Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:23:36 (156)


[18:23]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að þessi umræða sé þegar orðin gagnleg fyrir ýmissa hluta sakir. Hún hefur dregið það fram sem út af fyrir sig var orðið ljóst að ríkisstjórnin mun ætla sér að sitja hvað sem tautar og raular og þar með er það í raun og veru undirstrikað að það ber ekki að taka mark á orðum hæstv. ráðherra eða einstakra hv. stjórnarliða þegar þeir eru að sendast á skeytum í fjölmiðlum. Við hljótum að skilja það svo sem vantraustsyfirlýsing forsrh. á utanrrh. sé til baka dregin svo ekki sé minnst á smápíp sem hafði heyrst í einstöku stjórnarþingmanni um að þeir kynnu nú að vilja þvo hendur sínar til að mynda af embættisgjörðum hæstv. heilbrrh. Það er til að mynda niðurstaða þessa dags af því að hér hefur setið hv. þm. Egill Jónsson nýkominn úr prófkjöri, þögull sem gröfin í allan dag, að ummæli hans um að hann kunni nú að hugsa sinn gang gagnvart því hvort hann skrifi upp á þennan heilbrrh., þau eru marklaust blaður. Enda var þá prófkjör fram undan hjá hv. þm. og hann hafði vissa þörf fyrir að vekja á sér athygli og fegra á sér vangann svona fyrir kjósendur sína á Austurlandi, þessi 50% sem studdu hann af þeim sem tóku þátt í forvalinu og var hann þó víst einn í framboði til fyrsta sætisins.
    Þannig er það nú að verða niðurstaða að hv. þm. Egill Jónsson, svo dæmi sé tekið af einum óbreyttum stjórnarliða, mun af líkindum sitja út allt þetta kjörtímabil og bera fulla ábyrgð á þeim hæstv. utanrrh. og landbúnaðarstefnu hans og hæstv. heilbrrh. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að liggi fyrir og verður e.t.v. undirstrikað með enn skýrari hætti á Alþingi á næstunni að í þessum efnum er bara annaðhvort eða. Annaðhvort eru menn stuðningsmenn ríkisstjórnar eða ráðherra í ríkisstjórn og bera sameiginlega ábyrgð á gerðum hennar sem slíkir eða ekki. Þegar tækifæri gefast til að gera grein fyrir sinni stöðu og þau eru látin ónotuð eins og stjórnarþingmenn, til að mynda allir þingmenn Sjálfstfl. í dag, kjósa að gera þá þýðir það bara eitt: Þögn þeirra er sama og samþykki. Sama og uppáskrift á ríkisstjórnina og embættisathafnir einstakra ráðherra og verði hv. þingmönnum Sjálfstfl. mjög að góðu að taka þannig á sig sameiginlega ábyrgð á stjórnarsamstarfinu.
    Hæstv. ríkisstjórn virðist sem sagt ætla sér að lifa áfram í sínum tilbúna draumaheimi um mikinn efnahagsbata og glæsilegan árangur á öllum sviðum sem hún reynir að telja þjóðinni trú um að sé þvert ofan í þær staðreyndir, nöturlegu staðreyndir sem blasa við um atvinnuleysi, skuldasöfnun heimilanna o.s.frv.
    Margt er auðvitað kostulegt í þessum samskiptum stjórnarliða og hlýtur að komast eitthvað af því á spjöld sögunnar trúi ég. Til að mynda þessar kostulegu einkunnir sem ráðherrarnir hafa verið að gefa hver

öðrum. Skeytasendingar hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. til dæmis núna síðsumars, ég held að þær hljóti að teljast nokkuð sögulegar í samskiptum forustumanna stjórnarflokkanna þar sem þeir töluðu um sumarbólur og upphlaup og einkaskoðanir og annað þar fram eftir götunum og voru nánast að biðja þjóðina um það að vera ekki að taka mark á hvor öðrum. Það væri ekkert að marka þetta, þetta væru bara einhverjar sumarbólur, einhverjar einkaskoðanir, einhver upphlaup sem bæri ekki að taka mark á. Er það nú von að ,,rygti`` slíkra stjórnvalda rísi ekki hátt.
