Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:18:17 (153)


[18:18]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni frá hv. síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Austf., vil ég gjarnan hryggja hann eða gleðja með þeim orðum að afstaða mín til hæstv. utanrrh. er óbreytt eins og hún hefur lengi verið. Það er engin breyting á því. ( HÁ: Og hver er hún?) Einn maður fær hins vegar litlu áorkað að breyta um ráðherradóm hæstv. utanrrh. Hv. þm. þarf ekki að spyrja, hann veit um mína afstöðu.
    En af því að það er víst komið að lokum þessarar umræðu, þá hélt ég að þessi umræða yrði nokkru bragðmeiri hjá stjórnarandstöðunni heldur en komið hefur í ljós. En það er ekkert langt á milli hv. 1. þm. Austf. og hæstv. utanrrh. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur keppst lengi við að komast upp í lestina til Brussel og krækja sér þar í nógu þægilegt sæti eins og hæstv. utanrrh. Það er eiginlega leitt til þess að vita miðað við að hans ágæti fyrirrennari í formannsstól Framsfl. var ekkert á leiðinni inn í þessa lest. Ég hefði unnt hv. 1. þm. Austurl. betra hlutskiptis en að vera stöðugt að reyna að krækja sér þarna í nógu þægilegt sæti.