Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:38:11 (150)


[17:38]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. gat um það í upphafi sinnar ræðu að hann hefði ætlað að vitna hérna í tveggja manna tal þegar ég hafði samband við hann og óskaði eftir því að þessi umræða færi fram. Við það er ekkert að athuga því ekkert fór fram í þessu samtali sem ekki má vitna í, hæstv. forsrh., og í sjálfu sér bara eðlilegt. Hins vegar hefði kannski mátt segja að það væri kurteisi að óska eftir því áður hvort ekki mætti vitna í þetta tveggja manna tal er fram fór. Ég tók hins vegar eftir því þegar ég óskaði eftir þessari umræðu fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að hæstv. forsrh. var bæði aumur og áhyggjufullur yfir stöðu ríkisstjórnarinnar og bað um það að vantraustið kæmi bara fram strax. Ég taldi rétt að taka þessa umræðu fyrst og kanna hver staðan væri hjá stjórnarflokkunum og meta síðan í framhaldi af því hvort slík umræða skilaði einhverju og hver staða ríkisstjórnarinnar væri í raun og veru áður en vantraust yrði borið fram og þá yrði það metið hvaða tími væri heppilegastur til þeirra hluta.
    En það hefur komið fram hér í máli hæstv. forsrh. og utanrrh. að ríkisstjórnin standi traustum fótum. Það er gott ef svo er. En það eru dálítið önnur viðhorf sem þar koma fram heldur en komu fram hjá nokkrum hv. þm. stjórnarliðsins nokkrum dögum áður en þing var sett. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í viðtöl við tvo hv. þm. Sjálfstfl. í septembermánuði, hv. þm. Björn Bjarnason og Egil Jónsson. Þar segir: ,,Varðandi mál Guðmundar Árna vil ég segja það að stjórnarsamstarf getur ekki byggst á því að menn gangi lengra í að sætta sig við embættisverk samstarfsaðilans heldur en maður mundi gera við mann í eigin stjórnmálaflokki. Það er ekki hægt að teygja stjórnarsamstarfið eftir því. En þetta eru auðvitað fyrst og fremst erfiðleikar Alþfl., sagði Björn Bjarnason alþingismaður í samtali við DV.``
    Egill Jónsson alþingismaður frá Seljavöllum tekur í sama streng og Björn: ,,Það duga engar skýrslur gegn því viðhorfi sem komið er upp vegna embættisfærslu Guðmundar Árna Stefánssonar félmrh. Þetta er auðvitað mál Alþfl. og fjarri því að ég ætli að fella dóm í þeim efnum. Menn verða hins vegar að athuga það vel að þegar kemur til þings þá eru mál Guðmundar Árna þess eðlis að þau snerta ríkisstjórnina alla og hafa áhrif á stöðu hennar í heild sinni. Því er spurningin hvort óbreyttir stjórnarþingmenn vilja taka sér fyrir hendur að forsvara þessi mál ráðherrans, þegar þau koma til kasta Alþingis``, sagði Egill Jónsson.
    Þorsteinn Pálsson sjútvrh. og Ólafur G. Einarsson menntmrh. sögðu varðandi tal um kosningar fyrir áramót, að þeir efuðust um að svo færi. Þeir tóku þó báðir fram að það mundi ráðast af því hvernig mál þróuðust hjá Alþfl. á næstu vikum.
    Þetta er svolítið annar tónn hjá þessum tveimur hv. þingmönnum Sjálfstfl. heldur en kom fram í ræðu hæstv. forsrh. áðan. Það er auðvitað gott ef þessi afstaða er breytt eða það sem forsrh. segir hér áðan þegar hann segir að ríkisstjórnin standi traustum fótum. Það er bara ekkert að marka það sem þessir hv. alþm. eru að láta hafa eftir sér í fjölmiðlum. Það mun auðvitað koma fram í atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina komi til þess og þegar að því kemur hvort hv. þm. Egill Jónsson frá Seljavöllum er tilbúinn til þess að forsvara þau mál sem hæstv. félmrh. hefur verið að sýsla við meðan hann var í heilbrrn. Því það að greiða ríkisstjórninni atkvæði þegar þar að kemur er auðvitað að forsvara þau mál sem snúa að ríkisstjórninni, eins og hv. þm. lætur hafa eftir sér hér í dagblaðsviðtalinu.

    Það verður líka fróðlegt að vita hvort hv. þm., fyrrv. sessunautur minn, Eggert Haukdal, leggur blessun sína, með því að standa með ríkisstjórninni, yfir þau verk og þau orð sem hann hefur haft hér um hæstv. utanrrh. Það verður líka fróðlegt að vita hvort hv. þingmenn sem ekki ætla að gefa kost á sér núna í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjavík, þeir Eyjólfur Konráð Jónsson og Ingi Björn Albertsson, eru tilbúnir til þess að leggja blessun sína yfir það fjárlagafrv. sem núna hefur verið lagt fram af ríkisstjórninni, þar sem enn er aukið á álögur sjúklinganna, þar sem á að skera niður um 850 millj. kr. við gamla fólkið og við öryrkjana með því að lækka lífeyristryggingarnar um 850 millj. kr. Og það verður fróðlegt að vita hvort þingmenn Sjálfstfl., sem skrifuðu undir hvítbókina og lofuðu því að þessi ríkisstjórn skyldi skila hallalausum fjárlögum á þessu ári, eru tilbúnir til að greiða henni atkvæði, því í dag er hæstv. fjmrh. að leggja hér fram frv. til laga, tvö frumvörp, þar sem hann er að fá það samþykkt að fjárlagahallinn hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sé 24 milljarðar kr., 24 milljarðar kr. á tveimur árum, enda hefur það komið fram að hæstv. fjmrh. er heimsmeistari í fjárlagahalla. En auðvitað koma hv. þm. Sjálfstfl. einhvern tíma, hvort sem það verður í atkvæðagreiðslu um vantraust á þessa ríkisstjórn eða við fjárlagaafgreiðsluna, þá kemur það í ljós hvort þeir eru tilbúnir til þess bæði að forsvara það sem einstakir ráðherrar hafa verið að gera í ríkisstjórnarsamstarfinu og síðan að leggja blessun sína yfir það sem þessi ríkisstjórn er að bera fram.
