Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 13:41:46 (168)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1995. Frv. var lagt fram fyrir rúmri viku á fyrsta þingdegi og hafa hv. þm. því haft gott tækifæri til að kynna sér helstu efnisatriði þess. Ég tel því ekki ástæðu til þess að fjalla ítarlega um einstök efnisatriði frv. Í ræðu minni mun ég því ekki síður fjalla um stefnumörkun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í efnahagsmálum, þann árangur sem stefnan hefur skilað og þau umskipti sem orðið hafa á flestum sviðum efnahagsmála á þessu kjörtímabili.
    Meira jafnvægi er nú í efnahagslífinu en verið hefur um áratuga skeið þrátt fyrir ýmis áföll síðustu ár vegna niðurskurðar aflaheimilda, erfiðs efnahagsástands í helstu viðskiptalöndum okkar og verðfalls á útflutningsafurðum. Verðbólga er með því lægsta sem gerist í heiminum. Tekist hefur að snúa meira en 20 milljarða kr. halla á viðskiptum við útlönd árið 1991 í afgang og horfur eru á afgangi á næsta ári, þriðja árið í röð. Erlend skuldasöfnun hefur því verið stöðvuð og raunskuldir fara nú lækkandi ár eftir ár. Þá hafa vextir lækkað verulega og eru nú lægri en verið hefur um langt árabil. Með lægri vöxtum fjárfesta fyrirtækin meira og ráða til sín fleira fólk. Enn fremur lækkar vaxtabyrði heimilanna og kaupmáttur þeirra eykst. Jafnframt er atvinnuleysi minna hér á landi en annars staðar. Þennan árangur má einkum rekja til markvissrar stefnu ríkisstjórnarinnar í peninga- og ríkisfjármálum, sérstakra efnahagsaðgerða stjórnvalda og ábyrgrar afstöðu aðila vinnumarkaðarins.
    Hagvöxtur hefur nú glæðst á nýjan leik hér á landi og horfur á hægfara aukningu næsta ár. Boðskapur þessa fjárlagafrv. er skýr. Ekki verður hvikað frá þeirri aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur fylgt.
    Nú þegar loksins rofar til í efnahagslífinu eftir erfiðleika og samdrátt undanfarin ár er afar mikilvægt að sá tekjuauki sem efnahagsbatinn skilar gangi til þess að minnka halla ríkissjóðs. Lækkun ríkisútgjalda og jafnvægi í ríkisbúskapnum eru forsendur þess að treysta hagvöxt í sessi og bæta lífskjörin. Þetta er kjarninn í stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Verði efnahagsaðstæður hagstæðar er í senn æskilegt og raunhæft að ná þessu markmiði á næsta kjörtímabili. Trúverðug stefna í ríkisfjármálum sem byggir á þessum grunni er forsenda fyrir lægri vöxtum, auknum hagvexti, eflingu atvinnulífs og bættum lífskjörum. Skilningur á mikilvægi hallalausra fjárlaga fer vaxandi, enda ljóst að hallarekstur í dag þýðir einfaldlega skattahækkun á morgun.
    Enda þótt stefnan í ríkisfjármálum gegni lykilhlutverki þarf fleira að koma til. Afkoma atvinnulífs hefur batnað, m.a. vegna aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til og aukinnar hagræðingar í rekstri. Í kjölfarið hafa umsvif í efnahagslífinu aukist. Hvort tveggja hefur jákvæð áhrif á atvinnustig og tekjur. Þessar aðstæður eiga að gera aðilum vinnumarkaðarins kleift að leiða komandi kjarasamninga til lykta án atbeina ríkisvaldsins.
    Að mörgu leyti verða næstu kjarasamningar gerðir við breyttar aðstæður frá því sem verið hefur. Vextir ákvarðast nú á markaði og almennar efnahagshorfur og væntingar hafa því í vaxandi mæli áhrif á vaxtastigið hér á landi líkt og gerist annars staðar. Þá mun frekari opnun fjármagnsmarkaðar gagnvart útlöndum um næstu áramót hafa þau áhrif að vextir verða enn viðkvæmari fyrir utanaðkomandi áhrifum en ella. Það er því afar mikilvægt að niðurstaða komandi kjarasamninga samræmist því jafnvægi sem náðst hefur í efnahagsmálum að undanförnu og kauphækkanir verði í takt við efnahagsbatann. Þannig tekst að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu.
