Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:34:28 (147)


[17:34]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hérna áðan, er mestallt rétt. Það er alveg rétt, það er ekki ástæða til að hrósa sér af þeim fjölda sem teljast fátæklingar á Íslandi í dag. Það var enginn í þessum stóli til að hrósa sér af því, virðulegi forseti. Hins vegar tel ég ástæðu til þess að hrósa sér af að hafa átt þátt í því, þrátt fyrir þann mikla samdrátt og þá miklu kreppu, sem er raunar ein lengsta kreppa sem verið hefur á Íslandi, þá er nokkur ástæða fyrir ríkisstjórnina að hrósa sér af því að hafa þrátt fyrir allt spýtt í lófana og tekist að smyrja svo gangverk efnahagslífsins að það eru batamerki á flestum sviðum þess. Menn þurfa ekki annað en að lesa þjóðhagsáætlun til þess að skilja það. Ég gæti rakið það í miklu lengra máli en ég gerði áðan, tími minn leyfði bara ekki meira. En ástandið núna er að verða þannig að við erum að sigla fram úr þessari löngu lægð og þá vænti ég, hv. þm. Svavar Getsson, að okkur takist að fækka fátæklingunum, auka kaupmáttinn, sem raunar hefur aukist á þessu ári gagnstætt því sem spáð var á síðasta ári, og reyndar er líka spáð að hann aukist á næsta ári. Þá vona ég, hv. þm., að okkur takist að minnka launamuninn í landinu. Ég segi það fyrir sjálfan mig, til er ég í það samstarf, enda, virðulegi forseti, gamall byltingarleiðtogi, alinn upp undir handarjaðri þess byltingarleiðtoga sem nú stígur í stólinn.