Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:51:39 (181)


[14:51]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Nú í upphafi síðasta þings núv. ríkisstjórnar er áhugavert að líta í bækling sem þessi ríkisstjórn sendi frá sér í upphafi starfs síns og bar heitið Velferð á varanlegum grunni, stefna og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. Ekki síst er ástæða til að skoða loforð ríkisstjórnarinnar þegar hún leggur fram síðasta frv. sitt til fjárlaga. Það frv. hlýtur að verða nokkur mælikvarði á hvernig til hefur tekist um stjórn landsins.
    Því miður er það svo að torvelt er að ræða þau mál á málefnalegan hátt og það á til allrar ólukku við um öll önnur þjóðmál. Svo virðist sem þeir sem landinu stjórna hreyki sér af því sem sæmilega tekst en eru ábyrgðarlausir með öllu þegar illa tekst til. Gagnrýnislaus umfjöllun sýnist nægja fólki til að mynda sér skoðun á aðgerðum stjórnvalda og þegar ég segi gagnrýnislaus umfjöllun á ég kannski fyrst og fremst við þá tilhneigingu sem menn hafa til að setja allt undir einn hatt, viðhafa hnjóðsyrði um öll störf Alþingis, meta lítið það sem vel er gert og láta sér þess vegna fátt um finnast þó alvarlega sé misfarið með vald. Þessi hirðuleysislega umfjöllun fer því miður einnig fram í þingsal á stundum sem er mjög miður. Það er þess vegna eins víst að fæstir taki loforðaskrá nýrrar ríkisstjórnar alvarlega og því sé áðurnefndur bæklingur ríkisstjórnarinnar léttvægur þegar líður að lokum kjörtímabils. Ég ætla þó að leyfa mér að blaða í gegnum hann og rifja upp helstu áhersluatriði hans.
    Í fyrsta kafla sem heitir Framtíðarsýn segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin vill tryggja stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla þannig að því að sættir takist um sanngjörn kjör. Hún mun í þessu skyni beita sér fyrir aðgerðum í skatta- og félagsmálum, sem koma hinum tekjulægstu til góða.``
    Hæstv. ráðherrar guma mjög af stöðugleika í efnahagslífinu og benda á að tekist hefur að halda niðri verðbólgu. Víst er það mikilvægt. En ég er hrædd um að enginn stöðugleiki sé sýnilegur á heimilum launþeganna í landinu. Komið hefur fram að hver launþegi innan ASÍ með meðaltekjur 111 þús. kr. á mánuði hefur misst 300--400 þús. kr. vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í skatta- og félagsmálum eins og þar sagði. Hverjum það hefur komið til góða, eins og þar sagði einnig, er erfitt að sjá.
    Næsti kafli heitir Ráðdeild í ríkisrekstri. Þar stendur m.a.: ,,Ríkisstjórnin hyggst auka aga og ráðdeild í opinberum rekstri.`` Eftir umræðu síðustu vikna um grófa misnotkun almannafjár hljómar þetta eins og hver önnur aulafyndni. Ekki tekur betra við þegar fjallað er um sölu ríkisfyrirtækja. Þar segir m.a.:
    ,,Þá hefur ríkisstjórnin einsett sér að breyta ýmsum opinberum stofnunum og fyrirtækjum í hlutafélög er verði, a.m.k. fyrst um sinn, í eigu ríkisvaldsins, en hlutabréf í þeim verði síðan seld. Þessi fyrirtæki og stofnanir eiga að starfa við sambærileg skilyrði og almenn fyrirtæki enda gildi um reksturinn almennar bókhalds- og skattareglur. Þess verður gætt að einkafyrirtækjum verði ekki afhent einokunaraðstaða á markaði.``
    Frú forseti. Menn geta svo skoðað örlög Skipaútgerðar ríkisins og síðar Samskipa og samkeppnisstöðuna gagnvart Eimskipum og salan á Síldarverksmiðjum ríkisins er saga út af fyrir sig sem raunar hefur verið beðið um skýrslu um í hv. fjárln. Í kafla sem heitir Frá vanda til velferðar segir m.a.:
    ,,Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. mun standa vörð um afkomuöryggi landsmanna og jafna tækifæri þeirra og lífskjör.``
    Hvaða leið skyldi þessi sama ríkisstjórn hafa valið til þess að ná því markmiði? Jú, þá að stórauka greiðslubyrði sjúklinga og fatlaðs fólks, lækka tekjur aldraðra, lækka greiðslur til foreldra ungra barna og skera niður Lánasjóð ísl. námsmanna svo að eitthvað sé nefnt.