    Langvinn efnahagslægð hefur haft neikvæð áhrif á þjóðarbúskapinn og nánast enginn hagvöxtur orðið hér frá árinu 1987. Síðari hluta þessa tímabils, eða frá árinu 1992, hefur verið sérstaklega erfiður vegna mikillar en óhjákvæmilegrar skerðingar á þorskveiðiheimildum. Alþjóðleg efnahagslægð sem gekk yfir á sama tíma bætti gráu ofan á svart og olli m.a. verðlækkun á erlendum mörkuðum og minnkandi sölu. Ekki bætir úr skák að í kjölfar langvarandi tímabils óðaverðbólgu stóðu mörg fyrirtæki frammi fyrir miklum örðugleikum sem kölluðu ekki einungis á aukið aðhald og hagræðingu í rekstri heldur grundvallarskipulagsbreytingar.
    Eins og öllum er kunnugt hefur ríkisstjórnin ekki setið auðum höndum heldur gripið til margvíslegra aðgerða til þess að bregðast við þessum vanda. Að öðrum kosti hefði skapast hér alvarlegt ástand og atvinnulífið komist í þrot og atvinnuleysið orðið mun meira en raun ber vitni. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu að því að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið með því að lækka skatta, ná niður vöxtum og treysta þannig almenn starfsskilyrði þess. Jafnframt hefur verið leitast við að draga úr áhrifum efnahagssamdráttarins á hag hinna tekjulægstu og efnaminni. Virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður og aðstöðugjald fellt niður en hvort tveggja leiddi til verðlækkunar á helstu nauðsynjum. Einnig var tekjuskattur á fyrirtæki lækkaður verulega til að treysta atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum. Þá voru fjárframlög úr ríkissjóði til ýmissa framkvæmda og atvinnuskapandi verkefna aukin verulega til að hamla gegn atvinnuleysi. Þessar aðgerðir hafa aukið halla ríkissjóðs um sinn. Ríkisstjórnin mat aðstæður hins vegar svo að það væri réttlætanlegt til þess að tryggja stöðugleikann í sessi, enda yrði tekið á ríkissjóðshallanum strax og betur áraði.
    Á þessu ári hefur árangur efnahagsaðgerðanna og stefnu ríkisstjórnarinnar komið glögglega í ljós. Í stað stöðnunar og jafnvel samdráttar undanfarandi ára birtast æ fleiri vísbendingar um að efnahagslífið sé að rétta úr kútnum og hagvöxtur sé tekinn að glæðast á nýjan leik. Engin merki eru þó um þenslu og verðbólga lítil og nánast engin samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Afgangur er á viðskiptajöfnuði og erlendar skuldir fara því lækkandi. Vextir hafa því lækkað og atvinnuleysi er minna hér en annars staðar. Loks eru horfur á að afkoma ríkissjóðs á árinu 1994 verði nær markmiðum fjárlaga en verið hefur um langt árabil.
    Allt eru þetta merki um að þáttaskil hafi orðið í efnahagsmálum hér á landi. Þau má að verulegu leyti rekja til markvissra efnahagsaðgerða og umbóta í hagstjórn í tíð ríkisstjórnarinnar. Þá skiptir ekki síður máli sú samstaða og sá skilningur sem almenningur í landinu hefur sýnt þessum aðgerðum, m.a. nauðsyn þess að skapa þyrfti atvinnulífinu traust starfsskilyrði. Þessi ábyrga afstaða hefur ráðið miklu um þann

stöðugleika sem við búum við nú.