    Hæstv. forsrh. sagði það hér við umræðuna að þetta væri allt saman mál Alþfl., Sjálfstfl. kæmi raunverulega ekkert við þessi vandamál sem uppi væru í Alþfl. og sem til væru komin vegna embættisfærslna hæstv. félmrh. og vitnaði þar til hvernig fyrrv. forsætisráðherrar hefðu meðhöndlað þessi mál. Nú er ágætt fyrir hæstv. forsrh. að fara að bera sig saman við aðra. Honum hefur stundum ekki þótt það fínt sem fyrri forsætisráðherrar hafa verið að gera og hefur látið hafa það eftir sér að þessi ríkisstjórn væri ekkert að ganga í spor fyrri ríkisstjórna. Þessi ríkisstjórn ætlaði að gera hlutina öðruvísi. En auðvitað er það svo nú að hæstv. forsrh. ræður í raun ekki við þessi mál. Hann getur ekki tekið á eigin málum. Hann getur ekki tekið á málum ríkisstjórnarinnar.
    Í útvarpsviðtölum hefur hæstv. forsrh. látið hafa það eftir sér hvað eftir annað, hann hefur aldrei nokkurn tíma kveðið upp dóm um það hvort hæstv. félmrh. ætti að víkja úr ríkisstjórninni eða ekki, ávallt skotið sér undan ábyrgð og vikið sér undan að svara með því að segja: Mér kemur þetta ekki við, þetta er mál Alþfl. Ég spyr nú hæstv. forsrh.: Hefðu slík mál eins og núna eru uppi varðandi hæstv. félmrh. komið upp í ríkisstjórninni og þar hefði verið um að ræða að ráðherra Sjálfstfl. hefði verið í þeim sporum sem hæstv. félmrh. er nú í, þá hefði ekki verið hægt að segja: Þetta er ekki mál Sjálfstfl., þetta er mál Alþfl. Hvað hefði hæstv. forsrh. gert í þeim efnum? Hefði hæstv. forsrh. látið viðkomandi ráðherra sitja áfram eða hefði hann óskað eftir því að hann segði af sér? Það er auðvitað þessu sem hæstv. forsrh. þarf að svara hér, þar sem hann ber ábyrgð á þessari ríkisstjórn. En ástæðan fyrir því að hæstv. forsrh. víkur sér undan að svara er sú að þegar menn fara yfir kjörtímabilið og skoða hvað það er sem stendur upp úr sem menn telja að hæstv. félmrh. hafi verið að gera af sér og hafi orðið á í sínum embættisfærslum og bera það síðan saman við önnur mál er upp hafa komið, bæði hér á Alþingi og í borgarstjórnarkosningunum sl. vor, þá sjá menn í raun að Sjálfstfl. hefur aðhafst nákvæmlega það sama og þau stærstu mál sem standa upp úr í embættisfærslum hæstv. félmrh. og ætla ég hér að nefna tvö dæmi.
    Menn telja að stærstu mistök hæstv. félmrh. þegar hann var heilbrrh. væru þau að hafa gert starfslokasamning og endurráðið þáv. tryggingayfirlækni til starfa á vegum ráðuneytisins og greitt fyrir slíka hluti. Hver er munurinn á því máli og máli Hrafns Gunnlaugssonar, sem var rekinn frá Ríkisútvarpinu en hæstv. menntmrh. ákvað síðan að ráða að þeirri sömu stofnun til stærri og meiri starfa en hann var áður við?
    Það var á það deilt að ekki lægi fyrir skýrsla í heilbrrn. frá Hrafnkeli Ásgeirssyni um þau störf er hæstv. heilbr.- og trmrh. hafði óskað eftir að hann innti fyrir ráðuneytið. Sú skýrsla fannst ekki. Muna menn eftir umræðunni um verk núv. borgarfulltrúa í Reykjavík, Ingu Jónu Þórðardóttur, þau verk er hún hafði unnið fyrir þáv. borgarstjóra og fengið háar greiðslur fyrir? Sú skýrsla er ekki fundin enn, enda var það að mati þáv. borgarstjóra ekki nútímastjórnunaraðferðir að vera að skrifa skýrslur, heldur átti það að berast munnlega milli manna. Og þegar menn skoða þessi mál og bera þau saman þá skilja menn það að hæstv. forsrh. getur auðvitað ekki tekið á þeim vandamálum sem uppi eru í þessari ríkisstjórn.