    Það er líka dálítið fróðlegt að heyra hvernig hæstv. forsrh. grípur til þess ráðs þegar hann kemst í nokkra kastþröng að tala þá um einkaskoðanir ráðherra í ríkisstjórn sinni og virðist gera þar alveg skýran greinarmun. Sem sagt, hæstv. utanrrh. hefur leyfi til þess að hafa einkaskoðanir sem ganga algjörlega þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Það virðist vera í lagi að mati hæstv. forsrh. Sömuleiðis fann hann upp nýtt hugtak hér áðan þegar hann var aftur í vissum vanda með það að orða afstöðu sína til hæstv. heilbrrh. Hvaða hugtak fann forsrh. þá upp? Hann hafði persónulega traust á hæstv. félmrh. Sem sagt einstaklingurinn Davíð Oddsson, sem er þá væntanlega ekki hæstv. forsrh. og má þá ávarpa sem slíkan hér á þinginu, einstaklingurinn Davíð Oddsson hefur persónulega traust á einstaklingnum væntanlega Guðmundi Árna Stefánssyni. En það var ekki embættisleg uppáskrift forsrh. sem þar fór fram.
    Svona billega geta menn greinilega ætlað sér að sleppa frá hlutunum.
    Hið alvarlega er auðvitað, hæstv. forseti, að þessi ríkisstjórn er gjörsamlega sundurtætt og hefur enga stefnu. Þetta er yfirlýsing um það. Auðvitað. Til að mynda getur framganga þessarar ríkisstjórnar í samskiptum okkar við Evrópusambandið ekki orðið annað en hörmung við þessar aðstæður. Hæstv. utanrrh. má ekki sleppa úr landi augnablik þá rassakastast hann um öll lönd og álfur og segir að Íslendingar séu á leið inn í Evrópusambandið. Gefur það aftur og aftur í skyn að það kunni að vera von á umsókn frá Íslandi. Svo þegar hann kemur heim þá er hann auðvitað barinn til þess að hafa hér hægt um sig. Og hæstv. forsrh. ef hann lendir í vanda með þetta segir: Þetta eru einkaskoðanir utanrrh., málið er ekki á dagskrá og kemst það ekki fyrr en á næstu öld.
    Er hægt að láta þetta ganga svona? Hugsar hæstv. forsrh. sér að búa við það áfram að hæstv. utanrrh., sem á stundum leið til útlanda eins og kunnugt er, gjósi upp í fjölmiðlum í Noregi í dag og í Danmörku á morgun, í Brussel þriðja daginn og þar sé hann að halda fram þessari einkastefnu sinni um að Íslendingar eigi að leggja inn umsókn. Gefa það í skyn að svo kunni að vera, gefa samningagjörðum annarra ríkja einkunnir og hæla þeim þvert á það sem er stefna ríkisstjórnarinnar eða hæstv. forsrh. hér heima sem heldur hinu gagnstæða fram í öllum tilvikum og lætur auðvitað að því liggja sem er rétt að þessi staða skaði viðkvæma utanríkishagsmuni Íslands. Augljóslega. Er það t.d. gæfulegt upplegg fyrir okkur Íslendinga í samskiptum við Evrópubandalagið að utanrrh. skuli hafa sannað svo metnaðarleysi sitt fyrir okkar hönd þegar kæmi að samningum um sjávarútvegsmál að hann hæli niðurstöðum Norðmanna sem allir nema hæstv. utanrrh. telja slæmar? Ég held að það þurfi ekki að fara um það mörgum orðum að svona staða er auðvitað alveg ótæk. Það er ekki hægt að hafa ríkisstjórn sem umgengst viðkvæma samningshagsmuni Íslands gagnvart erlendum ríkjum með þessum hætti. Það er ómögulegt. Það verður að vera einhver stefna sem er opinber og viðurkennd og er framfylgt og það er ekki hægt að hafa utanrrh. sem fylgir henni ekki fram heldur gerir hið gagnstæða um leið og hann sleppur úr landi. Það er auðvitað ekki hægt.