    Á sviði ríkisfjármála hefur aðhald í rekstri verið hert og ábyrgð stjórnenda aukin. Sjálf fjárlagagerðin er markvissari og ábyrgð einstakra ráðherra og ráðuneyta meiri en áður. Ýmsar aðrar umbætur hafa orðið í ríkisrekstri.
    Ríkisstjórnin hefur markað ákveðna stefnu í útboðum á vegum ríkisins sem hefur skilað umtalsverðum sparnaði og aukið samkeppni. Þá er unnið að gerð þjónustusamninga milli ráðuneyta og stofnana, en með þeim verður reksturinn hagkvæmari og þjónusta við almenning betri. Einnig má nefna að á undanförnum árum hafa mörg ríkisfyrirtæki verið seld, Gutenberg, Jarðboranir, Ferðaskrifstofa Íslands, Íslensk endurtrygging, SR-mjöl og Þróunarfélag Íslands, og öðrum verið breytt í hlutafélög sem greiðir fyrir sölu þeirra síðar. Ríkisendurskoðun vinnur nú að sérstakri úttekt á þessum málum.
    Með samningum milli fjmrn. og Seðlabanka hefur verið lokað fyrir yfirdrátt ríkissjóðs í Seðlabanka og frá síðustu áramótum hefur ríkissjóður alfarið mætt fjárþörf sinni á almennum lánamarkaði. Þessi breyting þjónar margvíslegum tilgangi. Hún veitir nauðsynlegt aðhald við meðferð á almannafé, stuðlar að eflingu innlends fjármagnsmarkaðar og sýnir mjög áþreifanlega þá þýðingu sem afkoma ríkissjóðs hefur fyrir þróun vaxta.
    Á peningamarkaði hafa verið gerðar margvíslegar aðrar umbætur sem stuðla að frekari uppbyggingu verðbréfamarkaðar hér á landi. Þessar breytingar hafa gert Seðlabanka fært í ríkari mæli en áður að taka virkan þátt í viðskiptum á fjármagnsmarkaði og hafa þannig áhrif á vaxtaþróunina. Það, ásamt þeirri ákvörðun sl. haust að láta ríkissjóð leita á erlendan lánamarkað ef vextir lækkuðu ekki innan lands, átti stóran þátt í þeirri vaxtalækkun sem náðst hefur.
    Einnig vil ég geta þess að í þessari viku verður fyrsta útboð ríkissjóðs á skuldabréfum með tengingu við Evrópsku mynteininguna ECU og er fyrirhugað að þau verði framvegis tvisvar í mánuði. Með þessari nýjung er senn komið til móts við þarfir þeirra fjárfesta sem vilja dreifa áhættu og kaupa bréf í erlendri mynt og hamlað um leið gegn fjárstreymi úr landi.
    Ég vil taka það fram að með þessu útboði er ekki verið að afla viðbótarfjár til ríkissjóðs heldur er ætlunin að nýta þetta fé til að greiða upp skammtímalán. Ríkissjóður hefur þegar aflað alls þess lánsfjár sem á þarf að halda á þessu ári. Styrkari stjórn efnahagsmála hér á landi hefur einnig leitt til hagstæðari lánskjara Íslendinga erlendis.
    Ég hef nú farið nokkrum orðum um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, aðgerðir hennar og þann árangur sem stefnan hefur skilað. Næst vil ég gera stutta grein fyrir helstu niðurstöðum fjárlagafrv. og þeim áherslum sem þar ber hæst.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna, og það skiptir meginmáli, að með fjárlagafrv. er stefnt að því að lækka halla ríkissjóðs um þriðjung frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þannig er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs árið 1995 verði 6,5 milljarðar kr. eða 3 milljörðum lægri en á fjárlögum ársins 1994. Þetta svarar til 1,5% af landsframleiðslu samanborið við 2,5% árið 1994. Lögð er áhersla á að betri efnahagshorfur verði nýttar til þess að minnka halla ríkissjóðs verulega á næsta ári.
