á endurskoðendum því í nýlegri úttekt löggiltra endurskoðenda hér í Reykjavík á málefnum Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að hann gefur lítið fyrir það og hann leggur mikla áherslu á það að þessir sömu endurskoðendur séu frá Reykjavík. Mér skilst að endurskoðendur í Hafnarfirði séu miklu betri og allt öðruvísi þó mér komi það á óvart. Ég bendi á það að flestir þeir sem starfa hjá Ríkisendurskoðun eru búsettir í Reykjavík og ég vænti þess að það sé þá sama með þá að hæstv. félmrh. hafi litla trú á endurskoðendum hjá Ríkisendurskoðun sem búa í Reykjavík. ( Gripið fram í: Það var einn úr Hafnarfirði.) Nú, er einn úr Hafnarfirði --- sennilega ríkisendurskoðandi sjálfur og það bjargar sennilega málunum. Þá er komin skýring á því hvernig þetta allt saman ætlar að ganga upp.
    Að sjálfsögðu er það mál félmrh. sjálfs hvort hann vill sitja í ríkisstjórn við þessar aðstæður og ég skil vel að hann sé mjög hugsandi yfir því. Samt hlýtur að vera aðalmálið hvort ríkisstjórn, sem er með svo mörg mál í lausu lofti, vill sitja áfram. Hvernig getur það gengið til langframa að hér starfi ríkisstjórn þar sem utanrrh., oddviti annars stjórnarflokksins, nýtur ekki lengur trausts samstarfsflokksins? Hvaða siðgæði er það að starfa við slíkar aðstæður? Ég tel að skylda þessara oddvita ríkisstjórnarinnar sé að gera grein fyrir innri málum sínum og innra samstarfi þannig að það megi vera alveg ljóst hvort einhver samstarfsvilji er milli þeirra lengur eða ekki. Ég tel að þeir skuldi þjóðinni og Alþingi þær útskýringar vegna þess að þrátt fyrir allt eru mikilvæg málefni fram undan sem varða okkur öll, ekki aðeins ríkisstjórnarflokkana heldur jafnframt stjórnarandstöðuna. Þar vil ég ekki síst nefna til mál eins og Evrópumálin og þær deilur sem eru nú uppi að því er varðar Barentshafið.
    Vissulega væri ástæða til að gera mörg önnur mál að umtalsefni. Síðar í umræðunni gerum við málefni landbúnaðarins að umtalsefni. Þar eru miklar breytingar fram undan. Innflutningur á landbúnaðarvörum stendur fyrir dyrum vegna samninga við Evrópusambandið og vegna samninganna um GATT. Ekkert hefur komið fram um það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að mæta þessum nýju aðstæðum og hæstv. landbrh. hefur ekki gert skilmerkilega grein fyrir því hvernig það muni verða gert.
    Líka er mikil ástæða til þess að ræða málefni fjmrn. Það verður að sjálfsögðu aðallega gert í umræðunum um fjárlögin en mikil óvissa er um ýmsa útgjaldaliði. Það er ljóst að rekstrarútgjöld hafa vaxið, fjárfestingar eru að dragast saman. Myndin sem hæstv. forsrh. og fjmrh. reyna að draga upp af fjárlögunum er því miður ekki jafnbjört og þeir hafa látið skína í. Það hlýtur líka að vera mikið umhugsunarefni fyrir hæstv. fjmrh. að standa frammi fyrir því að hafa valið langviðamestu og dýrustu breytinguna á skattkerfi ríkissjóðs til þess að ná fram ákveðinni kjarajöfnun. Hann vill að vísu kenna öðrum þar um en það er hæstv. fjmrh. sem ber ábyrgð á skattamálum ríkisins og ber að sinna því samkvæmt starfsskyldum sínum.
    Eitt mikilvægasta óréttlætið í landinu eru þau miklu skattsvik sem nú eru uppi. Ef alltaf eru sett ný göt á skattkerfið og það gert flóknara aukast skattsvik. Sífellt fleiri menn eru uppteknir við að stoppa í þessi göt og hafa ekki við þeim nýju götum sem hæstv. fjmrh. pikkar á kerfið á hverju ári. Það verður náttúrlega til þess að skattsvikin aukast og möguleikar þeirra manna sem starfa þar verða minni og minni til þess að uppræta þau.
    Það er líka umhugsunarvert fyrir hæstv. fjmrh. að hafa staðið að því að lækka skattleysismörk verulega, lækka barnabætur og vaxtabætur svo eitthvað sé nefnt þrátt fyrir fögur kosningaloforð flokks hans fyrir síðustu kosningar.
    Aðalmálið er þrátt fyrir allt það að þessi núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur leitt fjöldaatvinnuleysi yfir þjóðina hvað svo sem þeir segja. Nú er atvinnuleysi í landinu sem samsvarar því að 6.300 menn gangi atvinnulausir og það hefur vaxið um 4.400 störf á þremur árum. Ekki verður ráðið af ummælum hæstv. ríkisstjórnar að hún hafi mjög miklar áhyggjur af þessu. Af þeim ummælum verður fremur ráðið að þetta sé nokkuð gott og þetta standi nokkuð vel, þetta gæti verið miklu verra. Ekki verður ráðið af fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun að það standi almennt til að fara út í aðgerðir sem breyti miklu um þetta. Fjárfestingarnar hafa farið lækkandi og eru allt of lágar og ef svo heldur áfram mun atvinnuleysið því miður aukast. Það þarf að grípa til margvíslegra ráðstafana til þess að draga úr þessu mikla atvinnuleysi og leitt er til þess að vita að núverandi ríkisstjórn hafi litlar áhyggjur af því. Ummæli verkalýðshreyfingarinnar benda jafnframt til þess að verkalýðshreyfingin hafi mikla vantrú á fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar, sérstaklega að því er varðar atvinnumálin. Það virtist vera að það hefði skapast traust hjá verkalýðshreyfingunni að núv. hæstv. ríkisstjórn ætlaði að fara út í atvinnuskapandi aðgerðir, en ríkisstjórnin virðist hafa misst traust verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum. Þetta er að sjálfsögðu alvarlegt vegna þeirra kjarasamninga sem nú eru fram undan og það má ráða af ummælum sem komið hafa fram hjá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar að ríkisstjórnin njóti ekki nauðsynlegs trausts í sambandi við væntanlegan kjarasamning.
    Virðulegur forseti. Tími minn er búinn. Ég vil þakka fyrir að þessi umræða hefur getað farið fram í dag. Það er ljóst að við í Framsfl. og í stjórnarandstöðunni almennt teljum að núv. ríkisstjórn eigi að fara frá, það sé öllum fyrir bestu og kannski ekki síst henni. Ef hún gerir það þá leysir hún sín innri mál í leiðinni og það sé nauðsynlegt að ganga til kosninga sem fyrst.
    Ég vil óska eftir því að hæstv. forsrh. geri betri grein fyrir þessum alvarlegu málum og segi það skýrt hér á eftir hvort hann ætlar að sitja við þessar aðstæður áfram, hvort hann ætlar virkilega að sitja í ríkisstjórn þar sem hann hefur ekki lengur traust á sínum eigin ráðherrum.