Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 14:43:07 (135)


[14:43]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er gott að það liggur vel á hæstv. forsrh. Sennilega er það ástæða kæti hans að hann veit þrátt fyrir allt að um eitt getur þessi ríkisstjórn alltaf komið sér saman, á það má þó treysta í hverfulum heimi og það er að sitja í stólunum, ríghalda í stólana og hanga í þeim hvað sem tautar og raular. Það virðist ætla að verða niðurstaða þessarar umræðu ef marka má ræðu hæstv. forsrh. eins og áður að þrátt fyrir allt og allt, að stjórnarsamstarfið sé í molum og stjórnarflokkarnir klofnir og í tætlum út og suður þá nái þeir saman um eitt, að vísu aðeins eitt, og það er að sitja.
    Við höfum óskað eftir því, hæstv. forseti, að fá þessa umræðu um stöðu og störf ríkisstjórnarinnar og þar með talin störf einstakra ráðherra. Við höfum jafnframt valið að beina þeirri umræðu til hæstv. forsrh. Hvers vegna er það? Það er bæði vegna þess, hæstv. forseti, að við höfum staðið í þeirri trú að hæstv. forsrh. væri verkstjóri og leiðtogi einnar ríkisstjórnar. Þetta væru ekki tvær ríkisstjórnir og hæstv. utanrrh. væri ekki einhvers konar tvíburaforsætisráðherra þess sem ber þann titil að forminu til en hæstv. forsrh. talar eins og um sé að ræða tvær ríkisstjórnir, ríkisstjórn Sjálfstfl., sem hann veiti forstöðu og beri ábyrgð á, og ríkisstjórn Alþfl. Þetta séu tvö aðskilin ráðuneyti. Ráðuneyti Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., og ráðuneyti Jóns Baldvins Hannibalssonar, hæstv. utanrrh. Það er ekki síst ástæðan fyrir því að við beinum okkar spurningum til hæstv. forsrh. að við viljum fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll og fá það á hreint: Ber hæstv. forsrh. ábyrgð á þessari ríkisstjórn? Er þetta ein ríkisstjórn eða eru þetta margar ríkisstjórnir?
    Hæstv. forsrh. hefur gefið tilefni til að svo sé spurt. Hann hefur margoft í fjölmiðlum undanfarnar vikur reynt að komast hjá allri ábyrgð á því sem einstakir ráðherrar samstarfsflokksins gera og afgreitt það sem vandamál Alþfl. Vegna svara hæstv. forsrh. áðan þá hlýtur maður að leyfa sér að spyrja: Hve langt þarf mál að ganga og hvers eðlis þarf það að vera til að hæstv. forsrh. telji það varða ríkisstjórnina alla en ekki bara samstarfsflokkinn? Er sama hvað ráðherrar Alþfl. tækju upp á að gera? Hversu kirfilega sem þeir gengju fram í því að brjóta lög og misnota vald sitt, mundi það aldrei neinu máli skipta? Væri það alltaf vandamál og hausverkur Alþfl.?
    Ég held að hæstv. forsrh. komist ekki upp með það að koma sér hjá því að svara kjarna málsins eins og hann er að reyna með sínum undanbrögðum. Þessar spurningar snúast líka orðið um miklu meira en einstök efnisatriði þessa máls. Einstakar embættisathafnir viðkomandi ráðherra. Þetta snýst um hvort ríkisstjórn hafi tiltrú, sé starfhæf og hvort fólkið í landinu geti búið við stjórnvald af þessu tagi.
    Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. forsrh.: Hvað segir hann um þá stöðu að embættisathöfnum tveggja ráðherra í hans ríkisstjórn er vísað til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun? Eru send þangað í rannsókn? Telur hæstv. forsrh. það slíkt smámál að hann geti notað stóran hluta af ræðutíma sínum hér til að fara með gamanmál, það liggi svo vel á honum og málið sé svo léttvægt að hann segi bara brandara í stórum hluta af ræðutíma sínum. Finnst hæstv. forsrh. það bara vera sjálfsagt mál og ekkert milli vina þó embættisathafnir ráðherra í samstarfsflokknum í þessu tilviki sæti rannsókn hjá Ríkisendurskoðun? Þar á ég við í fyrsta lagi þá rannsókn sem óskað hefur verið eftir á fjölmörgum mjög umdeildum embættisathöfnum hæstv. heilbrrh. og sömuleiðis á framgöngu hæstv. utanrrh. í utanrrn. sem sjálfur hefur haft um það þau orð að hann liggi undir ámæli fyrir að hafa gert utanrrn. óstarfhæft.