    Í öðru lagi lækka skatttekjur ríkissjóðs á næsta ári, þriðja árið í röð. Samkvæmt tekjuáætlun fjárlagafrv. lækka bæði heildartekjur og skatttekjur í hlutfalli við landsframleiðslu og þarf að fara allt aftur til ársins 1987 til að finna lægri skatthlutföll. Ríkisstjórnin mun því ekki grípa til skattahækkana til að draga úr halla ríkisins.
    Í þriðja lagi lækka útgjöld ríkissjóðs á næsta ári um rúma 4 milljarða kr. að raungildi. Þetta endurspeglar þá staðföstu stefnu ríkisstjórnarinnar að freista þess að draga úr halla ríkissjóðs með aðhaldi og sparnaði í ríkisútgjöldum. Hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu á næsta ári verður einnig það lægsta sem mælst hefur frá árinu 1987. Ég vek sérstaklega athygli á því að útgjöld ríkisins á næsta ári verða tæplega 9 milljörðum kr. lægri að raunvirði en á árinu 1991. En á næstu fjórum árum þar á undan jukust þau um tæplega 20 milljarða kr.
    Í fjórða lagi minnkar lánsfjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila um þriðjung 1995 eða úr 22 millj. kr. í 14 millj. kr. Þetta svarar til 3,2% af landsframleiðslu en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í áratug. Minni lánsfjárþörf ríkisins skapar skilyrði fyrir lægri vöxtum en ella.
    Þessi fjögur atriði sýna að ríkisstjórnin hyggst líkt og hingað til fylgja ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum. Í fjárlagafrv. er því ekki að finna kosningavíxla eins og t.d. gerðist 1991 sem þó magnaðist upp einkum og sér í lagi vegna þess að ekki tókst að loka lánsfjárlagafrv. fyrr en löngu eftir áramót og þegar nær hafði dregið kosningum.
    Ég mun nú gera grein fyrir helstu þáttum á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrv. auk lánsfjármála.
    Tekjur ríkissjóðs árið 1995 eru áætlaðar 109,4 milljarðar kr. samanborið við 106,8 milljarða á þessu ári. Aukin umsvif í efnahagslífinu styrkja tekjuhlið ríkissjóðs. Skatttekjurnar eru þó talsvert minni en við upphaf samdráttarskeiðsins á árinu 1991, hvort sem mælt er í hlutfalli við landsframleiðslu eða á föstu verðlagi.
    Á móti tekjuauka vegna efnahagsbatans vegur lækkun tekna í kjölfar ýmissa skattbreytinga á þessu ári en áhrif þeirra skila sér ekki að fullu fyrr en á næsta ári. Þar má nefna lækkun virðisaukaskatts á matvælum, breytingar á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, lækkun skatts á gjaldeyri og brottfall sérstaks tímabundins tekjuskatts, svonefnds hátekjuskatts. Samanlagt lækka þessar breytingar tekjur ríkissjóðs um 1,5

milljarða kr. á næsta ári.
    Þá vil ég nefna nokkur atriði sem lúta að hertu skatteftirliti og aðgerðum gegn skattsvikum. Í kjölfar tillagna nefndar sem ég skipaði á síðasta ári var störfum við skatteftirlit fjölgað og skatteftirlit þannig aukið verulega. Þá vinnur sérstök skrifstofa hjá embætti skattrannsóknarstjóra eingöngu að rannsóknum á svartri atvinnustarfsemi. Reglur um ýmsa frádráttarliði í rekstri fyrirtækja hafa verið endurskoðaðar og loks vil ég nefna að ég hef nýverið skipað sérstaka framkvæmdanefnd til að fjalla um þessi mál og koma með frekari tillögur til úrbóta.
    Ríkisstjórnin hefur kannað rækilega ýmsa kosti er varða samræmingu í skattlagningu eignatekna og annarra tekna. Afgreiðslu þessa máls var hins vegar frestað, ekki síst vegna ábendinga um að álagning eignatekjuskatts kynni að valda vaxtahækkun og vinna þannig gegn þeim aðgerðum sem stjórnvöld beittu sér fyrir til að lækka vexti. Auk þess var bent á að svipað gæti verið upp á teningnum vegna opnunar fjármagnsmarkaðarins gagnvart útlöndum og fjármagn kynni að streyma úr landi.