    Í kafla sem ber heitið Íslenskir atvinnuvegir efldir segir m.a.:
    ,,Aðgerðir til eflingar atvinnulífi landsmanna munu miða að því að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og tryggja atvinnu- og afkomuöryggi launafólks.``
    Afrakstur þessara fögru fyrirheita er sá að fjárlagafrv. ársins 1995 gerir ráð fyrir 4,8% atvinnuleysi. Meira en 6.000 Íslendingum er ofaukið á vinnumarkaðinum. Þessum útilegumönnum samfélagsins er ofaukið og ekki horfur á að það breytist. Það er að vísu ekki mikið rætt um jafnrétti kynjanna í hvítu bókinni svo að segja má að ekkert sé svikið þar. En ljóst er að atvinnuleysisvofan sækir ekki síst að konum sem ævinlega eiga í vök að verjast á vinnumarkaðinum.
    Hæstv. forseti. Það sem hér hefur verið talið upp af loforðum þessarar ríkisstjórnar er aðeins lítið brot af því sem lofað var og svikið. Það var því furðulegt að horfa á glaðhlakkalega ráðherrana gera að gamni sínu hér í þingsölum í gær og merkja í engu áhyggjur af því ástandi sem íslenska fjölskyldan horfir framan í þessa dagana. Sýnu meiri áhyggjur mátti greina í svipbrigðum fulltrúa Þjóðhagsstofnunar á fundi með fjárln. í fyrradag. Vissulega hefst þjóðhagsáætlun á þessum orðum með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Batamerki má nú víða sjá í efnahagslífinu`` og rætt er um að mikilsverður árangur hafi náðst á sviði efnahagsmála á undanförnum árum. Í hvítu bókinni var lofað hallalausum fjárlögum í árslok 1993 en fjárlagafrv. það sem nú liggur fyrir gerir ráð fyrir 6,5 milljarða halla á árinu 1995 sem er auðvitað óraunhæft með öllu. Sú hallatala er óraunhæf vegna þess að hún byggist á svo mörgum óvissuþáttum að erfitt er að taka mikið mark á henni.
    Um áramót eru kjarasamningar lausir og þrátt fyrir það að þorri launþega hafi nú laun sem nægja ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum er ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum. Halda menn virkilega að launþegar sætti sig við ástandið í launamálum einu sinni enn? Það held ég ekki. Ég tel að svo sé búið að herða að launafólki að það sé tilbúið til aðgerða. Það hefur þegar fært þær fórnir sem hugsanlega er hægt að ætlast til án þess að nokkru sé skilað til baka. Traust launamanna á ríkisstjórninni er ekki fyrir hendi lengur. Það er engin þjóðarsátt á dagskrá lengur.
    Eitt af loforðum ríkisstjórnarinnar í hvítu bókinni var að endurskoðuð skyldu frá grunni lög um starfsmanna- og kjaramál ríkisins og skilgreind á ný réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eins og þar segir á bls. 19. Hvar er sú endurskoðun?