    Hæstv. utanrrh. hefur ekkert umboð til þess að ganga þannig fram, hvorki frá ríkisstjórn, frá þinginu, né frá neinum aðila nema bara sitt tilbúna umboð sem hann býr sér til. Aumingjaskapur hæstv. forsrh., með leyfi að segja svo, hæstv. forseti, er auðvitað hvað mest yfirþyrmandi þegar kemur að því hvernig hann hefur látið hæstv. utanrrh. vaða uppi og er þá sama hvar borið er niður, hvort það er yfirgangur hæstv. utanrrh. í Evrópumálum, afstaða hans til haustkosninga þegar hann kúgaði yfirgnæfandi meiri hluta þingsins og samstarfsflokkinn með einhverjum hluta af sínum liðsmönnum til þess að hætta við haustkosningar.
    Hæstv. forseti. Það mætti hér sömuleiðis nefna til að mynda stöðu landbúnaðarmálanna í þessari ríkisstjórn sem er eins og bent hefur verið á viðkvæm um þessar mundir. Hv. þm. Egill Jónsson mun komast á spjöld sögunnar fyrir það að sitja undir landbúnaðarstefnu Jóns Baldvins Hannibalssonar í fjögur ár án þess að reisa þar neina rönd við nema í orði kveðnu. Hv. þm. hefur að vísu farið býsna hátt í hástemmdum yfirlýsingum en hann hefur ævinlega brotlent, magalent, og situr svo áfram í súpunni og styður Alþfl., skrifar upp á Alþfl., skrifar upp á framgöngu utanrrh. í samningum við erlend ríki þar sem landbúnaðarmál eiga í hönd og skrifar upp á hæstv. félmrh. núna.
    Nú á að ganga frá fyrir áramót, ef ég veit rétt, útfærslu okkar á því hvernig við stöndum að fullgildingu Úrúgvæ-niðurstöðu GATT-samninganna. Hvar er það mál á vegi statt? Ætli það verði ekki önnur eins endemis þvæla og framganga þessarar ríkisstjórnar varð hér í landbúnaðardeilunni miklu á síðasta vetri. Hörmuleg niðurstaða, til skammar fyrir þing og þjóð að fara þannig með viðkvæm og vandasöm mál eins og þar var gert. Skila hér tveimur nál. stjórnarsinna sem ganga gjörsamlega hvort í sína áttina, túlka málið í 180 gráður. Er von á annarri eins endemis niðurstöðu í GATT-málinu núna? Það er von að spurt sé vegna þess að það er auðvitað vitað að ríkisstjórnin er jafnórafjarri því nú eins og hún var áður að hafa nokkra sameiginlega stefnu í þessum efnum. Svona er þetta á fjölmörgum öðrum sviðum.
    Ég gerði stöðu mála í Alþfl. lítillega að umræðuefni fyrr í dag. Það er auðvitað með þvílíkum ólíkindum að þessi flokkur sem fékk helmingaskipti við Sjálfstfl. um ráðherra hefur síðan skipt út stórum hluta

af þingflokki sínum, ráðherrar og trúnaðarmenn flokksins komnir í bitlinga út um lönd og álfur, fjórir af tíu þingmönnum Alþfl. sem mættu hér til þings í upphafi þessa kjörtímabils eru annaðhvort gengnir úr flokknum og hættir að styðja hann eða farnir af þingi. Fjórir tíundu af þessum þingflokki eru horfnir með ýmsum hætti af sjónarsviðinu. Það er alveg með ólíkindum. En auðvitað er það vandamál Alþfl. hvað það snertir að kynna þá niðurstöðu svo þeim fáu kjósendum sem hugsanlega kynnu að glepjast til þess að kjósa flokkinn aftur hvernig hann ætlar að forsvara það hvernig þessi flokkur hefur farið með þó þann trúnað kjósenda sem hann fékk síðast, auðvitað allt of mikinn, byrjandi auðvitað á því að svíkja algjörlega lit í þeirri kosningabaráttu, blekkja menn til stuðnings við sig á þeirri forsendu að flokkurinn hefði hug á að halda áfram því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann hafði verið í en kosninganóttin var vart byrjuð þegar formaður Alþfl. hafði gefið yfirlýsingu um að það yrði svikið og hlaupinn í náðarfaðm íhaldsins. Kannski verður það svo að hæstv. forsrh. geti farið að velta fyrir sér orðum sem annar forsrh. fyrr á öldinn hafði um sambúðina við Alþfl. eftir að hafa haft hann í fanginu um alllangt skeið eða nánar tiltekið þrjú kjörtímabil: Ja, ætlar þetta að deyja í fanginu á manni? Það skyldi nú ekki fara svo að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, þurfi að velta því fyrir sér hvort svipuð staða sé í vændum að Alþfl. ætli að deyja í fanginu á honum.