    Heildargjöld samkvæmt fjárlagafrv. eru 115,9 milljarðar kr. og lækka um 0,5 milljarða kr. að raungildi frá fjárlögunum 1994 og um 4 milljarða kr. frá áætlaðri útkomu á þessu ári. Frá árinu 1991 hafa útgjöld ríkissjóðs lækkað um tæpa 9 milljarða kr. að raungildi. Helstu einkenni á gjaldahliðinni eru þau sem ég mun nú lýsa.
    Áfram er unnið að því að efla þjónustu ríkisstofnana og auka hagkvæmni í rekstri þeirra. Áhersla er lögð á að auka ábyrgð stjórnenda og flytja ákvarðanir um rekstur sem næst vettvangi.
    Framlög til skólastofnana aukast að raungildi frá fjárlögum í tengslum við stefnumótun í málefnum grunnskóla og framhaldsskóla. Þá er rekstur stærstu sjúkrahúsa landsins styrktur með hliðsjón af verkaskiptingu milli þeirra.
    Í byrjun næsta árs taka gildi ný lög um húsaleigubætur. Hlutur ríkisins í þeim bótum er ákveðinn 400 millj. kr. en úthlutun bótanna verður á ábyrgð sveitarfélaga.
    Áfram er lögð áhersla á stuðning við rannsóknir, þróun og markaðssókn. Á árinu 1995 sér þessa m.a. stað í þátttöku í rannsóknaráætlun Evrópusambandsins og framlagi í nýstofnaðan lýðveldissjóð sem Alþingi samþykkti í sumar. Enn fremur er í undirbúningi stefnumótun um stuðning stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífi.
    Gert er ráð fyrir að átaksverkefni sveitarfélaga og ríkisins til atvinnueflingar haldi áfram, þriðja árið í röð. Verkefnið hefur gefist vel og átt þátt í að atvinnuleysi á yfirstandandi ári er talið vera minna en spáð var í upphafi árs. Stjórnvöld hafa óskað eftir viðræðum við sveitarfélög um þetta mál eða aðrar hugsanlegar leiðir að sama marki.
    Til að styrkja stöðugleika í ríkisfjármálum er stefnt að afnámi ákvæða um sjálfvirkar hækkanir á sköttum og bótagreiðslum. Þess í stað verði hækkanir ákveðnar við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.
    Mikilvægt er að efnahagsbatinn verði nýttur til þess að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera og auka svigrúm atvinnulífsins til fjárfestingar og fjölgunar starfa.
    Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila, svo sem húsnæðiskerfisins, fjárfestingarlánasjóða og opinberra fyrirtækja, er áætluð 14,4 milljarðar kr. á árinu 1995, um þriðjungi minni en í ár. Frá árinu 1991 hefur hrein lánsfjárþörf hins opinbera lækkað úr 10% af landsframleiðslu í 3% miðað við áform fjárlagafrv.
    Veruleg lækkun á lánsfjárþörf ríkissjóðs og hins opinbera stuðlar að enn frekari lækkun raunvaxta á innlendum lánamarkaði.
    Í tíð núv. ríkisstjórnar hefur þannig margt áunnist. Nú þegar allt bendir til þess að umskipti til hins betra hafi orðið í efnahagsmálum og fram undan sé hægfara efnahagsbati er brýnt að marka og fylgja skýrri efnahagsstefnu til nokkurra næstu ára. Þar ber hæst mikilvægi þess að draga úr halla ríkissjóðs.
    Fyrr á þessu ári kynnti ég skýrslu fjmrn. um áætlun í ríkisfjármálum til næstu ára. Skýrslan var unnin í samráði við Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands. Í henni eru sýndar niðurstöður tveggja dæma um hugsanlega þróun efnahagsmála fram til ársins 1998. Þar kemur fram að eina örugga leiðin til þess að örva hagvöxt og efla atvinnulífið felst í stöðugleika í verðlagsmálum og lægri vöxtum. Forsenda fyrir því er að áfram verði dregið úr halla ríkissjóðs með ströngu aðhaldi í ríkisútgjöldum. Með því eykst svigrúm einstaklinga og fyrirtækja til athafna. Framleiðsla og eftirspurn í þjóðfélaginu eykst. Ný atvinnutækifæri verða til og atvinnuleysi minnkar.
