Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:12:13 (169)


[14:12]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Við höfum nú hlýtt á fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. Hann er nokkuð borubrattur og hefur dregið upp mikla glansmynd á sviði ríkisfjármála. Ég verð því miður að segja að það vantar nú að skyggnast á bakhliðina á þeirri mynd og draga fram ýmislegt sem hæstv. fjmrh. lét undir höfuð leggjast í sinni ræðu. Það er nefnilega ljóst hvers konar blekkingarleik hér er verið að fara með. Hæstv. fjmrh. hefur gumað af því að hann ætli sér ekki að leggja fram kosningafjárlög, hér séu ekki kosningavíxlar á ferðinni. Þetta er sniðug flétta, en hún er því miður gegnsæ. Þetta er sett þannig upp að opinberar framkvæmdir eru skornar niður og þegar talað er um hvaða áhrif það hefur á atvinnustigið þá er einfaldlega sagt: Atvinnulífið í landinu er komið í svo fínt lag undir núverandi ríkisstjórn að það mun taka við. En er þetta nú svona? Er myndin svona rakin, hrein og tær eins og hæstv. fjmrh. lætur í veðri vaka? Ég held ekki, því miður. Ég mun koma aðeins að því síðar.
    Það sem fyrst kemur í hugann þegar fjárlagafrv. er skoðað er á hve traustum forsendum niðurstöður þess eru fengnar. Það er gert ráð fyrir því að halli fjárlaga verði 6,5 milljarðar á næsta ári, en lagt var upp á síðasta ári með 9,8 milljarða. En við skulum athuga það að þetta plagg sem hér liggur fyrir eru ekki staðreyndir. Þetta er áætlun yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs á næsta ári. Niðurstaða fjárlaga á yfirstandandi ári verður alls ekki 9,8 milljarðar. Það er nú þegar orðinn 11 milljarða kr. halli á ríkissjóði á yfirstandandi ári og enn er árinu ekki lokið og það þrátt fyrir að tekjuaukning hafi verið 2,6 milljarðar á árinu, það sem af er. Útgjaldaaukningin varð bara einfaldlega miklu meiri. Þannig að frávikið nemur 6,4 milljörðum kr. Hér er því ekki um neinar staðreyndir að ræða og þess vegna er nauðsynlegt að skyggnast í það á hvaða forsendum þessi gerningur er byggður og hvaða forsendur liggja hér að baki.
    Það er reiknað með því að hagvöxtur verði 1,4% á næsta ári. Það eru vissulega jákvæðar fréttir og ég ætla að vona að það markmið standist að hagvöxtur verði það, ekki veitir af, og sú forsenda fjárlagafrv. standist. En því miður er það svo að jafnvel þetta markmið er að mati Þjóðhagsstofnunar byggt á óvenju mikilli óvissu að þessu sinni.
    Það hafa verið góð aflabrögð í ýmsum greinum á þessu ári. Úthafsveiðar hafa verið miklar, en því miður ríkir óvissa um hluta þessara úthafsveiða. Alger óvissa um það ef veiðar minnka í Smugunni eða á Svalbarðasvæðinu hvort önnur mið koma í staðinn. Vissulega vonum við að okkur takist að tryggja okkar rétt þar og halda uppi aflanum, en þessi forsenda er eigi að síður óviss. Því síður er hann kominn til fyrir snilli þessarar ríkisstjórnar því það var nú frekar að það væri dregið úr útgerðarmönnum að fara í þessar veiðar heldur en að það væri ýtt undir þá.

    Fjárlagafrv. er byggt á því að atvinnuleysi næsta ár verði 4,9%. Það er gert mikið úr því að atvinnuleysi sé minna heldur en í nágrannalöndunum þar sem atvinnuleysi upp á tveggja stafa tölur hefur verið landlægt um árabil. En við stöndum eigi að síður í þeim sporum að atvinnuleysi hefur þrefaldast á þessu kjörtímabili og ég er hræddur um að hæstv. ráðherrar séu farnir að líta á þessa tölu eins og sjálfsagðan hlut og segja að ástandið sé bara harla gott. Og þá komum við að því, hvernig er brugðist við þessu? Hvernig á að halda atvinnuleysisstiginu svona? Er útlit fyrir að þetta markmið haldist? Er útlit fyrir að þetta verði minna eða meira?