    Launakerfið í landinu er einfaldlega ónýtt. Launamenn allt upp í launaflokka sem einu sinni gáfu þokkalega framfærslumöguleika taka nú laun sem eru langt undir því sem sannanlega þarf til nauðþurfta og lægstu laun eru litlu hærri en atvinnuleysisbætur. Og hefði það nú einhvern tíma þótt ógnvænlegt að lítill munur væri á vinnulaunum og atvinnuleysisbótum. Sú var tíðin að grunnhugmyndin að baki velferðarkerfisins var sú að það skyldi aldrei vera betri kostur en vinnulaun. Sú spurning verður því enn áleitnari hvort efnahagsbatinn ber í sér þá framtíðarsýn að við Íslendingar séum á leið til þess þjóðfélags sem vinir okkar Danir búa nú við en þar þiggja nú 40% landsmanna framfærslu hins opinbera án þess að vinna nokkuð fyrir þeim. Sú leið held ég að hæfi Íslendingum ekki vel enda er atvinnuleysi eitt versta böl hverrar þjóðar. Ég trúi því þess vegna ekki að launþegasamtökin sætti sig við áform ríkisstjórnarinnar um að kaupmáttur aukist lítillega og milli 6 og 7 þúsund vinnufúsra Íslendinga gangi atvinnulausir. Sú forsenda fjárlagafrv. er því ómarktæk.
    Annað er það atriði sem þjóðhagsspá gerir ráð fyrir sem er byggt í mýri en það er að úthafsveiðar Íslendinga verði jafnmiklar og á þessu ári. Grunur minn er sá að framganga Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða verði ekki til að tryggja hlut Íslendinga þar og jafnvel skaði okkur í samningum á öðrum svæðum. Það mál skal ekki rætt hér en ástæða er til að harma það mál allt. Sá stundargróði getur orðið að miklu tapi ef ekki er að gætt. Víst eiga þau 40 þúsund tonn sem á þessum svæðum veiddust sterkan þátt í efnahagsbatanum svonefnda ásamt milljarða uppgripum í loðnuveiðum en þarna er heldur ekkert á vísan að róa. Vissulega eru fiskveiðar okkar alltaf óvissuþáttur þegar um þjóðarhag er rætt en það er ótrúleg dirfska að reikna með að ævintýri ársins sem er að líða endurtaki sig. Fiskifræðingar eru tiltölulega bjartsýnir varðandi loðnuveiðar og spáð er hækkandi fiskverði en allt er þetta óvissunni háð. Þá er spáð þriggja milljarða samdrætti í fjárfestingum sem vitanlega krefst aukinna ríkisútgjalda. Síðast en ekki síst er gert ráð fyrir svipuðum þorskafla á heimamiðum og verið hefur sem líkur benda til að sé með öllu óraunhæft. Það er því ljóst að forsendur fjárlagafrv. eru í hæsta máta vafasamar og því frv. allt viðlíka vafasamt.
    Hæstv. forseti. Það er e.t.v. til lítils að fara yfir frv. lið fyrir lið við þessa 1. umr. Til þess gefst betra tækifæri við 2. umr. Minni hluti fjárln. fékk frv. í hendur um leið og aðrir hv. þm. og af ástæðum sem áður hafa komið fram hitti nefndin í heild fulltrúa fjmrn. ekki fyrr en í morgun. Fjölmörgum spurningum var því ósvarað þegar þessi orð voru sett á blað og er raunar enn og ekki bætir úr skák að í gær var lagt fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994, sem auðvitað er samtengt hinu nýja frv. og þyrfti að ræðast í samhengi við ríkisbúskapinn á næsta ári, en enginn tími gafst til skýringa á því. Ég mun því einungis gera athugasemdir við meginlínur í frv. til fjárlaga 1995 nú en fara nánar í saumana á því við 2. umr.