    Það er engin tilviljun að í nágrannaríkjunum er sífellt meiri áhersla lögð á stefnumörkun til lengri tíma, ekki einungis hjá stjórnvöldum heldur ekki síður hjá einkaaðilum. Skýringin er fyrst og fremst gjörbreyttar aðstæður á alþjóðamarkaði þar sem fjármagn streymir meira eða minna frjálst milli landa. Hér skipta væntingar miklu máli, ekki síst á peningamarkaði þar sem vaxtastigið er mikilvægur mælikvarði.
    Þessi mál sem ég hef hér verið að ræða hafa verið fyrirferðarmikil í efnahagsumræðu á alþjóðavettvangi undanfarin missiri. Á sameiginlegum fundi efnahags- og fjármálaráðherra EFTA- og ESB-ríkjanna, sem haldinn var í Brussel í síðasta mánuði, og eins á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Madrid í síðustu viku var breið samstaða um að meginviðfangsefni hagstjórnar á næstunni sé að skapa skilyrði fyrir auknum hagvexti og draga úr atvinnuleysi. Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og markviss áætlun um hvernig stjórnvöld hyggjast draga úr halla ríkissjóðs á næstu árum er veigamesta forsendan fyrir því að þessum markmiðum megi ná. Aðeins þannig er talið unnt að stuðla að áframhaldandi lækkun vaxta.
    Virðulegi forseti. Þegar þessi ríkisstjórn tók við á árinu 1991 var stjórn efnahagsmála í uppnámi. Gífurlegur halli var á viðskiptum við önnur lönd. Yfirdráttarskuld ríkisins í Seðlabanka var yfir 10 milljarðar kr. Hallinn á ríkissjóði þrefalt meiri en fjárlög höfðu gert ráð fyrir. Lánsfjárþörf opinberra aðila nam hátt í 45 milljörðum kr. og gleypti allan sparnað landsmanna og gott betur. Vextir voru því háir. Þessari þróun hefur verið snúið við. Þrátt fyrir margvíslegt andstreymi vegna samdráttar í efnahagslífinu hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir miklum breytingum til þess að treysta undirstöður efnahagslífsins en þar var víða pottur brotinn. Stöðugleiki ríkir á öllum sviðum efnahagsmála. Verðbólgan er með því lægsta sem gerist í heiminum og samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hagstofunni er framfærslukostnaður heimilanna sá sami í dag og var fyrir einu ári. Afgangur er á viðskiptajöfnuði og erlendar skuldir þjóðarinnar farnar að lækka. Lánsfjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila er nú einungis þriðjungur þess sem var þegar ríkisstjórnin tók við og sparnaður nær þrefalt meiri. Þá hafa vextir lækkað um nær helming. Enn fremur hefur tekist að koma í veg fyrir að atvinnuleysi ryki upp líkt og gerst hefur í flestum nágrannalöndum okkar. Af þessu má ráða að stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið árangursrík. Ríkisstjórnin hefur gripið til almennra aðgerða til að treysta stöðu atvinnulífsins, m.a. lækkað og fellt niður skatta. Um leið hefur verið leitast við að verja kaupmátt almennings, m.a. með lækkun virðisaukaskatts á matvælum og sérstökum stuðningsaðgerðum við hina lægst launuðu. Jafnframt var gripið til tímabundinna atvinnuskapandi framkvæmda til að hamla gegn atvinnuleysi.
    Um þessar aðgerðir hefur ríkt almenn sátt í þjóðfélaginu enda þær undirbúnar að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Nú er svo komið að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna er farinn að aukast á ný og er gert ráð fyrir að framhald verði á þeirri þróun á næsta ári.