    Hæstv. forsrh. hafði sjálfur í viðtali við fjölmiðla miklar efasemdir um að Ríkisendurskoðun væri rétti vettvangurinn til að fara yfir mál siðferðilegs og stjórnmálalegs eðlis sem hér eiga í hlut ekki síður en fjármálalegs. Að vísu eiga þarna einnig undir mál þar sem til að mynda hæstv. heilbrrh. hefur sýnt svo ótrúlegt dómgreindarleysi í meðferð fjármuna að slíks eru vonandi fá ef nokkur dæmi. Á maður þar til að mynda við það að ráða mann, fyrrum opinberan embættismann, í sérverkefni sem sætir samtímis rannsókn

vegna meintra stórfelldra skattsvika. Slíkt er fáheyrt. Um hina fjármunalegu þætti þess máls getur Ríkisendurskoðun að sjálfsögðu að einhverju leyti fjallað en ekki hina sem eru siðferðilegs og pólitísks eðlis.
    Hvað finnst hæstv. forsrh. um þetta? Er hægt að fá hann til að fara yfir það hér? Finnst honum það þægileg staða í ríkisstjórn að vera með ráðherrana í rannsókn og embættisverk þeirra hér og þar hjá Ríkisendurskoðun? Og næst þegar eitthvað kemur upp á verður þá bara næsti maður sendur í rannsókn og ríkisstjórnin situr áfram eins og ekkert sé?
    Ég vil fara yfir nokkur atriði sem eru þess eðlis að þau verða ekki leyst með því að skrifa bréf til Ríkisendurskoðunar. Þau safnast þegar saman kemur og snúa að því hvort almennt séð sé hægt að bera traust til stjórnvalds. Við höfum horft upp á það á þessu þingi að þriðjungur þingflokks Alþfl. er hlaupinn á dyr, komin í bitlinga innan lands eða utan. Þriðji hver maður fyrir borð á einu kjörtímabili og munar um minna. Við höfum horft upp á það í öðru lagi að þjóðin hefur verið höfð að fíflum með því að það hafa verið auglýst til umsóknar opinber embætti og það er löngu ákveðið fyrir fram hvaða kratar eða hvaða stjórnarsinnar fái þau embætti. Það var auglýst eftir seðlabankastjóra og forstjóra í Tryggingastofnun og öll þjóðin vissi að það var búið að ráðstafa því fyrir fram hvaða gæðingar færu í þau embætti. Telur hæstv. forsrh. það vera eðlilega meðferð á slíkum málum þegar Jón Sigurðsson var gerður að seðlabankastjóra og Karl Steinar, fyrrv. hv. þm., að forstjóra Tryggingastofnunar og allt saman löngu ákveðið fyrir fram? Hvað segir hæstv. forsrh. um starfsaðferðir menntmrh. sem í sambandi við ráðningu á skólastjóra á Suðurlandi sagði fyrir nokkrum mánuðum að hann legði fyrst og fremst áherslu á menntun. Það yrði að ráða í svona embætti eftir því hvað menntunin væri mikil og þess vegna hefði hann ráðið einn en ekki annan í starf skólastjóra á Suðurlandi. En bíðum við. Nokkrum vikum seinna þarf að ráða landsbókavörð og hvað gerist þá? Þá ræður hæstv. menntmrh. mann sem hefur miklu minni menntun en annar umsækjandi og snýr allri röksemdafærslunni við eins og ekkert sé, allt á hvolfi. Nú skal það ekki vera menntunin sem gildir. Þó menn hafi doktorsgráður og hvaðeina í viðkomandi fagi, nei, heldur eitthvað annað. Hvað með ráðninguna á þjóðminjaverði? Eitt afrek menntmrh. enn.