    Áætlaðar tekjur eru 109,5 milljarðar en gjöld 116 milljarðar, þ.e. fjárlagahallinn er áætlaður 6,5 milljarðar. Eins og áður er aðeins ákveðnum hluta launþega ætlað að bera skattbyrðina og engir tilburðir eru sýnilegir til að ná til þeirra sem mikið fjármagn eiga. Mér er ekki eins sárt um hátekjuskattinn sem ríkisstjórnin er nú að heykjast á. Það er vegna þess að hann bitnaði á ýmsum þeim sem síst skyldi, ýmist þeim

sem hafa mjög sveiflukenndar tekjur, t.d. sjómönnum, og ungu fjölskyldufólki sem mest þarf á fé að halda vegna íbúðakaupa og þungrar framfærslu. Tekjumarkið var einfaldlega of lágt og bitnaði ekki á þeim sem yfir verulegu fjármagni ráða. Það fjármagn fær að æxlast og auka kyn sitt í friði á meðan launafólk aflar til samneyslunnar. Fjármagnsskattur væri mun skynsamlegri leið til tekjuöflunar en hátekjuskattur af tekjum sem síst eru of háar.
    Það er ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar er enn sem fyrr að auka bilið milli hinna ríku og hinna fátæku, enda verðum við að viðurkenna að við notum nú orð hér í þingsölum sem ekki heyrðist oft fyrir nokkrum árum, þetta skelfilega orð: fátækt. Fátækt er nefnilega orðin staðreynd í þessu auðuga landi. Misskiptingin og óréttlætið daglegur fylgifiskur þúsunda manna. Haldi menn að þetta sé efnahagsbati er það rangt. Slíkur efnahagbati á eftir að hefna sín grimmilega. Verði ekki snúið frá þessari stefnu misskiptingar í samfélaginu er þessi þjóð í vanda sem erfitt getur reynst að ráða við.
    Það er athyglisvert að skatttekjur ríkissjóðs lækka þriðja árið í röð í hlutfalli við landsframleiðslu. Þær lækkuðu á þessu ári þrátt fyrir 7 milljarða happdrættisvinning í fiskveiðum. Skattar fyrirtækjanna lækkuðu nefnilega en skattar launþeganna hækkuðu. Heildarútgjöld lækka um hálfan milljarð kr. samkvæmt frv. Það er hins vegar áhyggjuefni að skuldir sveitarfélaganna eru nú komnar í þrjá milljarða kr. Er enginn vafi á því að ríkisvaldið hefur flutt verulegan fjárhagsvanda sinn yfir til sveitarfélaganna. Og enn á að láta þau bera 600 millj. af útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem sveitarfélögin hafa eðlilega mótmælt.
    Engin áform eru sjáanleg um afnám lánskjaravísitölu, en um það mál verður umræða hér innan tíðar þegar frv. þess efnis kemur á dagskrá en hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, hefur um árabil barist fyrir því máli. Ég vil hvetja alla hv. þm. að lesa grein eftir Guðmund J. Guðmundsson, fyrrv. hv. þm. og formann Dagsbrúnar, í Morgunblaðinu 8. okt. sl. þar sem hann bendir á fáránleika þessarar vísitölu, sem felur í sér að í hvert sinn sem laun hækka, hækka skuldir jafnframt. Ég trúi því sjálf að þjóð sem um langt skeið hefur búið við verðbólgu reyni að sjá svo til að það gerist ekki á ný. En þá verður hún að trúa því sjálf. Lánskjaravísitala er hins vegar staðfesting á því að stjórnvöld trúa því ekki sjálf að verðbólgu verði haldið niðri. Ef þau gerðu það væri lánskjaravísitalan afnumin.
    Hæstv. forseti. Í frv. til fjárlaga er það staðhæft á bls. 263 að erlendar skuldir muni lækka úr 55% í 52% á árinu 1995, þ.e. af landsframleiðslu, og um að 33% af útflutningstekjum muni fara til greiðslu vaxta af erlendum skuldum á þessu ári. Á árinu 1995 munu hins vegar 26,5% af útflutningstekjunum fara í greiðslu vaxta. Þess vegna mætti ætla að erlendar skuldir ríkissjóðs færu lækkandi. Þetta er hins vegar ekki svo því hér er ekki einungis um að ræða erlendar skuldir ríkissjóðs heldur allar erlendar skuldir. Nákvæm tala yfir erlendar skuldir ríkissjóðs er ekki auðfundin í frv. En fulltrúar fjmrn. upplýstu í fjárln. í morgun að þær hefðu hækkað.
