Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:50:06 (159)


[18:50]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að eyða tíma mínum í að vekja athygli á vandræðaganginum út af því hvort hæstv. utanrrh. teljist innan ríkisstjórnar eður ei, ég held að flestir hafi tekið eftir því. En mig langar til að leiðrétta hæstv. forsrh. þar sem hann segir blákalt að stjórnarandstæðingar hafi ekkert haft fram að færa til þess annars vegar að skera niður í ríkisútgjöldum og hins vegar að afla meiri tekna því það er önnur leið líka til að koma því í verk sem þarf að gera. Hafi hæstv. ráðherra hlustað í dag og aðra daga þar sem þessi mál hefur borið á góma þá hefur hann e.t.v. veitt því athygli að stjórnarandstaðan hefur sí og æ verið að reyna að koma því á framfæri og raunar sumir stjórnarliðar líka að hægt væri að nýta leiðir eins og hátekjuskatt og fjármagnstekjuskatt til að afla tekna. Mér þykir það mjög sérkennilegt ef hæstv. forsrh. hefur ekki enn þá tekið eftir þessu. En það kann að skýra það hvers vegna þessi mál eru að detta sem óðast út af borði hæstv. ríkisstjórnar.