    Telur hæstv. forsrh. að þarna hafi verið farið eðlilega með embættaveitingavald? Og hvað með Hrafnsmálið? Er ekki rétt að minna aðeins á það hér. Það er að vísu mikið hættuspil því eins og kunnugt er þá vill hæstv. forsrh. verða oft mjög hvumpinn ef það ber á góma. Nú er ómögulegt að vita hvaða fordæmingar ég fæ á mig fyrir að voga mér að nefna það hér. En það var fáheyrður atburður í stjórnsýslunni að opinber embættismaður er látinn víkja en hann er ráðinn aftur daginn eftir í æðra embætti. Honum er sparkað upp á við, eins og þjóðin réttilega orðaði það.
    Er þetta eðlilegt, hæstv. forsrh.? Er þetta til þess fallið að skapa tiltrú í stjórnsýslunni? Hvað með það í fimmta lagi, hæstv. forsrh., í þessari ríkisstjórn hafa pólitískir aðstoðarmenn ráðherra verið gerðir að ráðuneytisstjórum í röðum. Hvað segir hæstv. forsrh. um þetta? Er þetta ný stefna? Vill þá hæstv. forsrh. beita sér fyrir breytingu á lögunum um Stjórnarráðið þannig að ráðuneytisstjórar fylgi hér eftir ráðherrum og þeir geti tekið sína pólitísku embættismenn í ráðuneytin og farið síðan með þá aftur. Eða er hæstv. forsrh. tilbúinn að lýsa því yfir að pólitískir aðstoðarmenn ráðherra sem gerðir hafi verið að ráðuneytisstjórum muni allir láta af störfum þegar þessi ríkisstjórn hættir?
    Ég segi alveg eins og er: Hvernig á að ætla mönnum það að taka við --- því sem betur fer verður þessi ríkisstjórn ekki eldri --- og annarra flokka menn kunna að koma að þessum verkum eftir fáeina mánuði? Er eðlilegt að ætlast til þess að þeir gangi að pólitískum aðstoðarmönnum forvera sinna sem ráðuneytisstjórum í stórum stíl?
    Þetta er auðvitað ekki hægt, hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. verður að horfast í augu við það að þessi annáll verður tekinn saman og er miklu ítarlegri og lengri en ég hef tíma til að fara hér yfir.
    Hvað með langa lista flokksgæðinga sem til að mynda hafa verið gerðir að sýslumönnum og öðrum slíkum sýslunarembættismönnum í tíð hæstv. dómsmrh.? Og hvað með meðferð hæstv. ríkisstjórnar á ýmsum öðrum þáttum eins og fjármunum sem þeir hafa óskipta til ráðstöfunar? Hvað með styrkveitingar hæstv. iðnrh., sem hefur nú þóst öðrum mönnum heilagri yfirleitt í þessum málum, til Sunnukórsins á Ísafirði? Hvað kemur það iðnrn. við, hæstv. forsrh.? ( Gripið fram í: Það var frá heilbrrn.) Eða heilbrrn., sama er mér. Ég vissi ekki annað en þessi kór væri við góða heilsu.
    Meðferð hæstv. ríkisstjórnar á valdi sínu er löngu orðin að ja, mér liggur við að segja goðsögn. Það er náttúrlega allt of jákvætt orð í þessu sambandi. Það mun lifa með þjóðinni hvernig þessi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fór með vald sitt. Og alveg sérstaklega ef niðurstaðan verður svo sú að hún bara situr og situr og situr og ráðherrarnir sitja og sitja og sitja alveg sama hvað gerist. Það er ekki einu sinni opnað fyrir þann möguleika að menn stigi til hliðar á meðan mál þeirra sæta rannsókn. Ráðherrar, sem hafa beðist afsökunar á gjörðum sínum í fleiri en einu og fleiri en tveim tilvikum og viðurkennt á sig mistök, gangast fyrir því sjálfir að senda mál sín í rannsókn til Ríkisendurskoðunar en þeir sitja. Og hæstv. forsrh. virðist ekki telja neitt athyglisvert við það.
