Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:32:26 (146)


[17:32]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hvar er byltingarleiðtoginn sem talaði hér af pöllunum fyrir nokkrum árum? Barðist fyrir réttindamálum alþýðunnar í þessu landi. Hvar er hann? Hann var a.m.k. ekki í stólnum áðan, maðurinn sem hrósaði sér af stöðugleikanum, tölurnar sem hefðu verið fastar langtímum saman, hinn mikli árangur þessarar ríkisstjórnar. Hvernig horfir sá stöðugleiki við venjulegu fólki í landinu? Er stöðugleiki í tölunum um fjölda fátækra á Íslandi? Svarið er nei. Fátækir hafa aldrei verið fleiri á Íslandi. Viðskiptamenn félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið fleiri en þeir eru núna. Er það stöðugleiki og árangur til að hrósa sér af?
    Atvinnuleysið hefur aldrei verið meira á Íslandi en núna. Aldrei. Og það eru horfur til þess að það verði enn meira á næsta ári eins og fram kom fyrr í dag. Er ástæða til að hrósa sér af því? Nei, a.m.k. ekki fyrir róttækan mann, ekki fyrir vinstri sinnaðan mann a.m.k. Er ástæða til að hrósa sér af því að hér hafa verið lögð á skólagjöld í fyrsta sinn með stuðningi núv. umhvrh.? Er ástæða til að hrósa sér af því að einstaklingar greiða nú hærri skatta en nokkru sinni fyrr og hafa tekið á sig skattbyrði af fyrirtækjum upp á milljarða króna? Nei, það er ekki ástæða til að hrósa sér af því. En það er dapurlegt, hæstv. forseti, að hlýða á ræðu þess manns sem forðum flutti byltingarræður á pöllum Alþingis þrátt fyrir höggin í bjölluna úr stóli forseta. Það er ömurlegt að hlusta á það hvernig stjórnarsamstarfið hefur farið með þennan góða mann.