    Á sviði ríkisfjármála hefur einnig margt áunnist. Ég vil sérstaklega nefna að frá árinu 1991 hefur tekist að lækka ríkisútgjöld um 7% að raunvirði eða sem nemur tæplega 9 milljörðum kr. Þetta er grundvallarbreyting og má til samanburðar nefna að næstu fjögur ár á undan jukust útgjöldin um tæplega 20 milljarða kr. Þá hefur yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabanka verið lagður af og tekin upp sú stefna að mæta fjárþörf ríkissjóðs alfarið á markaði. Með þessu hafa vaxtaákvarðanir færst út á markaðinn og efnahagsumhverfið styrkst til muna.
    Þetta var einn mikilvægasti þátturinn í því að skapa skilyrði fyrir þeirri vaxtalækkun sem orðið hefur. Þá er stefna ríkisstjórnarinnar um nýskipun í ríkisrekstri að skila árangri.
    Það er þess vegna fyrir öllu að halda þessu uppbyggingarstarfi áfram á næsta ári og næstu árum. Við megum alls ekki fórna þeim ávinningi og stöðugleika sem náðst hefur að undanförnu. Skammtímahagsmunir verða að víkja fyrir mikilvægari markmiðum til lengri tíma, m.a. um frekari lækkun erlendra skulda, aukna atvinnu og varanlegan hagvöxt. Það er forsendan fyrir bættum lífskjörum til framtíðar.
    Það er oft haft á orði að fjárlög á kosningaári séu marklaus því þá falli stjórnmálamenn oft í þá freistni að gefa út kosningavíxla og kaupa þannig atkvæði. Vissulega hefur raunin oft orðið sú á undanförnum árum. Dæmi frá síðustu kosningum árið 1991 er einna skýrast en þá voru útgjöld aukin verulega rétt fyrir kosningar með þeim afleiðingum að halli á ríkissjóði á kosningaárinu varð meiri en nokkru sinni fyrr. Það má ekki endurtaka sig. Þetta eru sem betur fer vinnubrögð sem almenningur telur ekki lengur boðleg. Þeir sem borga brúsann átta sig á því að viðbótarútgjöld og halli í dag þýðir einfaldlega skattahækkun á morgun.
    Markmið fjárlagafrv. fyrir árið 1995 er að leggja grunn að auknum hagvexti á næstu árum, festa stöðugleikann í sessi, halda vöxtum lágum og auka atvinnu. Brýnasta verkefnið er að skapa víðtækan skilning á því að þetta sé eina færa leiðin til þess að treysta og bæta lífskjörin í landinu.
    Alls staðar á Norðurlöndum hafa stjórnmálaflokkar, bæði til hægri og vinstri, sett fram hugmyndir um hvernig draga megi úr ríkisútgjöldum. Stjórnmálamönnum er ljóst að jafnmikil aukning ríkisútgjalda og verið hefur á undanförnum árum og áratugum getur ekki gengið. Ríkissjóður er ekki óþrjótandi peningauppspretta.
    Í þessu sambandi vil ég nefna nokkur mikilvæg viðfangsefni. Í fyrsta lagi er brýnt að ná jafnvægi í ríkisfjármálum með aðhaldi í útgjöldum en ekki skattahækkunum. Ég vil af þessu tilefni leyfa mér að vitna til viðhorfskönnunar sem fjmrn. lét vinna nýlega. Þar var spurt um afstöðu fólks til þess hvort það teldi mikilvægt að draga úr halla ríkissjóðs og hvernig ætti að ná því markmiði. Niðurstöðurnar voru mjög afdráttarlausar, þ.e. stuðningur við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að draga úr halla ríkissjóðs en það studdu 84% þeirra sem tóku afstöðu. Þegar spurt var um hvernig fólk teldi æskilegt að ná því markmiði voru svörin einnig afdráttarlaus: Meira en fjórir af hverjum fimm töldu að draga ætti úr ríkisútgjöldum en innan við 8% að hækka ætti skatta.