    Að síðustu, eins og hér hefur svo verið nefnt, hæstv. forseti, er það til að kóróna allt saman að hæstv. forsrh. skuli opinberlega lýsa vantrausti á utanrrh. Það hefur ekki verið dregið til baka að hæstv. forsrh. átti við utanrrh. þegar hann sagði: Þeim mönnum sem telja að Norðmenn hafi gert góðan sjávarútvegssamning er ekki treystandi til að fara með samninga Íslands út á við gagnvart þessu bandalagi. Í næstu stetningu fór hæstv. forsrh. að tala um utanrrh. Síðan hefur hv. þm. Björn Bjarnason, sem stundum gengur í lið með forsrh. í greinarskrifum, hnykkt á þessari skýringu. En hvernig liggur svo málið? Málið liggur þannig að eini nafntogaði Íslendingurinn sem hefur ítrekað sagt að Norðmenn hafi gert góðan sjávarútvegssamning er hæstv. utanrrh. Hann á þann heiður einn og óskiptan að telja þetta góðan samning. Berara getur þetta ekki orðið. Hæstv. forsrh. hefur lýst vantrausti á hæstv. utanrrh. á sama tíma og samkvæmt ákvörðun Alþingis eiga að vera í gangi samningaviðræður við Evrópubandalagið. Undir forustu hvers? Undir forustu utanrrh. því hann fer með það verkefni samkvæmt stjórnskipun landsins að leiða viðræður okkar í alþjóðlegum samningaviðræðum.
    Getur þetta gengið svona, hæstv. forsrh.? Það þýðir ekkert að koma hér upp í ræðustólinn og rifja upp 15 ára gamla sögur eða segja brandara. Það er verið að spyrja um ástand mála á líðandi stundu hjá ríkisstjórn sem situr í dag en ekki einhverja sem sat fyrir 15 árum þó það geti verið sagnfræðilega áhugavert út af fyrir sig að fara yfir þá hluti.
    Ég held, hæstv. forseti, að forsrh. verði að gera betur hér í þessari umræðu og í raun og veru er málið ósköp einfalt. Hæstv. forsrh. þarf að koma hér upp og segja: Ég ber ábyrgð á embættisathöfnum heilbrrh. þar á meðal, utanrrh. þar á meðal, og þeir njóta óskoraðs trausts míns. Þingflokkur Sjálfstfl. ber ábyrgð á embættisathöfnum heilbrrh. og er tilbúin til að verja þær gjörðir sem hann hefur staðið fyrir. Ef hæstv. forsrh. gerir þetta ekki þá ber honum að koma hér upp og segja af sér. Þá ber honum að gera það. Þá er komin upp sú staða í ríkisstjórninni að hún er ekki starfhæf og hefur lengi verið að okkar mati. Og það er, hæstv. forseti, m.a. ástæðan fyrir því að við stjórnarandstæðingar töldum eðlilegt að byrja þetta mál með umræðu þar sem hæstv. forsrh. gæti svarað fyrir sig og stöðu málsins. Það var harla sérkennilegt að heyra hæstv. forsrh. eins og agnúast út í það að Alþingi Íslendinga ætti kost á því að ræða þessi mál og biðja um vantraust. Var það e.t.v. vegna þess og er það vegna þess að hæstv. forsrh. veit að stjórnin er að gliðna sundur og bindur helst vonir við að hann geti lamið hana saman í atkvæðagreiðslu um vantraust? Auðvitað er slík stjórn ekki starfhæf. Bara nýleg dæmi sýna að hún er ekki starfhæf. Utanrrh. kemst ekki á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til að flytja þar ræðu vegna þess að deilurnar í hans eigin flokki og illindin í stjórnarsamstarfinu gera það að verkum að hann á ekki heimangengt, hann kemst ekki úr landi, hann þorir ekki úr landi. Þetta er orðið eins og hjá einræðisherrunum í sumum Afríkuríkjum að þeir þora ekki úr landi af því að þeir óttast að það verði gerð bylting á meðan og allt fari í vitleysu. Ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar geta ekki sinnt störfum sínum vegna þessara innri mála.
    Að lokum, hæstv. forseti, óska ég eftir því að hæstv. forsrh. svari því skýrt og skorinort vegna þess að í haust viðurkenndi hann í raun og veru stöðu málsins með tali sínu um haustkosningar. Er hæstv. forsrh. tilbúinn til þess að ræða þann möguleika á næstu dögum og vikum að það verði gengið til kosninga til að mynda í lok nóvember eða byrjun desembermánaðar eða ætlar hæstv. forsrh. að láta örfáa krata, sem eftir eru í þeim flokki, halda öllu þinginu í gíslingu og gera það að verkum að þessi ríkisstjórn, sem í raun og veru er búin að vera í öllum skilningi nema þeim einum að hún hangir í stólunum, sitji óstarfhæf í allan vetur?