Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:50:02 (151)

[17:50]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það voru fögur fyrirheit sem formenn núverandi stjórnarflokka gáfu að loknum Viðeyjarfundum fyrir þremur og hálfu ári. Það skyldu tekin upp ný vinnubrögð í stjórnarsamstarfinu sem þar var innsiglað. Eindrægni og drengskapur skyldi ríkja á stjórnarheimilinu, stjórnarheimili Davíðs Oddssonar, hins nýja formanns Sjálfstfl., a.m.k. skyldi ekki annað koma í ljós í fjölmiðlum.
    Nú þegar óðum líður að lokum þessa kjörtímabils munu fáir neita því að ástandið á þessu heimili hafi orðið með öðrum hætti, a.m.k. að því leyti sem það hefur birst okkur sem utan þess erum. Því miður hefur sú mynd sem ríkisstjórnin hefur sýnt þjóðinni með störfum sínum, verið á þann veg.

    Við minnumst þess t.d. á sl. vetri þegar hér fóru fram miklar umræður um landbúnaðarmál með hæstv. forsrh. í fararbroddi. Viku eftir viku og mánuð eftir mánuð var sagt að allt væri í ströggli milli ráðherra í ríkisstjórninni um þessi mál. E.t.v. hefur það þó verið sýndarmennska sjálfstæðismanna frá upphafi því að lokum var það eins og áður vilji yfirlandbrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar, hæstv. utanrrh., sem réði. En ríkisstjórn sem gerir hagsmuni atvinnuvega að bitbeini í innbyrðis valdatafli í stað þess að vinna að eflingu þeirra hefur að sjálfsögðu algerlega brugðist skyldu sinni.
    Vinnubrögðin á stjórnarheimilinu hafa þó að mati okkar sem í stjórnarandstöðu erum keyrt um þverbak síðan í vor. Í fjölmiðlum hefur að undanförnu verið haft hæst um ákvarðanir hæstv. núv. félmrh. Vissulega er þar af mörgu að taka sem erfitt er að skilja að sá sem hefur tekið að sér ábyrgð ráðherrastarfs skuli standa að. Hins vegar er rétt að gera sér grein fyrir því í hvaða umhverfi hann kemur á stjórnarheimili hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar þar sem einkavinavæðingin hefur setið í fyrirrúmi.
    Þó að liðin tíð gleymist fljótt er Hrafnsmálið þó enn þá ofarlega í huga margra eins og minnt hefur verið á í þessari umræðu. En þrátt fyrir það að telja verður að dómgreindarleysi ráðherra hafi leitt til ýmissa óafsakanlegra ákvarðana þá eru það þó atburðir síðustu mánaða á stjórnarheimilinu sem eru enn þá alvarlegri. Í sumar kom upp djúpstæður ágreiningur milli hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. um það hvernig Íslendingar skuli bregðast við væntanlegri inngöngu annarra EFTA-þjóða sem standa að Evrópska efnahagssvæðinu inn í Evrópusambandið. Um það var mikið fjallað í fjölmiðlum þá.
    Hæstv. forsrh. kvartaði undan því í ræðu sinni hér fyrr í dag að málshefjandi, hv. 1. þm. Austurl., vitnaði til orða hæstv. forsrh. á síðustu vikum. Enginn hefur þó talað meira um fortíð og fortíðarvanda en hæstv. forsrh., enda fór hann meira en áratug aftur í tímann til að sækja sér samanburð. En ég er algerlega ósammála þeirri skoðun sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að menn ættu ekki að ræða um það sem menn hafa sagt, að þeir ættu ekki að bera ábyrgð á orðum sínum, eins og fram kom í þeim ummælum hans að það þýði ekki að taka ummæli héðan og þaðan. Ég tel að menn eigi að bera ábyrgð á orðum sínar hvar og hvenær sem þau eru sögð og sem betur fer hygg ég að flestir vilji enn halda í heiðri að orð skulu standa. Því vil ég hér til viðbótar vitna til nokkurra setninga sem hæstv. forsrh. lét falla í fjölmiðlum um þetta málefni í júlímánuði sl.