    Það er staðreynd að opinberar framkvæmdir samkvæmt frv. eru skornar niður um 24,9%. Og svarið við því hvaða áhrif þetta hefur á atvinnustigið er það, eins og ég rakti áðan, að atvinnulífið í landinu sé þannig á vegi statt að það taki við þessum niðurskurði. Fjárfesting er í lágmarki í þjóðfélaginu. Ég vil beina þeirri spurningu til fjmrh. hvort hann telji í raun að þetta gangi eftir, hvort atvinnulífið sé í raun tilbúið til þess að skapa fleiri störf á næstu árum?
    Ég tók eftir því í framsöguræðu hæstv. fjmrh. áðan að hann fer með þessa fullyrðingu í framsöguræðu sinni: Með lægri vöxtum fjárfesta fyrirtæki meira og ráða til sín fleira fólk. Stenst þessi fullyrðing? Er lokið þeirri hagræðingarvinnu í fyrirtækjum sem fækkar fólki í stað þess að ráða til sín fleira fólk? Ég veit ekki betur en fyrirtæki hafi verið að fækka fólki á undanförnum árum en ekki ráða til sín fleira fólk. Ég veit ekki betur en í stórfyrirtækjum hér þá eigi fólk von á því enn þá, á hverjum degi, að fá sín uppsagnarbréf og það sé enginn öruggur um atvinnu sína. Þessi mynd ber a.m.k. ekki saman við þann heim sem ég lifi í, en ég veit ekki í hvaða heimi hæstv. ráðherrar lifa. Er búið þannig að nýsköpun og uppbyggingu nýrra atvinnufyrirtækja í þjóðfélaginu að þessi nýju atvinnufyrirtæki ráði til sín fleira fólk á næsta ári og fjárfesti í stórum stíl, t.d. í byggingum, vélakosti og öðru slíku? Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. þessarar spurningar. Er eiginfjárstaða fyrirtækja orðin það sterk eftir erfiðleika undanfarinna ára að bati, ef hann verður í afkomu, sem vonandi verður, og það hefur verið bati í afkomu, verði ekki notaður til þess að bæta hana í staðinn fyrir að fara í auknar fjárfestingar? Telur hæstv. fjmrh. að atvinnufyrirtækin í landinu muni hella sér út í fjárfestingar á næstu árum í stað þess að bæta eiginfjárstöðu sína? Það er staðreynd að fjárfesting hefur verið mjög mikil á síðasta áratug og hún hefur verið það mikil, það viðurkennum við öll, að það hefur verið talað um offjárfestingu. Það er vannýtt atvinnuhúsnæði í mörgum greinum. Mun atvinnulífið fara í það á næsta ári að fjárfesta stórlega í byggingum og taka þannig á móti fleira fólki í byggingariðnaðinum? Ég stórefa að myndin sé svona björt eins og hæstv. fjmrh. dregur fram í einni setningu í sinni framsöguræðu.
    Alþýðusamband Íslands hefur gefið út ályktun, eftir formannafund sinn, um þetta frv. og þá nálgast ég það atriði frv. sem gerir ráð fyrir að launaþróun á næsta ári verði í takt við batann í þjóðfélaginu og launahækkanir eða kaupmáttarhækkanir verði á bilinu 2--2,5% á næsta ári. Er líklegt að launafólk sé í því skapi núna að það markmið standist? Hefur jarðvegurinn verið undirbúinn þannig undir kjarasamninga, sem eiga að fara fram um áramótin, að það sé líklegt að þetta markmið náist? Að mati Alþýðusambands Íslands vantar 700 millj. upp á að það hafi verið staðið við fyrirheit um opinberar framkvæmdir til atvinnuaukningar og samkvæmt gögnum sem liggja fyrir frá þeim liggur fyrir að fjárfestingar til kaupa á nýrri björgunarþyrlu hafa verið taldar með fjárfestingum í þessu skyni. Ég held að þetta sé til þess fallið að fara í kringum hlutina og það er ljóst að á meðan þetta er ekki frágengið og þetta kemst ekki á hreint milli ASÍ og ríkisstjórnarinnar þá er ekki gott andrúmsloft í kjarasamninga, hvað þá þegar til viðbótar við þessar vanefndir kemur að opinberar framkvæmdir eru skornar stórlega niður til viðbótar og gengið á bak öllum orðum um framkvæmdir til atvinnuaukningar, sem m.a. hæstv. forsrh. var að ræða um sl. sumar. Vegaframkvæmdir í stórum stíl upp á eina 7 milljarða, sem að vísu átti að borga einhvern tíma í framtíðinni. En nú hefur greinilega verið snúið heldur harkalega við og reynt að setja upp þennan blekkingavef núna á kosningavetri.