    Í öðru lagi vek ég athygli á því að á næstu árum munu útgjöld á ákveðnum sviðum velferðarmála aukast, m.a. vegna breyttrar aldursskiptingar þjóðarinnar og fjölgunar ellilífeyrisþega. Til þess að geta mætt auknum útgjöldum þarf að endurskoða forgangsröð verkefna, hagræða og beina greiðslum í auknum mæli til þeirra einstaklinga sem þurfa mest á þeim að halda en hætta að greiða þeim sem betur mega sín. Þannig má treysta stoðir velferðarkerfisins sem var fyrst og fremst byggt upp til að liðsinna þeim sem minnst mega sín.
    Í þriðja lagi þarf að hagræða í ríkisrekstri, m.a. með sameiningu og fækkun ríkisstofnana. Fjárlagafrv. fyrir árið 1995 gerir strangar kröfur um aðhald í ríkisrekstri, ráðuneytin eiga m.a. að hagræða hjá sér um 2% í rekstri og víða annars staðar verður sparað. Tryggja þarf að nýjum útgjöldum verður mætt með sparnaði.
    Í fjórða lagi tel ég eðlilegt og æskilegt að afskipti ríkisins beinist í ríkari mæli en nú að stuðningi við menntamál ekki síst rannsókna- og vísindastarfsemi um leið og dregið verður úr starfsemi sem einkaaðilar geta betur sinnt.
    Í fimmta lagi er eðlilegt að afnema ríkisábyrgð á sem flestum sviðum, einkum hjá þeim opinberu fjármálastofnunum sem starfa í beinni samkeppni við einkaaðila því að hún skekkir samkeppnisstöðu á fjármagnsmarkaði og heldur uppi vöxtum. Besta leiðin til að tryggja það er að breyta ríkisbönkum og fjárfestingarlánasjóðum í hlutafélög og selja hlutabréfin. Þangað til er eðlilegt að þessir aðilar greiði sérstakt ríkisábyrgðargjald.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er síðasta fjárlagafrv. þessarar ríkisstjórnar. Af því tilefni er eðlilegt að horft sé yfir farinn veg og spurt hvað hafi áunnist og hvernig við stöndum í samanburði við aðrar þjóðir. Ég hef bent á fjölmarga þætti sem horfa ótvírætt til framfara. Hér má nefna gerð rammafjárlaga, aukna ábyrgð einstakra ráðherra og umtalsverðan sparnað og lækkun útgjalda. Viðamiklar breytingar á peninga- og lánsfjármarkaði sem hafa leitt til lækkunar vaxta og ýmsar nýjungar í ríkisrekstri. Enn fremur hefur ríkisstjórnin gripið til umfangsmikilla aðgerða til að styrkja atvinnulífið og hamla gegn atvinnuleysi. Þá hafa skattar lækkað þrjú ár í röð og heildarskattbyrði sem hlutfall af landsframleiðslu reyndar ekki verið lægri síðan árið 1987. Þetta er mikilsverður vitnisburður þess að ríkisstjórnin hefur fylgt ábyrgri en um leið framsýnni stefnu í efnahagsmálum. Samanburður við aðrar þjóðir leiðir þetta enn rækilegar í ljós. Þannig er verðbólga hér á landi minni en í flestum iðnríkjum heims. Vextir eru einnig með því lægsta sem þekkist. Skuldir ríkissjóðs eru einnig minni en víðast hvar annars staðar. Loks er hallinn á ríkissjóði minni en í flestum nálægum löndum.
    Með stefnufestu ríkisstjórnarinnar og samstöðu þjóðarinnar eru Íslendingar að komast upp úr efnahagslegum öldudal. Mikilvægt er að nýta batnandi árferði til að styrkja enn frekar það jafnvægi sem nú ríkir í efnahagsmálum. Markviss efnahagsstefna sem miðar að jafnvægi í ríkisbúskapnum er forsenda aukinnar framleiðslu í landinu, fjölgunar starfa og þar með batnandi lífskjara almennings. Með fjárlagafrv. er stigið mikilvægt skref í þessa átt.
    Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.