    Ég hef áður lagt á það áherslu, hæstv. forseti, að of lítið hafi verið gert af því að greiða af erlendum skuldum þegar viðkomandi gjaldmiðill væri á hagstæðu gengi. En samkvæmt upplýsingum sömu fulltrúa ráðuneytisins hefur nú nokkuð verið gert af því. Ég fagna því að þær ábendingar hafa verið virtar.
    Þrátt fyrir efnahagsbatann er áætlað að tekjuhlið fjárlaga lækki um 1,5 milljarða en útgjöld aukist um 2%. Heildartekjur árið 1994 jukust um 2,8 milljarða eða 1,7% milli ára en í frv. fyrir árið 1995 er spáð 2% samdrætti milli þjóðartekna og þjóðarútgjalda.
    Nú er ég hrædd um, hæstv. forseti, að ég verði aðeins að hlaupa hér yfir nokkurn kafla í ræðu minni. Ég vil taka það fram að ég gerði einnig ráð fyrir að frá því hefði verið gengið að tvöfaldur tími gæfist til að ræða þetta mikilvæga mál en það var greinilegt að svo var ekki.
    Í stuttu máli held ég að þetta fjárlagafrv. sé óraunhæft. Ég vona að það eigi eftir að taka miklum breytingum. Það er hins vegar athyglisvert --- og ég vildi að ég hefði tíma til þess að fara í gegnum þau áhersluatriði sem ríkisstjórnin leggur fyrir --- en ég vil þó geta þess að hér er talað um framlög til EFTA eins og það eigi að starfa allt árið. Ég vil upplýsa það að á fundi sem við EFTA-nefndarfólkið áttum með Kjartani Jóhannssyni framkvæmdastjóra EFTA í Bern fyrir skömmu þá sagði hann að ákveðið væri að EFTA starfaði af fullum styrk til áramóta. Áætlaður tími til að draga starfsemina saman væri sex mánuðir. Hann sagði engar endanlegar ákvarðanir verða teknar fyrr en í desember þegar allar þjóðaratkvæðagreiðslur um inngöngu EFTA-landa í ESB væru afstaðnar. Hann sagði umræður um framtíð EFTA ganga út á að annaðhvort væri að leggja það niður eða viðhalda lítilli skrifstofu. Hann ítrekaði að dýrt mundi reynast að viðhalda sérfræðiþekkingu innan stofnunarinnar. Þau mál eru því auðvitað öll í upplausn eins og allir vita og þar með vitanlega samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
    En að lokum, hæstv. forseti, ég mun að sjálfsögðu taka til máls aftur, en það sem auðvitað vekur athygli manns í þessu fjárlagafrv. á gjaldahlið þess er hversu gengið er hart að menntunar- og menningarkerfinu í landinu. Á sama tíma og menn klifa á því að auka beri rannsóknir, bæði í atvinnuvegunum og á öllum sviðum, þá er skorið niður nærri alls staðar í skólakerfinu, í námslánakerfinu og Háskóla Íslands er haldið í svelti. Það getur ekki komið heim og saman í mínum kolli hvernig þetta tvennt getur farið saman, þau markmið að efla tækni, vísindi og rannsóknir en skera niður alls staðar í skólakerfinu.
    Ég mun fara aðeins ítarlega yfir þetta á eftir en það er auðvitað einnig athyglisvert hvernig farið hefur fyrir öllu brölti þessarar lánlausu ríkisstjórnar í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma og milljarðar hafa verið lagðir á fólkið í landinu sýnist sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu allur meira og minna í upplausn. Það

nægir að minna á að hér í höfuðborg landsins eru þrjú sjúkrahús (Forseti hringir.) og nú er svo komið að þar horfir til stórvandræða í þeim öllum.
    Hæstv. forseti. Ég verð að beygja mig fyrir lögum og reglum hér á hinu háa Alþingi og mun því bíða með seinni hluta ræðu minnar þar til ég fæ að komast að aftur.