    Auðvitað verkar það bæði á þing og þjóð sem argasti farsi þegar það er rifjað upp hvernig hrint var úr vör þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Þá voru vinahótin slík að það jaðraði við ósiðlegheit á almannafæri þegar þeir voru að heilsast og kveðjast vinirnir, núv. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þá var lagður hér fram stjórnarsáttmáli, þá þynnsti í sögunni, og hver var skýringin? Það þarf ekki orð á blaði þar sem svona heiðursmenn gera samkomulag. Það er bara handtakið sem dugar. Og hver er svo orðin staðan? Auðvitað mætti líka velta því fyrir sér hvort ástandið í Sjálfstfl. sé ekki að nokkru leyti skýring þess að hæstv. forsrh. velur þrátt fyrir allt að sitja með ónýta ríkisstjórn. Er það ekki þannig að hæstv. forsrh. hefur sjálfur setið uppi með klofinn þingflokk í afdrifaríkum málum og er nærtækt að vitna um dæmin þegar hæstv. forsrh. talaði með fyrirlitningu um atkvæðin eða atkvæðið a.m.k. sem hann gæti ekki treyst á. Ætli það sé ekki enn þá þannig að það kunni að leynast talsverðir veikleikar í baklandi ríkisstjórnarinnar, einnig í þingflokki hæstv. forsrh. og kemur e.t.v. á daginn hér í vetur.
    Hæstv. forseti. Mér segir svo hugur að það muni koma á daginn að einhver afdrifaríkustu ef ekki afdrifaríkustu mistök sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur gert á ferli sínum hingað til hafi verið þau að láta Alþfl. það eftir að hætta við kosningar núna í haust. Það skyldi nú ekki eiga eftir að sannast að það reynist hæstv. forsrh. ærið dýrt að leggja upp í þessa vonlausu för með þessa gjörsamlega ónýtu ríkisstjórn á þeim vetri sem í hönd fer og það komi á daginn að það hefði verið öllum fyrir bestu, ekki bara þjóðinni og efnahagsmálum hennar að kosið yrði í haust heldur líka flokkunum sem að þessu standa. Stjórnarsamstarfið er í rúst, glansmyndin mun ekki endast veturinn, hún er ekki á vetur setjandi og uppákomurnar í störfum ríkisstjórnarinnar hljóta að verka lamandi á allt starfið hér í vetur. Hvernig halda menn að staða hæstv. heilbrrh. verði þegar hann ætlar að fara að koma fram með þingmál, flytja hér frv. eða gæta hagsmuna síns málaflokks í fjárlagaafgreiðslu? Það hljóta auðvitað allir menn að sjá hvaða áhrif staða af því tagi sem nú er uppi hefur á allt starf ríkisstjórnar og málafylgju á allan hátt. Það er mjög vont fyrir alla að gagnslaus og óstarfhæf ríkisstjórn sitji við völd í allan vetur og það er mikið gæfuleysi hjá hæstv. forsrh. að skynja þetta ekki. Ég hefði talið að hann hefði, þó svo hann kunni að hafa metið það ófæra leið í haust í andstöðu við Alþfl., íhugað það vandlega nú í ljósi þess sem síðan hefur gerst að rjúfa þetta þing og boða til kosninga.