    Ég get ekki varist því að minnast á önnur samskiptamál ríkisstjórnarinnar í þessum fyrri ræðutíma mínum og það eru samskipti hæstv. ríkisstjórnar við sveitarfélögin sem eru með miklum endemum og þær tölur sem eru í frv. og varða þau geta auðvitað ekki staðist og gera það að verkum að þetta plagg stenst ekki raunveruleikann. Það er alveg ljóst að hæstv. fjmrh., hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. skrifuðu undir yfirlýsingu um það á sl. hausti að það yrði ekki framlengt 600 millj. kr. gjald sveitarfélaganna í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta liggur fyrir skjalfest, en það er gengið á bak þessara orða í frv., auðvitað til stórtjóns fyrir öll samskiptin við sveitarfélögin. Hér segir t.d. Sigurður J. Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstfl. á Akureyri, í viðtali við Dag nýverið, að langlundargeð manna sé á þrotum hjá sveitarfélögunum.
    Það eru fleiri samskipti sem eru einkennileg varðandi sveitarfélögin. Þau hafa verið í skipulagsbreytingum, breytingum á verkaskiptingu sem áætlaðar eru á næsta ári. Það á að yfirtaka grunnskólann um mitt næsta ár. Þess sér hvergi stað í þessu frv. að það sé reiknað með neinum kostnaðarauka á sveitarfélögin þess vegna. Ég sé ekki betur en með þessari uppsetningu sé því máli stefnt í voða og það mál sé í uppnámi. Það er ekki reiknað með fjárveitingum í að framkvæma ný grunnskólalög, en sveitarfélögunum er vafalítið ætlað að gera það með þeim kostnaðarauka sem því fylgir. Það er líka ljóst að ríkisstjórnin lofaði því á síðasta hausti að Byggðastofnun kæmi með öflugum hætti inn í atvinnuuppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum. Í sameinuðum sveitarfélögum yrði gert átak í vegamálum. Hver einasta sveitarstjórn

í sameinuðu sveitarfélagi sem hefur komið til viðtals við fjárln. undanfarna daga hefur minnt á loforðið og krafist efnda. En hverjar eru efndirnar? Byggðastofnun fær 25 millj. kr. í viðbótarframlag til að standa undir svokallaðri stefnumótandi byggðaáætlun. Það er góðra gjalda vert. Hitt er ljóst að skorið hefur verið niður til hennar fjármagn í stórum stíl á undanförnum árum. Hún hefur enga möguleika á að koma inn í atvinnuuppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er því markleysa ein. Yfirlýsingar hennar um vegamál eru hrein markleysa. Samskipti hæstv. ríkisstjórnar við sveitarfélögin, sem hún á að hafa samskipti við úti í þjóðfélaginu, stórspilla fyrir því trausti sem þarf að vera milli ríkis og sveitarfélaga til þess að þau samskipti séu skikkanleg og hægt sé að koma á eðlilegri verkaskiptingu milli þeirra.
    Ég held að í þessu frv. sé ekki horfst í augu við raunveruleikann. Tekjur hafa stórminnkað hjá almenningi, fjöldi fólks er atvinnulaus, reiknað er með fimm prósent atvinnuleysi. Þess vegna krefst launafólk hlutdeildar í þeim bata og að eiga svolítið af þeirri glansmynd sem hefur verið dregin upp. Ekki er að sjá að það eigi neitt af henni. Hins vegar eiga þeir sem hæst hafa launin svolítið af henni vegna þess að hátekjuskattur hefur verið felldur niður og því er frestað enn um sinn að leggja skatt á fjármagnseigendur í landinu. Þetta frv. mun verða til þess að breikka bilið milli manna fremur en að jafna kjörin í landinu og það er miður.