    Hinn 20. júlí var frétt um Evrópusambandsmál í Ríkisútvarpinu og í upphafi sagði fréttamaðurinn, með leyfi hæstv. forseta: ,,Davíð Oddsson segist vera ósammála Jóni Baldvin Hannibalssyni utanrrh. um að rétt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu nú. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið dugir ágætlega að hans mati, enda er það stefna Alþingis og ríkisstjórnar að halda sig við hann, stefna sem forsrh. segist ekki vita annað en utanrrh. hafi talað fyrir á fundum sínum nýlega. Einkaskoðanir Jóns Baldvins virðast hins vegar hafa breyst, segir Davíð Oddsson.``
    Í hádegisfréttum daginn eftir er sagt frá því að hæstv. forsrh. hafi boðað utanrmn. Alþingis á sinn fund síðdegis þann dag til að ræða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og þar segir áfram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. situr fundinn. Hann hefur lýst því afdráttarlaust yfir að hann telji að Íslendingar eigi að sækja sem fyrst um aðild að ESB sem forsrh. segir að ekki sé á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.`` En í viðtölum sem fréttamenn eiga síðan við hæstv. forsrh. eftir þennan fund koma fram næsta furðulegar yfirlýsingar, eins og vil hér taka örfá dæmi um. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þetta er svona einhvers konar sumarbóla sem rýkur upp eins og stundum vill gerast hér á landi mjög óyfirvegað í mjög alvarlegu máli. Umræðan er farin út og suður um allan völl, en þannig að allt í einu að hlaupa upp með þessa umræðu núna og halda því að fólki að það sé eitthvað sérstakt að gerast núna, við séum við að missa af einhverjum tækifærum, er bara ekki leyfilegt. Þetta get ég sagt hér og ég hef sagt þetta við utanrrh. Ég held að út af fyrir sig sé okkur ekki til framdráttar í þessari samningagerð, [þ.e. ummæli hæstv. utanrrh.,] en ég geng ekki svo langt að segja að það spilli fyrir okkur. Ég læt nú aldrei neitt flakka svona að fyrrabragði, en það er óhjákvæmilegt að útskýra það þegar svona kemur upp að málið er á villigötum.``
    Þannig er hægt að halda lengi áfram. En ég held að flestir hljóti að telja að ríkisstjórn sem er orðin svo sjálfri sér sundurþykk, eins og fram kemur í þessum og fleiri ummælum hæstv. forsrh. um viðhorf hæstv. utanrrh., hefur ekki lengur starfsgrundvöll og sjálfsagt hefur hæstv. forsrh. verið sömu skoðunar því í kjölfarið fer hann að hefja umræðu um kosningar nú í haust. Endir þeirrar umræðu var sá að hæstv. utanrrh. hafnaði þessari tillögu hæstv. forsrh. og þar með var hún úr sögunni. Þegar sú niðurstaða lá fyrir reyndi hæstv. forsrh. hins vegar að sannfæra sjálfan sig og aðra um það að þessi tillaga hans hefði ekki verið skynsamleg því að það væri svo afskaplega mikilvægt fyrir þjóðina að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. sæti áfram og það hefur verið ítrekað hér af hæstv. ráðherrum í umræðunni í dag. En hér í umræðunni hefur síðan verið vitnað til ummæla hæstv. forsrh. um hæstv. utanrrh. á fundi Sambands ungra sjálfstæðismanna sem hæstv. forsrh. kveinkaði sér undan að gert var. En í orðum hæstv. forsrh. var að öðru leyti að heyra að það væri í góðu lagi að hann segði að hæstv. utanrrh. væri ekki treystandi til að annast samninga við aðrar þjóðir. Það hefur ekki komið neitt svar eða skýring við þeim ummælum. En þó að hæstv. forsrh. telji að það sé í góðu lagi að hann veiti slíkum manni, slíkum utanrrh., umboð sitt til þess að annast þessi mál fyrir sína hönd þá hljótum við að spyrja hvort öllum öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna finnist ekkert athugavert við þetta. En fyrst og fremst hlýtur að vakna spurningin hvort þjóðinni finnst þetta í góðu lagi, ekki aðeins að hafa utanrrh. sem hæstv. forsrh. gefur þessa einkunn, heldur fyrst og fremst hvort þjóðin getur sætt sig við að hafa forsrh. sem hefur slíkt viðhorf að það sé í lagi að utanrrh. gegni áfram starfi sínu. Og á hvaða braut erum við ef þjóðin ætlar að sætta sig við þetta?
    Svo má einnig spyrja: Hvernig getur hæstv. utanrrh. setið áfram í ríkisstjórn eftir að hæstv. forsrh. hefur gefið slíka yfirlýsingu um að hann treysti honum ekki til að gegna störfum sínum? Tekur hæstv. utanrrh. svo lítið mark á orðum hæstv. forsrh. að honum finnst slík yfirlýsing engu máli skipta? Hvernig er það fyrir hæstv. utanrrh. að mæta sem fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi með þennan stimpil hæstv. forsrh.? Hvaða virðingu bera hæstv. ráðherrar fyrir sjálfum sér að una slíkri stöðu? Eina svarið sem við höfum fengið frá hæstv. ráðherrum hér í dag er að þar sé allt svo afskaplega gott og það sé bjart fram undan. Um málefnin að öðru leyti, atvinnu- og efnahagsmál, verður rætt síðar en í mínum huga er það þessi furðulega staða sem komin er upp í ríkisstjórn sem er það alvarlegasta fyrir þjóðina ef við eigum að sætta okkur við það vikum og mánuðum saman að búa við þessa ríkisstjórn eftir það sem á undan er gengið.