Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:22:28 (155)


[18:22]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu vil ég viðskipti við Evrópu. Við þurfum þaðan fjármagn og viðskipti. En við þurfum ekkert að fara með sjálfstæðið til Brussel, við getum uppréttir fengið gott samstarf við Evrópu. Þarna liggur aðalmálið í öllum þessum umræðum um viðskiptin við Evrópu, það er að koma þangað ekki hundflatir og vonandi tekst að forða meiru illu en orðið er.
    Hæstv. utanrrh. kom að því hér í dag að við hefðum fengið milljarða og það sæju allir. Hvar eru þessir milljarðar sem hafa komið út úr þessum samningum? Það þyrfti sannarlega sem fyrst að fá upplýst á borðið. En ég vil undirstrika, ég vil samstarf við Evrópu, en uppréttur.